Sigrún Ellertsdóttir var fædd 20. júní 1937 í Reykjavík. Hún lést á Landspítalanum 22. september 2010.

Hún var elsta barn þeirra Ellerts Eiríkssonar matsveins og Ísólar Fanneyjar Guðbrandsóttur klæðskera sem búsett voru á Ísafirði. Sigrún ólst upp á Ísafirði og gekk þar í skóla.

Systkini Sigrúnar: Erla, f. 1941, búsett í Garðabæ, eiginmaður hennar er Hálfdán Kristján Hermannsson, f. 1938, Þórunn, f. 1944, búsett í Reykjavík, Ómar Guðbrandur, f. 1947, búsettur á Ísafirði, eiginkona hans er Ásgerður Hinrikka Annasdóttir, f. 1946, og Eiríkur, f. 1952, búsettur í Reykjavík, eiginkona hans er Helga Bjarnadóttir, f. 1956.

Sigrún giftist 25. október 1961 eftirlifandi eignmanni sínum Jósep Valgeirssyni vélstjóra ættuðum af Suðurnesjum, f. 25. október 1942. Börn hennar eru Óskar Ellert Karlsson, f. 28. júlí 1954, búsettur í Reykjavík, Ísól, f. 28. ágúst 1959, d. 31. desember 2008, og Fanney Margrét Jósepsdóttir, f. 29. nóvember 1962, eiginmaður hennar er Magnús R. Eiríksson, þau eru búsett í Keflavík. Uppeldisdóttir Sigrúnar og Jóseps er Erla Ósk Jónsdóttir, f. 29. janúar 1977, sambýlismaður hennar er Eysteinn Þór Jónsson, þau eru búsett í Njarðvík.

Barnabörnin eru: Hulda Guðmunda og Ingvi Hrafn Óskarsbörn, börn Ísólar eru Erla Ósk Jónsdóttir og Kristina Sigrún Cotto og börn Fanneyjar eru Trausti Hafliðason, Ragnar og Sigrún Eva Magnúsarbörn.

Ásamt því að reka heimili vann Sigrún við ýmis störf á Suðurnesjum.

Útför Sigrúnar fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 30. september 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku mamma, tengdamamma og amma. Mikið eigum við eftir að sakna þín þótt ekki hafi alltaf verið logn. Það fór aldrei á milli mála þegar þú varst nálægt. Það var oftast hlegið mikið saman og gantast. Þú varst einstakur karakter. Við vonum að þér líði vel. Við skulum hafa augun með pabba þótt við vitum að þú vakir líka yfir okkur öllum.

Margt þú hefur misjafnt reynt,

mörg þín dulið sárin.

Þú hefur alltaf getað greint,

gleði bak við tárin.

(J.Á.)

Fanney, Magnús, Ragnar og Sigrún Eva.

Þrátt fyrir hin miklu veikindi þín þá finnst mér erfitt að trúa því að þú sért dáin elsku amma mín. Andlát þitt bar svo fljótt að. Þú ert ein ótrúlegasta kona sem ég hef þekkt amma. Sama hvað á gekk í lífi þínu, þá hélstu alltaf áfram þínu striki. Þetta hef ég reynt að tileinka mér og gengið misjafnlega vel í því. Þú ert ein af mínum fyrirmyndum.

Undanfarna daga hef ég verið að hugsa um nokkrar af þeim stundum sem við áttum saman amma. Og guð hvað það er búið að vera gaman en um leið erfitt að rifja þær upp. Ég hef hlegið og grátið, en oftast bæði í einu þegar ég hugsa um þær. Það sem ég sakna mest er hláturinn þinn, brosið, húmorinn, svipbrigðin og gullkista þín, lífsviðhorf og skoðanir. Við vorum nú ekki alltaf sammála um hlutina og höfðum ólíka sýn á þá, en það var svo gaman að ræða við þig um þá. Þó svo að þú næðir ekki nema örsjaldan að fá mig inn á þína skoðun, þá náðir þú alltaf að víkka sjóndeildarhringinn hjá mér. Mér leið alltaf eins og ég gæti sagt þér allt amma og alltaf gast þú gefið mér ráð þegar þú sást að ég þurfti þess. Amma þú hefur kennt mér svo margt og munt alltaf gera það, þó svo að þú sért látin.

