Fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur Mikill fjöldi stuðningsmanna nímenningana fylgir þeim ávallt þegar málið er tekið fyrir í héraðsdómi.
Fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur Mikill fjöldi stuðningsmanna nímenningana fylgir þeim ávallt þegar málið er tekið fyrir í héraðsdómi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Andri Karl andri@mbl.

Fréttaskýring

Andri Karl

andri@mbl.is

Þrátt fyrir að sýna fram á fordæmi þess að Hæstiréttur hafi tekið til efnislegrar meðferðar synjun frávísunar máls vegna ágreinings um hæfi sækjanda í sakamáli vísaði rétturinn frá dómi kæru Ragnars Aðalsteinssonar, verjanda fjögurra sakborninga, í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem gefin er að sök árás á Alþingi. Ragnar segir að um mismunun sé að ræða enda hefði ákæruvaldið getað kært úrskurðinn til Hæstaréttar hefði málinu verið vísað frá.

Sakborningar í málinu kröfðust þess að Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði máli á hendur þeim frá dómi á þeirri forsendu að settur ríkissaksóknari, Lára V. Júlíusdóttir, væri vanhæf sökum setu hennar í bankaráði Seðlabankans en Alþingi skipaði hana í ráðið. Pétur Guðgeirsson héraðsdómari synjaði kröfunni og sagði ekki ástæður til að draga í efa óhlutdrægni Láru.

Segir fordæmið í fullu gildi

Í lögum um meðferð sakamála, sem sett voru árið 2008, eru talin upp þau tilvik þar sem heimilað er að kæra úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar. Í t-lið 192. gr. sakamálalaga segir að heimilt sé að kæra úrskurð ef „að máli sé vísað frá dómi“. Í sömu upptalningu er þess hins vegar ekki getið að kæra megi úrskurð ef dómari hefur synjað frávísun.

Ákvæðið er hliðstætt því sem var að finna í lögum um meðferð opinberra mála, sem urðu úrelt með setningu nýju sakamálalaganna, en þar sagði að ekki væri hægt að kæra til Hæstaréttar synjun frávísunar.

Í greinargerð sinni til Hæstaréttar bendir Ragnar á, að ákvæðið í lögum um meðferð opinberra mála hafi ekki staðið í vegi fyrir því að ágreiningur um hæfi sækjanda í sakamáli var borinn undir Hæstarétt, en þá – líkt og nú – hafði Héraðsdómur Reykjavíkur synjað kröfu ákærða í málinu um að sækjandi viki sæti.

„Þrátt fyrir orðalagsbreytingar við setningu nýrra sakamálalaga stóð ekki til að breyta efnislegu inntaki ákvæðisins. Fordæmi Hæstaréttar er því í fullu gildi og á við í því máli sem hér um ræðir,“ segir Ragnar í greinargerð sinni og bætir við: „Ef það væri réttur skilningur að slíka úrskurði megi sakborningur ekki kæra til Hæstaréttar, en það megi aðeins ákæruvaldið gera, þá er augljóslega verið að mismuna aðilum og brjóta á reglunni um jafnræði aðila fyrir dómi.“

Ragnar telur málefnaleg rök hníga gegn slíkri lausn þar sem synjun héraðsdóms um frávísun málsins fresti þeirri ákvörðun þar til dæmt verður í málinu og því síðan áfrýjað til Hæstaréttar. „Kæmist Hæstiréttur þá að þeirri niðurstöðu að saksóknari hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins og vísa hefði átt málinu frá héraðsdómi þá hefur mikill tími farið til spillis og miklu til kostað svo ekki sé talað um þau neikvæðu áhrif sem það hefur á líf sakbornings.“

Rökum ekki svarað

Hæstiréttur segir einfaldlega í dómi sínum: „Úrskurður héraðsdómara, þar sem synjað er um frávísun opinbers máls, fellur ekki undir neina af kæruheimildum ákvæðisins. Brestur þannig heimild til kæru úrskurðarins og verður málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.“

Ragnar segir Hæstarétt ekki hafa svarað neinum rökum sínum, og bendir auk þess á að hægt sé að kæra úrskurð ef ágreiningur er uppi um vanhæfi dómarans. „Svo segir í lögunum að fara eigi eins með vanhæfi saksóknara og dómara.“

GERT TIL AÐ FLÝTA FYRIR MÁLSMEÐFERÐ?

Pólitískt en ekki lögfræðilegt

„Þessi regla er sett vegna þess að án hennar geta menn endalaust verið að seinka máli. Hún er því talin tryggja að mál gangi greiðlega fyrir sig,“ segir Eiríkur Tómasson lagaprófessor. Hann segir ekki brotið á neinum þó svo ekki sé hægt að kæra synjun frávísunar því málið heldur áfram og verður krafan tekin fyrir við efnismeðferð í Hæstarétti. Væri því vísað frá hefði það alvarlegar afleiðingar, í þessu tilviki fyrir ákæruvaldið.

Eiríkur segir regluna hafa verið mjög lengi í réttarfarslögum, en auðvitað megi ræða hvort hún sé skynsamleg. „En það er pólitísk spurning frekar en lögfræðileg.“

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands, segir ýmis rök fyrir því að breyta reglunni. „Þau rök eru helst að sakborningar þurfi ekki að ganga í gegnum aðalmeðferð ef málið er svo búið að því er vísað frá í Hæstarétti. Það getur verið mikið áfall fyrir menn að ganga í gegnum aðalmeðferð.“

Til meðferðar
» Í ákæru segir að þeir níu einstaklingar sem ákærðir eru í málinu hafi í heimildarleysi ruðst inn í Alþingishúsið 8. desember 2008.
» Þeir eru ákærðir fyrir brot gegn Alþingi, brot gegn valdstjórninni, brot gegn almannafriði og allsherjarreglu og húsbrot.
» Meðal annars er ákært á grundvelli 100. gr. almennra hegningarlaga. Refsing við brotinu varðar í það minnsta við fangelsi í eitt ár.
» Áhöld eru um hvenær aðalmeðferð fer fram í málinu en samkvæmt dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur verður það laugardaginn 4. desember frá kl. 9-17.