Hagkvæmt „Þar sem varan er frosin er ekki um nein afföll að ræða −allt sem er á lager, það selst,“ segir Árni Eyjólfsson, fisksali á netinu, sem hér sést með vænan rækjupoka í fanginu kláran til afhendingar heim að dyrum.
Hagkvæmt „Þar sem varan er frosin er ekki um nein afföll að ræða −allt sem er á lager, það selst,“ segir Árni Eyjólfsson, fisksali á netinu, sem hér sést með vænan rækjupoka í fanginu kláran til afhendingar heim að dyrum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Honum Árna Elvari Eyjólfssyni liggur ekkert of mikið á að stækka reksturinn: „Þetta er bæði lítið og þægilegt,“ segir hann en Árni rekur netverslunina Fiska.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Honum Árna Elvari Eyjólfssyni liggur ekkert of mikið á að stækka reksturinn: „Þetta er bæði lítið og þægilegt,“ segir hann en Árni rekur netverslunina Fiska.is og þykir alveg nóg í bili að pakka með konu sinni og færa heim að dyrum viðskiptavinanna frystan fisk og aðra matvöru.

„Ég keypti fyrirtækið Hagfisk fyrir sex árum. Ég var þá nýfluttur til Reykjavíkur og var að leita mér að einhverju að gera,“ segir Árni en saga Hagfisks nær um 15 ár aftur í tímann. „Svo breytti ég loksins nafninu í vor, í Fiska.is, til að undirstrika netsöluna en framan af hafði Hagfiskur einkum fengist við símsölu.

Annars breyttist bara nafnið, en ekki kennitalan eða eitthvað svoleiðis vafasamt,“ bætir hann við og kímir.

Tryggir viðskiptavinir

Árni ljóstrar upp að langmest af sölunni sé til fastakúnna og símasalan sé enn lykilþáttur í starfinu. „Við hringjum reglulega í viðskiptavinina til að athuga hvort þeir vilji panta hjá okkur og margir eru einskonar áskrifendur hjá okkur. Bæði eru þetta einstaklingar og fjölskyldufólk en líka er orðið þónokkuð um sölu til veitingastaða og mötuneyta.“

Viðskiptahugmyndin gengur í grófum dráttum út á litla yfirbyggingu og magnsölu á frystri vöru. „Þar sem varan er frosin er ekki um nein afföll að ræða – allt sem er á lager selst. Pakkningarnar eru yfirleitt þetta frá 2 kílóum og upp í 9 kg fiskblokkir og hjá einstaklingum er meðalsalan í hvert skipti kringum 7.000-kallinn,“ segir Árni sem einnig rekur fisksölubás í Kolaportinu um helgar. „Svo er auðvitað launakostnaðurinn í lágmarki þegar maður gerir allt sjálfur: pakkar, keyrir út og heldur utan um bókhaldið.“

Ódýrari vara en erfitt að stækka kúnnahópinn

Árni slumpar á að þegar kemur að algengustu fisktegundum bjóði hann um 10-15% lægra verð til neytandans en finna má ódýrast í matvöruverslununum. „Svo byrjuðum við í vor að flytja inn helling af sjávarfangi eins og risarækju og kræklingi. Þessar vörur náum við að selja neytandanum milliliðalaust svo verðið er jafnvel frá 30% og upp í 70% lægra en út úr búð.“

Þetta verslunarform hefur eðlilega bæði sína kosti og galla. Árni leggur á það áherslu að hann selji aðeins gæðavöru, en yfirstíga þurfi vissan þröskuld þegar kemur að því að afla nýrra viðskiptavina sem geta auðvitað ekki staðfest gæðin fyrr en þeir eru komnir með vöruna í hendurnar. „En eftir að fólk er komið inn til okkar á annað borð þá helst það vel hjá okkur. Þeir vita líka af reynslunni að við látum ekki neina vöru frá okkur sem við erum ekki stolt af. Það væri líka hvort eð er ekkert vit í að reyna að slá af gæðunum því þá eru viðskiptavinirnir fljótir að hverfa.“

