September Mánuðurinn kveður með hlýindum og miklum rigningum.
September Mánuðurinn kveður með hlýindum og miklum rigningum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nú er runninn upp síðasti dagur septembermánaðar og fylgjast áhugamenn um veður spenntir með því hvort sumarið verði það hlýjasta í Reykjavík síðan mælingar hófust árið 1871, eða fyrir 139 árum.

Nú er runninn upp síðasti dagur septembermánaðar og fylgjast áhugamenn um veður spenntir með því hvort sumarið verði það hlýjasta í Reykjavík síðan mælingar hófust árið 1871, eða fyrir 139 árum.

Meðalhitinn í Reykjavík það sem af er þessum mánuði er enn rúmlega 10 stig, vel yfir meðallagi.

Hlýtt var í Reykjavík framan af september. En þann 12. kólnaði og hélst kuldinn til 24. september. Þá hlýnaði aftur og hefur meðalhitinn í Reykjavík verið yfir 10 gráður alla daga síðan. Jafnframt hafa verið miklar rigningar.

Samkvæmt skilgreiningu Veðurstofunnar er sumarið fjórir mánuðir, september telst einnig með. Mánuðina júní til ágúst mældist methiti í Reykjavík, meðalhiti 12,2 stig. Árin 1939 og 1941 var september fádæma hlýr bæði árin og því var barátta sumarsins í ár um fyrsta sætið mjög erfið. En allar líkur eru á því að sumarið í ár muni ná metinu.

Hins vegar er ljóst að september nú er langt frá því að ná meti þess mánaðar. Hæsti meðalhiti í Reykjavík til þessa í september er frá árinu 1939, 12 gráður. Lægstur hefur hann mælst í september 1918, 4,3 gráður.

Víðar á landinu hafa verið hlýindi og met gætu fallið. Það mun koma í ljós þegar mánuðurinn verður gerður upp á morgun. sisi@mbl.is