Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir
Eftir Eddu Jónsdóttur: "Þjóðir heims fylktust um þá hugmynd að allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum."

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um að allir eigi jafnan rétt. Á ensku útleggst það „everyone has the right“. Í orðinu „everyone“ á ensku býr fyrirheit um einingu (e. one-ness). Við erum öll eitt. Þetta má aldrei gleymast.

Í samfélagi okkar sem byggjum þetta land hefur einingin verið á undanhaldi og hefur hopað fyrir sundrungu. Við erum meira og minna öll sek um að hafa tekið þátt í að sundurdreifa á einn eða annan hátt. Setningar í ætt við „Ég var þó allavega ekki svo vitlaus að taka erlend lán“ eða „Ég eyddi ekki um efni fram“ eða jafnvel „Ég hagaði mér ekki eins og óreiðumaður“ eru víða látnar falla. Þessar setningar bera vott um þann anda sem ríkir í okkar samfélagi. Margir virðast fastir á þeim stað að þurfa að greina sig frá hinum sem breyttu ekki rétt. Nokkurs konar sjálfsréttlæting sem leiðir einungis til sundrungar og getur á endanum haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur sem hér búum.

Þessa hugsunarháttar gætir víðast hvar í samfélaginu og er Alþingi þar ekki undanskilið. Setningar á borð við „Við í mínum þingflokki erum ekki eins og hinir í öðrum þingflokkum“ heyrast oftar en ekki í fréttatímum. Hugsunarhátturinn endurspeglast því miður oftar en ekki í störfum þingsins.

Fjölmiðlar ýta undir hugsunarhátt aðgreiningar með því að taka fram hvaðan brotamenn eru, séu þeir af erlendum uppruna. Við Íslendingar – hinir útlensku afbrotamenn. Þetta viðhorf ýtir undir fordóma og er eingöngu til þess fallið að ýta undir aðgreiningu í samfélaginu.

Þessa gætir einnig í öðrum löndum og er nýlegt dæmi þess að sjá í úrslitum þingkosninga í nágrannalandi okkar Svíþjóð. Þar fengu Svíþjóðardemókratarnir 20 menn kjörna en þeir hafa að markmiði að stöðva komu innflytjenda til Svíþjóðar. Það er að mínu viti hættumerki þegar þjóðir á borð við Svíþjóð kjósa yfir sig slíka hugmyndafræði.

Við skulum ekki gleyma því að öfgaþjóðerniskennd er grunnurinn að þeirri hugmyndafræði sem varð heiminum að falli í seinni heimsstyrjöldinni.

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar í kjölfar hildarleiks seinni heimsstyrjaldarinnar. Þjóðir heims fylktust um þá hugmynd að allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum.

Sá sem ekki safnar saman – hann sundurdreifir, segir á góðum stað og þar kemur að ábyrgð okkar sem einstaklinga. Hvert og eitt okkar getur breytt heilmiklu. Munum eftir því sem er sameiginlegt öllum mönnum í stað þess að leita að því sem einkennir aðeins hina.

Höfundur er mannréttindafræðingur.