Kippur í kreppu

Sennilega kemur lesendum ekki á óvart þegar Árni segir viðskiptin hafa stóraukist eftir að kreppan dundi á. „Sennilega er fólk að minnka við sig skyndibita og dýrari máltíðir, og svo eflaust að leita í fiskmetið fyrir hollustuna rétt eins og verðið,“ segir hann. „Við flytjum t.d. einnig inn og seljum frosið grænmeti sem hefur selst gríðarvel, og eykst með hverjum mánuðinum.“

Eins og ýjað var að hér í byrjun hefur Árni farið sér að engu óðslega í markaðsmálunum en hann reiknar með að taka smásyrpu fljótlega. „Við erum að vinna í því að stórauka vöruúrvalið, ekki síst með því að bæta við allskyns matvælum fyrir asíska matseld, t.d. sushi-vörum, núðlum, sósum, olíum og fjölbreyttu kryddi. Þegar það er komið förum við sennilega af stað með herferð.“

Bæði fjölskyldufólk og einstaklingar

Árni minnir á að frosinn fiskur er oft upp undir 50% ódýrari en ferskur, enda með gott geymsluþol og því lítið um rýrnun. Frystingin kemur ekki niður á gæðunum og er t.d. frosið fiskflak sem tekið er út að morgni til að þiðna orðið tilbúið til eldunar um kvöldið, og jafnast þá hæglega á við ferskt flak keypt sama dag út úr búð. „Það á t.d. við um mest af þeim fiski sem fólk snæðir á íslenskum veitingastöðum í dag að hann hefur verið keyptur inn frosinn,“ hnykkir hann á.

Lengi má velta vöngum yfir því hvers vegna yngra fólk er enn sem komið er ekki meira áberandi í viðskitpavinahópi Fiska.is en Árni segir að á að giska þrír fjórðu kúnnanna séu á aldrinum 35 til 55 ára. „Þetta er mikið til fjölskyldufólk og því heimili þar sem mikið er borðað og ekki vanþörf á að gera hagkvæm innkaup,“ segir hann en minnir á að þessi kostur henti ekki síður minni heimilum og einstaklingum. „Við erum t.d. að fara með sendingar í þjónustuíbúðir aldraðra reglulega. Fólk getur svo auðvitað borgað með korti við afhendingu, og heimsendingin er frí.“

Besta íslenska matvöruverslunin á netinu?

Í tæknivæddustu og mestu velmegunarsamfélögum vestan- og austanhafs er oft í boði að gera öll matarinnkaup á netinu og fá sent heim að dyrum. Á Íslandi eru net-matvöruverslanir fjarska skammt á veg komnar og ekki neinar ýkjur að segja að Fiska.is sé sennilega fremst á íslenska netmatsölumarkaðinum. Þótt verslunin sé sérhæfð í frystu sjávarfangi er þar einnig að finna ýmsa kjötvöru, frysta smárétti og grænmetisbuff svo gefin séu nokkur dæmi.

Tveir dýrustu stórmarkaðirnir bjóða heimsendingu gegnum netið en er fjarri því hægt að tala um almennilegar netverslanir. Í öðru tilvikinu er matvöruframboðið varla meira en um 100 vörunúmer og þá einkum nammi og gos. Í hinu tilvikinu þarf að „handskrifa“ pöntunina inn í sérstakt skema og ekki um það að ræða að hægt sé að vafra um vöruúrvalið í búðinni. Í þriðja lagi má svo nefna netverslun sem sérstaka áherslu leggur á nammi, en þar eru vörurnar sendar til neytandans með pósti, frekar en að ekið sé beinustu leið úr vöruhúsi og upp að dyrum hjá viðskiptavininum.

Gestir á Fiska.is sjá fljótt að síðan er þægileg í notkun, með myndum og notendavænu pöntunarkerfi, en heimseningar fara fram á þriðjudags- og fimmtudagskvöldum.