Kuldi Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru ævareiðir ákveðnum þingmönnum Samfylkingar og Framsóknar og segja að nú verði breytt andrúmsloft á þingi. Ákveðnir þingmenn verði ekki virtir viðlits.
Kuldi Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru ævareiðir ákveðnum þingmönnum Samfylkingar og Framsóknar og segja að nú verði breytt andrúmsloft á þingi. Ákveðnir þingmenn verði ekki virtir viðlits. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Eins og við var að búast var þungt hljóð í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í gær.

Fréttaskýring

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Eins og við var að búast var þungt hljóð í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í gær. Sýnu mest er fyrirlitning sjálfstæðismanna á fimm þingmönnum Samfylkingarinnar, þeim Helga Hjörvar, Skúla Helgasyni, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Ólínu Þorvarðardóttur og Merði Árnasyni. Vinninginn hafa þó tvímælalaust þeir Helgi Hjörvar og Skúli Helgason, því þeir hafi greitt atkvæði með því að ákæra aðeins Geir og afhjúpað þannig sitt rétta eðli.

Ástæðan fyrir hinni megnu fyrirlitningu í garð ofangreindra þingmanna er sú, að þessir þingmenn hafi, þegar þeir samþykktu að ákæra Geir, ekki getað vitað hvernig atkvæðagreiðslan um aðra fyrrverandi ráðherra færi, því allt eins hefði getað farið svo að sjálfstæðismenn hefðu setið hjá við atkvæðagreiðslu um ákærur á hendur Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvini. Því liggi í augum uppi að þessir þingmenn hafi í raun bæði verið að svíkja Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvin.

Treysta ekki Samfylkingunni

„Halda þingmenn, úr þessari margklofnu stjórnmálahreyfingu, Samfylkingunni, að þeir séu samstarfshæfir? Þegar þeir eru tilbúnir að láta til skarar skríða gegn eigin forystumönnum, eins og þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvini, hvers vegna ættum við í Sjálfstæðisflokknum að láta okkur detta í hug að treysta þeim? Þeir eru óalandi, óverjandi og óferjandi,“ segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja að ástandið í þingflokki Framsóknarflokksins sé ekki heldur með felldu. Þrír þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn ákærum, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Guðmundur Hermannsson, en sex vildu ákæra. Benda sjálfstæðismenn á að þeir hafi að undanförnu átt í ágætu samstarfi við formann Framsóknarflokksins, Sigmund Davíð, en slíkt samstarf hafi lítið upp á sig, þar sem formaðurinn hafi augljóslega enga stjórn á eigin flokki.

Vanda sjálfstæðismenn þeim Birki Jóni Jónssyni og Siv Friðleifsdóttur ekki kveðjurnar og saka þau bæði um tvískinnung og ómerkilegheit. Kveðast þeir reyndar skilja hvað vaki fyrir Siv, sem láti ekkert tækifæri ónotað til þess að koma höggi á formann Framsóknarflokksins, en framkoma Birkis Jóns sé þeim með öllu óskiljanleg.

Pólitísk réttarhöld

Þótt reiði sjálfstæðismanna vegna ákærunnar á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi formanni þeirra, sé djúpstæð og mikil mátti heyra á ýmsum viðmælendum í gær, að þeir telja að fyrst Geir var einn ákærður, gagnstætt öllu sem réttlátt og eðlilegt geti talist, muni menn aldrei velkjast í vafa um það að hér verður um pólitísk réttarhöld að ræða. Vinstrimenn á Alþingi hafi tekið þá ákvörðun og þótt þeir séu ýmsir niðurlútir og skömmustulegir muni þeir aldrei geta geta hlaupið frá aumingjalegum jáum sínum. Þau já verði færð til bókar í Íslandssögunni í kaflanum um „Svartan dag í sögu þingsins“.

Vitanlega sé sár og erfiður tími framundan hjá Geir, en engu að síður voru langflestir viðmælendur á því, að landsdómur myndi annaðhvort vísa málinu frá ellegar sýkna Geir af þeim ákærum sem hann hefur nú fengið á sig.

„Þessi niðurstaða á þingi í gær hefur vitanlega alvarlegar afleiðingar í för með sér hvað varðar samstarf á Alþingi. Þeir sem stóðu að því að ákæra Geir H. Haarde, einan fyrrverandi ráðherra, tóku með því markvissa ákvörðun um að ýta Sjálfstæðisflokknum á Alþingi frá sér, einmitt á þeim tímum sem menn hefðu þurft að koma upp úr skotgröfunum og reyna að sameinast á þingi um þjóðþrifamál, sem eru mörg og brýn sem ráðast þarf í,“ sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði að eftir þessa niðurstöðu yrði ekki um neitt svigrúm að ræða hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins til þess að sýna stjórnarflokkunum skilning eða veita þeim aðstoð á nokkurn hátt.

NÝIR SAMSKIPTAHÆTTIR Á ALÞINGI

Þingmenn úti í kuldanum

Það eru breyttir tímar á Alþingi, eftir að meirihluti þingheims ákvað í fyrradag að ákæra Geir H. Haarde.

Sjálfstæðisþingmenn segjast ekkert eiga vantalað við þingmenn Samfylkingarinnar, eins og þau Helga Hjörvar, Skúla Helgason, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Ólínu Þorvarðardóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Mörð Árnason. Þau verði sniðgengin og haldið úti í kuldanum. Þau verði ekki einu sinni virt viðlits.

Sama er upp á teningnum gagnvart framsóknarþingmönnunum Birki Jóni Jónssyni, Siv Friðleifsdóttur og Vigdísi Hauksdóttur.

Pólitísk aðför meirihluta þingsins að einum manni, Geir H. Haarde, muni hafa afleiðingar í för með sér og þau sem tóku þá ákvörðun séu ekki búin að bíta úr nálinni með það.

Björgvin tekur sæti á Alþingi

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi banka- og viðskiptaráðherra og núverandi þingmaður Samfylkingarinnar, mun á ný taka sæti sitt á Alþingi á morgun, 1. október.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa margir hvatt Björgvin til þess að setjast á þing á ný, eftir að Alþingi ákvað í fyrrdag að ákæra hann ekki og draga hann ekki fyrir landsdóm. 35 þingmenn voru því andvígir að ákæra Björgvin en 27 þingmenn sögðu já við ákæru.

Björgvin tók sér eins og kunnugt er leyfi frá þingstörfum um óákveðinn tíma, eða á meðan þingmannanefnd sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fór yfir mál er snúa að ábyrgð ráðherra.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kann Björgvin þingflokkssystrum sínum, þeim Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Ólínu Þorvarðardóttur og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur litlar þakkir, en þær greiddu allar atkvæði með því að hann yrði ákærður. Mörður Árnason sat hjá þegar kom að því að greiða atkvæði um að ákæra Björgvin.

Þá hefur Morgunblaðið heimildir fyrir því að Björgvin telji sig sömuleiðis vera í lítilli þakkarskuld við formann flokksins, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem neitaði í fyrradag að hafa skoðun á því hvort Björgvin ætti að snúa aftur til þingstarfa.

„Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvaða móttökur Björgvin fær hjá formanninum og forsætisráðherra. Konunni sem hvatti hann símleiðis til þess að fagna því ef Alþingi ákvæði að ákæra hann, því þannig fengi hann tækifæri til þess að hreinsa nafn sitt,“ sagði þingmaður í samtali við Morgunblaðið í gær. agnes@mbl.is