Skipulag Hvort sem samgöngumiðstöð rís eða ekki verður Reykjavíkurflugvöllur áfram í Vatnsmýrinni.
Skipulag Hvort sem samgöngumiðstöð rís eða ekki verður Reykjavíkurflugvöllur áfram í Vatnsmýrinni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Lítill og minnkandi stuðningur virðist vera innan borgarkerfisins við áform um að reisa samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.

Fréttaskýring

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Lítill og minnkandi stuðningur virðist vera innan borgarkerfisins við áform um að reisa samgöngumiðstöð í Vatnsmýri. Þótt ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um að hætta við miðstöðina er ljóst, af samtölum við fólk innan borgarkerfisins, að stuðningur við hana er afar takmarkaður.

Með yfirlýsingu samgönguráðherra og borgarstjóra í apríl 2009 átti að setja aukinn kraft í undirbúninginn vegna samgöngumiðstöðvar og hefja framkvæmdir fyrir árslok. Enn er ekkert búið að byggja. Verulegar athugasemdir komu við þau drög að deiliskipulagstillögu sem lögð var fram í vor og jafnvel þótt tillagan yrði samþykkt af borgarfulltrúum á næstu vikum eru lögboðnir frestir til athugasemda svo langir að skipulag tæki aldrei gildi fyrir áramót.

Ýmislegt hefur orðið til þess að tefja verkið innan kerfisins, s.s. tafir við að gera deiliskipulagstillögu. Þá hefur komið berlega í ljós að áhugi fyrirtækja í almenningssamgöngum á að flytja inn í samgöngumiðstöðina er æði misjafn.

Betri þjónusta frá BSÍ

Samgöngumiðstöðin hefur verið kynnt þannig að hún eigi að hýsa alla samgöngustarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar, hvort sem Reykjavíkurflugvöllur verður á sama stað eða ekki. Hún yrði miðstöð fyrir strætisvagna, rútuferðir og innanlandsflug.

Það liggur á hinn bóginn fyrir að Strætó bs. hefur alls engan áhuga á að gera samgöngumiðstöðina að einhvers konar miðstöð fyrir strætisvagna.

Í febrúar á þessu ári áttu starfsmenn Strætó fund með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi borgarstjóra, þar sem henni var kynnt sú niðurstaða að samgöngumiðstöðin væri alls ekki hentug sem ný skipti- og endastöð, en því hlutverki gegnir Hlemmur nú.

Í kynningunni kom m.a. fram að ferðatími farþega myndi lengjast með flutningi í samgöngumiðstöðina og því væri hætta á að farþegar myndu velja sér annan ferðamáta til að komast á milli staða. Þjónusta við farþega yrði einnig lakari þar sem lítill hluti farþega kæmist á áfangastað án skiptinga. Mikið yrði um óþarfan og dýran akstur með farþega.

Þjónustan myndi sem sagt versna við flutning í samgöngumiðstöðina. Þar að auki myndi beinn aukakostnaður Strætó af því að færa sig í miðstöðina nema 150-180 milljónum króna á ári. Rísi miðstöðin verður þar stoppistöð en ekkert meira en það, skv. áætlun Strætó.

En þótt Strætó hafi engan áhuga á samgöngumiðstöðinni hefur Strætó samt augastað á að flytja í Vatnsmýrina, þ.e.a.s. í BSÍ. Einar Kristjánsson, sviðsstjóri þjónustusviðs Strætó, bendir á að ef skipti- og endastöð yrði færð frá Hlemmi yfir í BSÍ myndi það m.a. gefa færi á að opna hringleiðir um miðbæinn. Þeim hringleiðum væri síðan hægt að loka þegar þörf krefði, s.s. á menningarnótt, en engar aðrar truflanir þyrftu að verða á leiðarkerfi Strætó. Hlemmur yrði áfram mikilvæg biðstöð. Einar segir að slík breyting myndi leiða til betri þjónustu en ekki til hærri rekstrarkostnaðar. Aðspurður segir hann að flugfarþegar séu hverfandi hluti af farþegum Strætó.

Byggja eigin flugstöð

Hvað flugið varðar þá hefur Flugfélag Íslands lýst því yfir að vel komi til greina að fyrirtækið byggi sjálft flugstöð á svipuðum stað og núverandi flugstöð er. Hjá Flugfélaginu er m.a. horft til þess að samgöngumiðstöðina á að fjármagna með notendagjöldum sem myndu leggjast ofan á flugfargjöld.

Rútufyrirtæki sem sinna áætlunarakstri hafa lýst því yfir að þau skoði flutning með opnum huga en það sé þó óljóst hvort þau myndu flytja sig yfir í miðstöðina. Ekki er þó fráleitt að ætla að aðdráttarafl BSÍ myndi aukast nokkuð ef Strætó ákvæði að flytja sig þangað.

BORGARFULLTRÚAR SJÁ MEINBUGI Á AÐ SAMGÖNGUMIÐSTÖÐIN RÍSI

Enginn í ráðinu sérstaklega hrifinn

Karl Sigurðsson, formaður umhverfis- og samgönguráðs og borgarfulltrúi Besta flokksins, segir að enginn í ráðinu hafi verið sérlega hrifinn af þeim drögum að deiliskipulagi sem nú liggja fyrir. Hann vill ekki að miðstöðin rísi í því formi sem nú hefur verið kynnt og aðspurður segist hann ekki sjá hvaða breytingar sé hægt að gera til að hann skipti um skoðun. Karl bendir á hinn bóginn á að hugmyndir Strætó um flutning yfir í BSÍ séu afar athyglisverðar. „Það er miðstöð sem gæti sinnt bæði Strætó og rútum. Og þá skilur maður ekki alveg hvað einhver samgöngumiðstöð ætti að vera að gera lengst ofan í Vatnsmýri,“ segir hann. Það taki bara fimm mínútur að fara í strætó frá BSÍ yfir á flugstöðina við Reykjavíkurflugvöll. Hann sjái ekki þörfina fyrir miðstöðina.

Hljóta að hugsa sig vel um

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og varaformaður skipulagsráðs, bendir á að þar sem fyrirtæki sem áttu að vera meiri háttar notendur sjái annmarka á samgöngumiðstöðinni „hljótum við sem sitjum í ráðum borgarinnar að hugsa okkur vel og vandlega um“. BSÍ þjóni ágætlega sínu hlutverki núna og muni gera það næstu árin. „Ég hef ekki sannfærst um það ennþá að þetta sé ofboðslega nauðsynleg framkvæmd,“ segir hann. Borgin verði að halda sig við nauðsynlegar framkvæmdir við núverandi efnahagsástand.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir að ákvörðunin sé í höndum nýs meirihluta. „En mér finnst ekki vera mikil stemning fyrir því í borgarkerfinu að samgöngumiðstöð verði reist. Ég hef alltaf haft miklar efasemdir. Þeir borgarfulltrúar sem studdu þetta gerðu það á þeirri forsendu að húsið yrði að miðstöð fyrir allar samgöngur. Svo kemur í ljós að Strætó vill ekki sjá að vera þarna, sum rútufyrirtæki ætla að vera þarna en önnur ekki og svo eru bara örfáir mánuðir síðan framkvæmdastjóri Flugfélag Íslands talaði um hvort ekki væri betra fyrir flugfélagið að vera á sama stað og það er nú,“ segir hann. Gísli Marteinn situr í umhverfis- og samgönguráði og í skipulagsráði.