[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
G uðmundur Þ. Guðmundsson , landsliðsþjálfari í handknattleik, var ánægður með frammistöðu sinna nýju lærisveina í Rhein-Neckar Löwen í gærkvöld.

G uðmundur Þ. Guðmundsson , landsliðsþjálfari í handknattleik, var ánægður með frammistöðu sinna nýju lærisveina í Rhein-Neckar Löwen í gærkvöld. Þeir unnu þá lið Arons Kristjánssonar , Burgdorf, 36:28 frammi fyrir 8 þúsund áhorfendum í Mannheim en þetta var fyrsti deildaleikur Löwen undir stjórn Guðmundar.

„Þetta var mikilvægur sigur því það er oft erfitt að ná upp einbeitingu í næsta deildaleik eftir sigur eins og við unnum í Barcelona,“ sagði Guðmundur á vef Löwen. Róbert Gunnarsson skoraði 4 mörk fyrir Löwen en Ólafur Stefánsson skoraði ekki þó að hann ætti fullt af góðum sendingum. Vignir Svavarsson var markahæstur hjá Burgdorf með 6 mörk, Hannes Jón Jónsson gerði 5 og Ásgeir Örn Hallgrímsson eitt.

Víkingar frá Ólafsvík, sem unnu 2. deildina í knattspyrnu með yfirburðum í sumar, hafa samið að nýju við Bosníumennina Eldar Masic og Edin Beslija um að leika með þeim í 1. deildinni á næsta tímabili. Þeir komu báðir til Ólafsvíkinga fyrir nýliðna leiktíð og tóku þátt í magnaðri sigurgöngu. Eini tapleikur sumarsins hjá liðinu var gegn FH í Kaplakrika í undanúrslitum bikarkeppninnar.

L árus Orri Sigurðsson , fyrrum landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, var í gærkvöld ráðinn þjálfari 2. deildar liðs KS/Leifturs til þriggja ára. Lárus Orri, sem er 37 ára gamall, hefur þjálfað Þór á Akureyri undanfarin ár en hætti þar í lok maí eftir útistöður við aðalstjórn félagsins. Hann spilaði síðan með Skagamönnum í 1. deildinni seinni hluta sumars. KS/Leiftur, sameiginlegt lið Siglfirðinga og Ólafsfirðinga, hafnaði í 9. sæti af 12 liðum í 2. deildinni í sumar.

Rebekka Skúladóttir , hornamaður Vals, fékk þung högg á framtennur í efri gómi undir lok leiksins við Fram í Meistarakeppninni í gærkvöldi en þá lenti hún í samstuði við Sigurbjörgu Jóhannsdóttur . Rebekka fór af leikvelli, hún var mjög aum en vonast er til að tennurnar hafi ekki losnað né kjálkinn brotnað.

E inar Jónsson mátti ekki stýra Fram í gærkvöldi í leiknum í Meistarakeppni HSÍ við Val. Hann tók úr fyrsta leik af þremur í leikbanni sem hann fékk í vor eftir að hann þótti hafa verið stóryrtur í garð dómara eftir síðasta úrslitaleik Vals og Fram um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik. Guðríður Guðjónsdóttir stýrði Fram-liðinu í fjarveru Einars sem fylgdist með leiknum úr áhorfendastúkunni.

Marthe Sördal , hornamaður Fram, lék ekki gegn Val í gær. Hún gekkst undir lítils háttar aðgerð á dögunum en verður klár í fyrsta umferð deildakeppninnar um helgina.