Karl Blöndal kbl@mbl.is Sameinuðu þjóðirnar munu á morgun birta skýrslu, sem þegar er farin að vekja deilur, um ódæðisverk sem framin voru í Kongó á tímabilinu 1993 til 2003. Þar á meðal er um að ræða meint þjóðarmorð af hálfu hersveita frá Rúanda.

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Sameinuðu þjóðirnar munu á morgun birta skýrslu, sem þegar er farin að vekja deilur, um ódæðisverk sem framin voru í Kongó á tímabilinu 1993 til 2003. Þar á meðal er um að ræða meint þjóðarmorð af hálfu hersveita frá Rúanda.

Fréttastofan AFP hefur í höndum handrit að skýrslunni og birti í gær frásögn af henni. Þar segir að embættismenn, sem fara með mannréttindamál hjá Sameinuðu þjóðunum, vonist til þess að þessi skýrsla bindi enda á hugarfar refsileysis gagnvart glæpum af þessum toga.

Mestar deilur vekur kafli um tilfelli þar sem sveitir úr her Rúanda söfnuðu saman flóttamönnum úr röðum hútúa á þeim forsendum að þeir ættu að fara aftur heim og tóku þá af lífi með því að skjóta þá til bana, höggva í spað með sveðjum eða lemja með hamri í höfuðið. Herir Kongó og Búrúndí eru einnig sakaðir um voðaverk í skýrslunni, sem er rúmar 500 síður. Alls eru tiltekin rúmlega 600 óhæfuverk.

„Kerfisbundnar og víðtækar árásir, sem lýst er í þessari skýrslu, sýna fjölda ámælisverðra tilvika sem ef sönnuð yrðu fyrir hæfum dómstólum mætti skilgreina sem þjóðarmorð,“ segir í handritinu.

Gegn ofbeldi og lögleysu

Navi Pillay, yfirmaður mannréttindamála hjá SÞ, sagði að skýrslan sýndi að Sameinuðu þjóðirnar væru staðráðnar í að binda enda á ofbeldið og lögleysuna, sem væru allsráðandi á þessu stríðshrjáða svæði:

„Skýrslan endurspeglar skuldbindingu Sameinuðu þjóðanna og embættis míns við að hjálpa stjórn lýðræðisríkisins Kongó að þurrka út hugarfar refsileysis, sem hefur kynt undir kynferðislegu ofbeldi og öðrum alvarlegum mannréttindabrotum.“

Komið hafa fram áhyggjur af að lokaútgáfa skýrslunnar verði útvötnuð vegna þrýstings hlutaðeigandi ríkisstjórna. „Um leið og orðið þjóðarmorð er notað í skýrslu má búast við deilum,“ sagði Carina Tersakian hjá mannréttindasamtökunum Human Rights Watch í samtali við AFP. „Sérstaklega fyrir Rúanda vegna þess að herinn, sem er bendlaður við þennan glæp var sami her og stöðvaði þjóðarmorðið í Rúanda 1994.“

Erindreki hjá Sameinuðu þjóðunum sagði að mikilvægi skýrslunnar varðaði ekki bara hvort framið hefði verið þjóðarmorð. „Mestu skiptir fjöldi fórnarlambanna og verknaðanna, sem hafa verið gerðir, hver sem skilgreiningin er,“ sagði hann.

„Mikilvægast er að þessi skýrsla er upphaf þess að draga til ábyrgðar. Á þessu svæði hafa verið framin fleiri mannréttindabrot en tölu verður á komið, mörg þeirra án þess að nokkur hafi verið kallaður til ábyrgðar,“ sagði Peter Splinter hjá Amnesty International. „Án ábyrgðar munu þessir atburðir endurtaka sig.“

REIÐI Í RÚANDA

Hafna fullyrðingum

Paul Kagame, forseti Rúanda, segir fullyrðingarnar í hinni óbirtu skýrslu um þjóðarmorð „fráleitar“. Kagame var í broddi fylkingar í rúandísku sveitunum, sem hröktu vopnaðar sveitir hútúa, sem stóðu að baki þjóðarmorðinu í Rúanda 1994, yfir landamærin inn í austurhluta Kongó.

Rúanda hefur hótað að kveðja friðargæsluliða sína brott frá Kongó út af skýrslunni, en það var dregið til baka eftir að Ban Ki-moon fór til Kigali til að leita sátta.