Ég man þegar við sátum við eldhúsborðið þitt og ég var að segja þér frá einhverjum lítilsháttar erfiðleikum í lífi mínu á þeim tíma og þú sagðir við mig: „Hulda, það er ekki til sá atburður sem er svo erfiður að ekki sé hægt að hlæja að honum eða að minnsta kosti brosa seinna meir.“ Þetta lífsviðhorf hef ég reynt að tileinka mér og mér hefur tekist það misjafnlega vel. En núna stend ég frammi fyrir atburði sem er með þeim erfiðari sem ég hef upplifað og ég veit að ég mun aldrei hlæja eða brosa að seinna meir. En þegar ég hugsa um síðustu klukkustundirnar í lífi þínu og hvernig dauða þinn bar að fyllist ég þakklæti yfir því að hafa fengið þau forréttindi að fá að vera með þér þessar klukkustundir og fengið að vera til staðar fyrir þig. Og viti menn amma, munnvikin lyftast örlítið upp á við. Ég elska þig og takk fyrir að vera amma mín.

Þín sonardóttir,

Hulda Guðmunda.

Elsku besta amma mín.

Ég vil bara að þú vitir að þú munt alltaf vera í hjarta mínu. Þú varst merkilegasta manneskja sem ég hef nokkurntíma kynnst. Ég er svo heppinn að hafa átt þig að í 29 ár og gæti í raun aldrei beðið um mikið meira. Þó svo að mig hafi langað til að kynna þig fyrir barninu mínum. Það mun samt fá að heyra af þér því okkur þykir ekki leiðinlegt að hugsa til þín eða tala um þig. Þú ert nefnilega svo rosalega mikill karakter að það verður mjög erfitt að hugsa sér heiminn án þín.

Ég og þú höfum oft setið heima hjá þér og spjallað um heima og geima. Við gátum rifist um fáránlegustu hluti en við hlógum samt alltaf saman á endanum. Ég man að þegar ég var yngri þá spiluðum við líka, þú til dæmis kenndir mér rommí. Ég vann oftast, þó svo að þú svindlaðir. Við fórum líka oft saman í bingó í Stapanum þangað til það hætti. Einu sinni þegar ég hef verið svona 7-8 ára þá fórum við í páskabingó sem ég mun aldrei gleyma. Þá vannst þú á einn miða og auðvitað vildi ég eiga þennan vinningsmiða og við býttuðum eftir að þú varst búin að ná í vinninginn þinn. Síðan vannstu á miðann sem ég var nýbúinn að láta þig fá og auðvitað vildi ég fá hann aftur. Þú náðir í vinninginn þinn og lést mig hafa miðann aftur og þá vannstu aftur á miðann sem þú varst nýbúin að fá aftur. Alveg hreint óþolandi og í þokkabót hirtirðu alla vinningana. Þó að ég hafi nú fengið stærsta eggið um páskana.

Ég og Ragnar bróðir höfum í mörg ár sagt að enginn eigi jafn töff ömmu og við. Amma restling, sem reykir, rífur kjaft og bruggar. Hún hóstar af sér hjartaáföll, hún var með allar sínar eigin tennur, keypti þær í Danmörku og það eru til skjáir sem eru minni en gleraugun hennar. Hún kallaði ekki allt ömmu sína. En ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að hafa fengið að kalla þig ömmu alla mína ævi.

Ég vildi óska að þú værir ennþá hjá mér. Ég mun alltaf sakna þín.

Trausti.