Úr framlínunni David Miliband tilkynnti í gær að hann hygðist draga sig úr framlínu breskra stjórnmála og styðja bróður sinn af þingpöllum.
Úr framlínunni David Miliband tilkynnti í gær að hann hygðist draga sig úr framlínu breskra stjórnmála og styðja bróður sinn af þingpöllum. — Reuters
Eftir Karl Blöndal kbl@mbl.is David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, lýsti yfir því í gær að hann hygðist hverfa úr fremstu víglínu stjórnmálanna.

Eftir Karl Blöndal

kbl@mbl.is

David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, lýsti yfir því í gær að hann hygðist hverfa úr fremstu víglínu stjórnmálanna. Miliband tapaði um helgina formannskjöri í Verkamannaflokknum fyrir Ed Miliband, yngri bróður sínum.

Miliband, sem er 45 ára gamall, kvaðst mundu sitja áfram sem þingmaður, en ekki gefa kost á sér til að sitja í skuggaráðneyti bróður, sem skipað er forustumönnum flokksins til að veita stjórninni aðhald.

Hlífa við truflandi nærveru

„Ég held að það sé rétt fyrir mig í fyrirsjáanlegri framtíð að styðja Ed af þingpöllum,“ sagði Miliband í sjónvarpsviðtali við BBC. „Ég held að ég geti gefið honum frelsi og rými til að knýja flokkinn fram á við með þeim hætti, sem hann telur rétt, án truflunarinnar, sem fylgir því að hafa eldri bróður sinn sér við hlið.“

Miliband skrifaði formanni Verkamannaflokksins í kjördæmi sínu í norðausturhluta Englands bréf og sagði að líklegra væri að flokkurinn gæti markað „nýtt upphaf“ ef hann drægi sig til hliðar.

David Miliband tapaði naumlega fyrir bróður sínum. Hann hafði stuðning meirihluta flokksfélaga og þingmanna, en stuðningur stéttarfélaganna, sem jafnframt eru helsti peningabakhjarl flokksins, við Ed réð úrslitum.

Bræðurnir hafa reynt að snúa bökum saman, en þó þótti koma fram að eldri bróðirinn er síður en svo sáttur þegar nýi formaðurinn flutti ræðu á þriðjudag. Þar sagði Ed Miliband að það hefðu verið mistök að draga Bretland inn í Íraksstríðið. Þá sást David Miliband snúa sér steinrunninn á svip að Harriet Harman, varaformanni Verkamannaflokksins, sem fagnaði orðum formannsins með lófataki, og segja: „Þú greiddir því atkvæði þitt. Af hverju ert þú að klappa?“

Naut ungur trausts

David Miliband er gyðingur að uppruna, en var ekki alinn upp í gyðingatrú. Faðir hans, Ralph Miliband, var einn af helstu kennimönnum um marxisma á liðinni öld og bræðurnir komust mikið í tæri við pólitík á heimilinu.

Miliband varð lykilmaður í stefnumótun hjá Tony Blair og skrifaði stóran hluta af stefnuskrá Verkamannaflokksins þegar hann komst til valda í kosningunum 1997. Í nýrri ævisögu sinni segir Blair að hann hafi þá litið út fyrir að vera tólf ára.

Árið 2001 var Miliband kjörinn á þing og ári síðar gerði Blair hann að ráðherra skólamála.

Þegar Blair hætti sem forsætisráðherra 2007 íhugaði Miliband að bjóða sig fram til formanns gegn Gordon Brown, en lét ekki af verða. Brown gerði Miliband síðan að utanríkisráðherra í stjórn sinni. Hann þótti ná góðu sambandi við stjórnvöld í Washington og Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að hann væri „lifandi, aðlaðandi og klár“.

Miliband fékk fleiri tækifæri til að fara gegn Brown, en gerði það ekki. Sömuleiðis nýtti hann ekki tækifæri til að sækjast eftir því að verða æðsti fulltrúi ESB í utanríkismálum. Bróðir hans hefur þó sagt að hann eigi eftir að leggja mikið af mörkum í pólitík þrátt fyrir ósigurinn.

Ferillinn
» David Miliband fæddist 15. júlí 1965.
» Faðir hans var gyðingur og fæddist í Brussel og flúði táningur að aldri undan nasistum þegar þeir réðust inn í Belgíu.
» Móðir hans fæddist í Póllandi, lifði af hernám Þjóðverja og flutti 12 ára til London.
» Miliband gekk í háskóla í Oxford og MIT í Bandaríkjunum.
» Miliband kvæntist 1998 fiðluleikaranum Louise Shackelton. Þau hafa ættleitt tvö börn frá Bandaríkjunum.