Smáralindin Söluferli á rekstrarfélagi verslanamiðstöðvarinnar bar ekki árangur að sinni.
Smáralindin Söluferli á rekstrarfélagi verslanamiðstöðvarinnar bar ekki árangur að sinni. — Morgunblaðið/Ernir
Þórður Gunnarsson thg@mbl.is Hæsta tilboð í hlutafé Eignarhaldsfélagsins Smáralindar var einn milljarður króna ásamt yfirtöku skulda.

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Hæsta tilboð í hlutafé Eignarhaldsfélagsins Smáralindar var einn milljarður króna ásamt yfirtöku skulda. Reginn, eignarhaldsfélag í eigu NBI, vildi hins vegar fá þrjá milljarða hið minnsta, án afskrifta á vaxtaberandi skuldum fyrirtækisins, sem námu meira en átta milljörðum króna samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009. Þær skuldir eru að mestu í erlendum gjaldeyri og hafa því að öllum líkindum eitthvað lækkað það sem af er ári vegna styrkingar krónunnar.

Söluferli á Smáralind var opnað í apríl á þessu ári en fram kom í tilkynningu frá NBI að fjölmargir innlendir sem erlendir fjárfestar hefðu sýnt áhuga á eigninni. Flestir heltust þó úr lestinni þegar á leið og á endanum bárust aðeins tvö tilboð. Hið hærra var, eins og áður sagði, einn milljarður króna. Helgi S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Regins, vildi í samtali við Morgunblaðið ekki tjá sig um upphæð hæsta kauptilboðs í Smáralindina. Hann segir þó að forsvarsmenn Regins telji verðmæti félagsins liggja á bilinu 3-4 milljarðar.

Leigusamningum breytt

Greint hefur verið frá því að Reginn hafi endursamið við fjölda verslana í Smáralind um leiguverð á verslanaplássi, í kjölfar þess að uppsögnum á leigusamningum fór fjölgandi. Samningar margra verslana eru þannig tengdir veltu og leigugreiðsla því mishá eftir mánuðum. Því má segja að kaupandi Smáralindar hafi þurft að stóla á jákvæða þróun einkaneyslu með kaupunum, þó svo að kaup á rekstri tengdum verslun feli eðli málsins samkvæmt alltaf í sér jákvæðar væntingar um þróun einkaneyslu. Helgi segir að Smáralindin sé í góðum rekstri og að ekki sé ástæða til að afskrifa neinar skuldir. Tekjustreymi fyrirtækisins standi fyllilega undir skuldum en á fyrri helmingi ársins var EBITDA Smáralindar tæplega 200 milljónir króna. „Við reiknum með að tekjur séu í algeru lágmarki núna og að þær muni bara aukast þegar rofar til í íslensku efnahagslífi,“ segir Helgi.