Peningar Jake Moore (Shia LaBeouf) og Gordon Gekko (Michael Douglas) horfast í augu. Bretton James fyrir miðju.
Peningar Jake Moore (Shia LaBeouf) og Gordon Gekko (Michael Douglas) horfast í augu. Bretton James fyrir miðju.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Oliver Stone. Aðalhlutverk: Michael Douglas. Shia LaBeouf, Carey Mulligan, Josh Brolin. 133 mín. Bandaríkin, 2010.

Þegar tæpur aldarfjórðungur er liðinn frá því að Stone gerði Wall Street, eina sína minnisstæðustu mynd, sér hann ástæðu til að bæta við hana öðrum kafla. Ástæðan er augljós, öngþveiti, óreiða, öfund og klúður er eftirlætisumfjöllunarefni leikstjórans, allt þetta hefur einkennt Wall Street og peningaheim jarðarbúa síðustu árin, við höfum ekki farið varhluta af þeim ósköpum.

Gekko (Douglas) er löngu sloppinn úr fangelsisvistinni sem hann ávann sér í frummyndinni, en kastljósinu er lengi vel lítið beint að honum, heldur Jake Moore (LeBeouf), ungri og upprennandi kauphallarstjörnu sem hefur komist á skömmum tíma í fremstu röð verðbréfamangara – líkt og Gekko. Aukinheldur býr hann með dóttur gamla refsins, Winnie Gekko (Mulligan), sem af persónulegum ástæðum vill hvorki sjá föður sinn né heyra.

Jake hefur lært að feta sig áfram í viðsjárverðu umhverfi peningafrumskógarins af Louis Zabel (Langella), mikilsvirtum auðjöfri í bankaheiminum sem sér fram á að undirmálslán og aðrar blikur af svipuðum toga séu að hrannast upp í heimi peninga og fjármálabrasks. Hann á við öflugan andstæðing að etja, hinn gíruga og ófyrirleitna Bretton James (Josh Brolin), sem verður honum að falli og vill fá Jake yfir til sín. Þá birtist Gekko með óvæntar fúlgur fjár og vill styrkja einkadóttur sína – sem treystir honum ekki.

Wall Street er eins og fjármálahverfið sem myndin dregur nafn sitt af; ótryggt en lofandi og gjöfult ef vel gengur. Þar ber mest á hákörlum sem er skítsama um tryggð og tilfinningar, álíta græðgina guðsgjöf, en er hefndin sætari? Um það snýst Wall Street II að nokkru leyti og niðurstaðan er tæpast mannskepnunni í vil. Mangarar leggja undir í kapphlaupinu um græna, eða hreina orku, sem er ekki óþekkt gróðalind hér í landi virkjanlegra náttúruafla. Þar koma Kínverjar til sögunnar, handritshöfundar hafa unnið heimavinnuna að mörgu leyti vel og fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum Wall Street-hákarlanna, sumir sjá tækifæri í óreiðunni sem kafsiglir aðra.

Í öðru lagi er Wall Street II, sem ber undirtitilinn „Peningar sofa aldrei“, mynd um ungt, framagjarnt og ástfangið folk og persónurnar sem hafa mótað það. Sumar með tryggð og vináttu, öðrum er ekki treystandi. Alls staðar undir niðri eru það peningarnir sem ráða för þegar upp er staðið og niðurstaða Stones og handritshöfunda er ekki uppörvandi. Fjármálaheimurinn er vissulega afmarkaður en hér kemur berlega í ljós hversu gróðabrölt örfárra peningamanna hefur mikil áhrif úti í umheiminum. Þannig hefur það verið og verður ekki breytt. Munurinn er sá að hraðinn hefur aukist margfaldlega í hinum andvaka heimi peninganna frá því sem var, en eðli græðginnar er enn það sama.

Með illu skal illt út reka, það lítur út fyrir illskárri framtíð í kreppunni og einkalífi söguhetjanna í myndarlok, en hverju þarf að fórna? Sjálfum sér – öllu. Þó er traustið á bólakafi í drekkingarhyl dauðasyndanna.

Stone er athyglisverður kvikmyndagerðarmaður og myndin hans bæði forvitnileg sakir efnisins þó svo hún svari ekki stóru spurningunum og sé á nokkrum brauðfótum undir lokin. Hún hefur fjölmargt með sér, er fagmannlega gerð í alla staði, leikstjórn og örugg keyrsla Stones í myrkviðum peningaheimsins er mestan part markviss og gagnrýnin. Kvikmyndatakan og tónlistin gefur myndinni aukið vægi, líkt og handritið á köflum. Traustasti þáttur Wall Street: Money Never Sleeps er án minnsta vafa leikaravalið, sem er óaðfinnanlegt. Douglas er sleipur og slægur, svipaða sögu er að segja af Brolin, sem er farinn að stinga markvisst upp kollinum í bestu myndum Hollywood. Þá er sérstök ástæða til að benda á framúrskarandi litríka framgöngu tveggja roskinna senuþjófa. Annar, Wallach, fer á kostum þótt orðinn sé hálftíræður og stórleikarinn Langella, sem er reyndar unglingur við hliðina á Wallach, eða 72 ára, er ósegjanlega kraftmikill og jafnan trúverðugur og fylginn sér, eldist að auki með ábúðarmiklum glæsibrag sem minnir á sjálfan Sean Connery. Hlutverk Sarandon er hvorki fugl né fiskur og það eru ungu leikararnir sem vekja sérstaka athygli. LaBeouf, sem hingað til hefur verið lítið annað og meira en dúllulegur sviðsbúnaður í andlausum sumarmyndum, og Carey Mulligan, hin hratt rísandi breska leikkona, bæta rósum í hnappagat myndar sem ber frekar að líta á sem vandaða afþreyingu en gagnrýna og vitsmunalega smásjárskoðun.

Sæbjörn Valdimarsson