Fullbúinn „Við höfum það líka fyrir reglu hér að tala hvorki um kreppu né stjórnmál enda ekkert gaman að hefja veiðitúrinn á neikvæðu nótunum,“ segir Ingólfur um búðarlífið í Vesturröst.
Fullbúinn „Við höfum það líka fyrir reglu hér að tala hvorki um kreppu né stjórnmál enda ekkert gaman að hefja veiðitúrinn á neikvæðu nótunum,“ segir Ingólfur um búðarlífið í Vesturröst. — Morgunblaðið/RAX
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Nú er sá tími árs sem skyttur spranga um holt og hæðir og sitja fyrir pattaralegum gæsum.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Nú er sá tími árs sem skyttur spranga um holt og hæðir og sitja fyrir pattaralegum gæsum. Ingólfur Kolbeinsson, eigandi Vesturrastar, segir þetta tímabil óneitanlega líflegt í búðinni, en annars er þar nóg að gera allan ársins hring: „Núna stendur gæsaveiðin hvað hæst og stangveiðitíminn er að fjara út. Í nóvember er komið að rjúpunni og svo kemur þessi hefðbundna jólatraffík í desember. Það fer eftir veðri hversu mikið er að gera í janúar og febrúar. Ef viðrar vel fer stangveiðibúnaðurinn að seljast snemma en ef mikill snjór er yfir er eins og hugurinn sé við eitthvað annað. Fluguhnýtingarnar eru þó sterkar strax frá áramótum enda þarf boxið að vera fullt fyrir sumarið,“ segir hann. „Hreindýraveiðin hefst í júlí en veiðimennirnir eru margir byrjaðir að undirbúa sig strax í á vorin þegar veiðileyfunum er úthlutað. Svo má kannski segja að ísbjarnaveiðitímabilið hafi bæst við, og í hittiðfyrra seldum við t.d. nokkuð af ísbjarnarskotum til stangveiðimanna sem tóku með sér byssur til öryggis ef enn einn björninn skyldi skjóta upp kollinum.“

Kreppan hefur ekki orðið til þess að draga úr veiðiáhugamönnum. Ingólfur segist reyndar ekki fá lengur til sín bankamenn á boðsveiðileyfum. „En þeir voru kannski ekkert í sportinu og veiddu bara af því að þeim var boðið. Þeir sem eru veiðimenn af lífi og sál hafa hins vegar ekki lagt stöngina eða riffilinn á hilluna.“

Samsetning kúnnahópsins er ekki svo einsleit. Konunum fer fjölgandi þó að karlarnir séu enn í miklum meirihluta, en annars á Ingólfur erfitt með að koma auga á að einhver ákveðinn hópur þjóðfélagsins veiði meira en aðrir og hann segir alls ekki um það að ræða að sportveiði sé eingöngu tómstund efnaðra. „Útlendingar sem sest hafa að hér á landi eru hins vegar nýr kúnnahópur og virðast búa að mikilli veiðihefð. Taílendingar sýnist mér t.d. duglegir veiðimenn og sama er að segja um Pólverjana og Rússana enda koma þeir frá frábærum veiðilöndum.“

Einnig virðist vaxandi fjöldi ferðamanna leggja leið sína í verslunina: „Þetta eru ekki ferðamenn á leið í veiðitúr heldur fyrst og fremst fólk í sportinu sem er að nýta tækifærið til að gera góð kaup enda verðið hjá okkur í dag mun hagstæðara en í mörgum nágrannalöndunum.“

Sjálfur er Ingólfur auðvitað forfallinn veiðiáhugamaður og þykir fjarska gaman að fást við áhugamálið allan daginn: „Það gerir líka lífið í versluninni enn skemmtilegra að þeir sem koma til okkar eru oft komnir í frí, eru á leið í skemmtilega veiðiferð og taka með sér tilhlökkunina og góða skapið. Við höfum það líka fyrir reglu hér að tala hvorki um kreppu né stjórnmál enda ekkert gaman að hefja veiðitúrinn á neikvæðu nótunum.“