Geitin Huðna lætur vel að kiðlingi í kvikmyndinni Le quattro volte.
Geitin Huðna lætur vel að kiðlingi í kvikmyndinni Le quattro volte.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Michaelangelo Frammartino. Aðalleikarar: Giuseppe Fuda, Bruno Timpano, Nazerano Timpano. 88 mín. Ítalía/Sviss. 2010. Flokkur: Vitranir.

Önnur mynd leikstjórans/handritshöfundarins Frammantino er dæmigerð „hátíðamynd“, eins og margir skilgreina óhefðbundin verk sem koma á óvart með frumlegri framvindu og framsetningu sem á lítið sammerkt með þeim efnistökum sem við eigum allajafna að venjast.

La Quattro Volte fer í meginatriðum sínar eigin leiðir. Aðalpersónan er aldurhniginn geitahirðir (Fuda), sem dregur fram lífið á rykinu sem er safnað saman fyrir hann á kirkjugólfinu og bætir í matinn. Sóparinn er öldruð kona í fjallaþorpinu á Kalibríu-skaganum þar sem geitabóndinn býr í útjaðrinum með hjörðina sína og borgar kerlu fyrir greiðann með mjólkursopa. Hirðirinn er fársjúkur og þegar sóparinn gefur upp öndina fer hann fljótlega sömu leið – en nýr kiðlingur fæðist og bætist í geitahópinn.

Lífshringurinn, þetta undarlega en fyrirfram varðaða ferðalag á milli lífs og dauða, er í forgrunni í undarlegri mynd sem vann til minniháttar verðlauna á Cannes í vor. Moldin og skíturinn sem karlinn nærist á af gólfi guðshússins minnir á ritningargrein og helgiblær svífur yfir einstakri atburðarásinni. Myndin er kaflaskipt, engin persónanna segir aukatekið orð. Það eina sem berst að eyrum er jarmur geita og náttúruhljóð ýmiss konar. Langar tökur úr lofti gefa áhorfandanum gott færi á að fylgjast með einfaldri sögumennsku á yfirborðinu, sem þeir geta túlkað að vild.

Sæbjörn Valdimarsson

Sýnd í dag.
Höf.: Sæbjörn Valdimarsson