Blak Birna Baldursdóttir nýbúin að redda boltanum upp og Fríða Sigurðardóttir er albúin að taka næsta smass.
Blak Birna Baldursdóttir nýbúin að redda boltanum upp og Fríða Sigurðardóttir er albúin að taka næsta smass. — Ljósmynd/Aðalheiður E. Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Pálmason runarp@mbl.is „Þetta er brjálæðislega gaman. En ég kvíði svolítið fyrir því að vera í bikiníi. Það er eiginlega bara fyndið því maður æfir ekki svona klæddur hér.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

„Þetta er brjálæðislega gaman. En ég kvíði svolítið fyrir því að vera í bikiníi. Það er eiginlega bara fyndið því maður æfir ekki svona klæddur hér. Hér æfum við í rigningu, kulda og hagléli,“ segir Birna Baldursdóttir, íþróttakennari með meiru, en hún er á leið á stórmót í strandblaki á Kanaríeyjum. Birna er í þremur landsliðum, í strandblaki, blaki og í íshokkíi. Þó það sé ekki einsdæmi að sami einstaklingur sé í þremur íslenskum landsliðum er óhætt að fullyrða að þessi samsetning hefur aldrei sést fyrr.

Bobbsleðalið Jamaíka fór á ÓL!

Mótið á Kanaríeyjum er undankeppni fyrir Ólympíuleikana í London 2012. Samkvæmt alþjóðlegum keppnisreglum verða keppendur að klæðast bikiníi, þ.e. þeir sem keppa í kvennaflokki. Meðspilari Birnu er Fríða Sigurðardóttir. Birna segir að þær ætli fyrst og fremst að hafa gaman af keppninni og ná sér í reynslu. Þetta sé þeirra fyrsta stórmót. „Það væri eins og þegar bobbsleðalið Jamaíka komst áfram, ef við kæmust á Ólympíuleikana. En maður á aldrei að útiloka neitt fyrirfram.“ Alls fara átta íslenskir keppendur á mótið.

Birna er mikill íþróttamaður og hefur æft fjölmargar íþróttagreinar í gegnum tíðina. Hún hefur verið í A-landsliðinu í blaki frá 1998 og komst fljótlega í landsliðið í íshokkíi eftir að hún byrjaði að æfa þá íþrótt fyrir um 11 árum, þá 19 ára gömul. Reyndar hefur hún þurft að taka sér tvö hlé vegna barneigna en hún á tvo syni með Þórði Sigmundi Sigmundssyni, fædda 2007 og 2009. Hún gerði hlé á íshokkíæfingum vegna náms sunnan heiða en hóf æfingar að nýju þegar hún sneri aftur norður.

Auk þess að æfa blak, strandblak og íshokkí hefur Birna æft badminton, fótbolta, skák, körfubolta, frjálsar íþróttir og skíði. Hún æfði einnig júdó í sjö ár og varð Íslandsmeistari í greininni. Hún var komin með bláa beltið þegar hún hætti. Ástæðan fyrir því að hún hætti í júdó var að hún fótbrotnaði og Birna bætir við að henni hafi, sem gelgju, verið farið að finnast júdóið fullstrákalegt.

Birna segir töluverðan mun á að spila strandblak eða venjulegt innanhússblak. Það sé mun erfiðara að hreyfa sig í sandinum en á gólfi íþróttahúss. Hún telur sig hafa bætt tæknina með því að æfa strandblak.

„Maður er alltaf að bæta sig á einhverjum sviðum, þó að maður sé orðinn þrítugur,“ segir hún.

ÆFIR ÍÞRÓTTIR 13-15 SINNUM Í VIKU

„Það er ekkert að gera hjá mér“

Það þarf varla að koma á óvart að Birna Baldursdóttir skyldi ákveða að læra íþróttafræði. Hún lauk prófi frá Laugarvatni árið 2004 og kennir nú íþróttir og sund við Brekkuskóla á Akureyri og einnig líffærafræði og náttúrufræði á unglingastigi.

Birna fer á 13-15 æfingar í viku, bæði í þeim íþróttagreinum sem hún æfir en einnig lyftir hún og stundar svokallað crossfit sem er þrek- og styrktarþjálfun. „Svo er ég líka að læra að verða ÍAK einkaþjálfari af því að það er ekkert að gera hjá mér, segir hún en meinar það greinilega ekki. Hún sagði að hún gæti aldrei keppt og æft svona mikið nema af því að aðstandendur og vinir hjálpuðu mjög mikið til.