Kristján Bjartmarsson
Kristján Bjartmarsson
Eftir Kristján Bjartmarsson: "Af hverju á þetta við núna, en ekki haustið 2008? Er það kannski vegna þess að það hentar betur eigin skinni, að halda nú fram þveröfugri skoðun?"

Haustið 2008 komu upp háværar raddir um að þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvini G. Sigurðssyni, bæri að segja af sér, m.a. á grundvelli þess að hann hefði í engu beitt sér í því að koma Icesave-reikningum Landsbankans yfir í dótturfélag. Þá hafði og komið í ljós að ráherranum var ekki einu sinni kunnugt um þann hnút, sem það mál var í. Við þetta tækifæri kom Ingibjörg Sólrún, þáverandi utanríkisráðherra, fram í fjölmiðlum, full vandlætingar yfir þessum makalausu kröfum. Þær væru afskaplega illa rökstuddar, því það lægi fyrir að FME hefði ekki upplýst ráðherrann um málið. Utanríkisráherra taldi sér sæma, að bera það á borð, að rétt væri að firra viðskiptaráðherra ábyrgð á sínu málasviði, vegna þess að „...hann var ekki upplýstur“.

Í greinargerð þeirri, sem Ingibjörg Sólrún sendi þingmönnum og fulltrúum Samfylkingar í þingmannanefndinni nú fyrir helgi, kveður við dálítið annan tón:

„Ég verð þó að nefna að viðskiptaráðherra getur ekki firrt sig ábyrgð á sínu málasviði á þeirri forsendu að hann hafi ekki fengið nógu greinargóðar upplýsingar um stöðu bankakerfisins frá utanríkisráðherra. Fyrir utan það að allar slíkar fullyrðingar eða ásakanir eru beinlínis rangar þá hafði viðskiptaráðherra allar forsendur til að afla sér upplýsinga um sinn málaflokk sjálfur, m.a. með því að óska eftir fundum með Seðlabankanum, öðrum ráðherrum eða Fjármálaeftirlitinu, stofnun, sem heyrði undir hans ráðuneyti.“

Mér er spurn: Af hverju á þetta við núna, en ekki haustið 2008? Er það kannski vegna þess að það hentar betur eigin skinni, að halda nú fram þveröfugri skoðun?

Höfundur er verkfræðingur.