Stjórn Strætó ræðir nú tillögur um að kaupa 40 metanknúna strætisvagna. Verði tillögurnar samþykktar gætu fyrstu 20 vagnarnir komist í notkun á árunum 2011 og 2012. Áætlað er að kostnaður Strætó við fjárfestinguna sé 1.400-1.600 milljónir króna.

Stjórn Strætó ræðir nú tillögur um að kaupa 40 metanknúna strætisvagna. Verði tillögurnar samþykktar gætu fyrstu 20 vagnarnir komist í notkun á árunum 2011 og 2012. Áætlað er að kostnaður Strætó við fjárfestinguna sé 1.400-1.600 milljónir króna.

Málið er enn á frumstigi, en minnisblað frá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar var lagt fyrir síðasta fund stjórnar Strætó.

Reynir Jónsson, forstjóri Strætó, segir að eftir sé að undirbúa málið betur. Leggja þurfi tillögurnar fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu því að þau eru ábyrg fyrir fjárfestingum Strætó.

Reynir sagði að strætó sem gengi fyrir gasi væri dýrari í innkaupum en dísilstrætó og rekstrarkostnaður væri líka meiri, en þó væri tækninni sífellt að fleygja fram og því væri rekstrarkostnaðurinn einn af þeim þáttum sem þyrfti að fara betur yfir. Hagkvæmnisútreikningar miðuðust við núverandi verð á gasi og dísilolíu.

Reynir sagði að mörgu að hyggja áður en ákvörðun yrði tekin um hvort ráðist verður í þetta. M.a. þyrfti að tryggja að hægt verði að standa þannig að áfyllingu á vagnana að áfylling dygði allan daginn. Ennfremur þyrftu að vera til varabirgðir af gasi.