Frá Guðvarði Jónssyni: "Sumir verkalýðsforingjar hafa verið að viðra þá hugmynd að fyrirtæki sem stæðu vel greiddu hærri laun en þau er lakar stæðu. Þetta finnst mér vera mjög vanhugsuð hugmynd að kljúfa verkalýðshreyfinguna í tvær fylkingar."

Sumir verkalýðsforingjar hafa verið að viðra þá hugmynd að fyrirtæki sem stæðu vel greiddu hærri laun en þau er lakar stæðu. Þetta finnst mér vera mjög vanhugsuð hugmynd að kljúfa verkalýðshreyfinguna í tvær fylkingar. Önnur fylkingin fengi launahækkanir í samræmi við verðlagsþróun, hin yrði að láta sér nægja laun, miðuð við greiðslugetu fyrirtækjanna, og væri þá komin í sömu stöðu og ellilífeyrisþegar sem eru háðir vilja ríkisvaldsins og forystu lífeyrissjóðanna um það hversu háar mánaðargreiðslur séu hverju sinni. Óháð því hver verðlagsþróun er. En þetta myndi henta atvinnurekendum og hagur þeirra hefur verið verkalýðsforingjum mjög ofarlega í huga og þeir hafa þar af leiðandi aldrei fundið grundvöll fyrir mannsæmandi laun verkamanna, ekki einu sinni á meðan allt óð í peningum. Þar að auki virðast flest öll réttindi verkamanna orðin háð geðþóttaákvörðunum atvinnurekenda.

Þegar menn tala um atvinnuástand í landinu er líkast því að ekkert skapi atvinnu annað en framkvæmdir við stóriðju og fyrst og fremst hugsað um álver. Við höfum álver: í Straumsvík, á Grundartanga og í Reyðarfirði. Uppbygging þessara fyrirtækja hefur kostað þjóðfélagið þúsundir milljarða, aðallega í raforkuöflun fyrir fyrirtækin og svo er fyrirtækjunum seld raforkan langt undir afborgun af lántökukostnaði og þjóðin látin taka á sig umframkostnaðinn. Þannig fær stóriðjan að fleyta rjómann af framleiðslunni á meðan þjóðin bognar sífellt meir undan skuldaálaginu. Það ömurlegasta við þetta er að raforka til heimila þarf að hækka svo stóriðjan þurfi ekki að bera kostnaðinn af eigin raforkuþörf. Á Austurlandi var byggður fjöldi íbúða vegna stórframkvæmda og eftir verklok voru tugir auðra íbúða, óborgaðra og óseljanlegra, lánin látin falla á Íbúðalánasjóð til að forða stóriðjunni frá því að bera kostnað af þessari þörf framkvæmdanna. Enn vilja menn stofna til meiri skuldasöfnunar og skammtímalausnar á vinnumarkaði, sem hindrar að hægt sé að byggja upp atvinnumarkað sem hæfir þrjúhundruð þúsund manna þjóðfélagi með dreifðri atvinnustarfsemi sem byggðist á nokkuð jöfnu atvinnustigi á milli landshluta og eftir árstíma.

Ég held að menn verði að átta sig á því að það er ekki endalaust hægt að hrúga niður álverum á Íslandi og að það verður sífellt erfiðara að snúa atvinnumarkaðnum frá stóriðjuframkvæmdum yfir í þjóðfélagslegan atvinnumarkað fyrir smáríki, vegna hinnar miklu skuldasöfnunar sem stóriðjan stendur ekki ábyrg fyrir. Það versta er að útgerðin var látin komast upp með það að eyðileggja einn mikilverðasta atvinnumarkað landsins, fiskvinnsluna, til þess að geta byggt upp öfluga fiskvinnslu í Bretlandi. Með þessu er mönnum leyft að setja persónulega hagsmuni framar þjóðarhagsmunum. Er þetta ekki að vinna gegn þjóðarhagsmunum, og á alþingi að láta slíkt óátalið?

GUÐVARÐUR Jónsson,

Valshólum 2, Reykjavík.

Frá Guðvarði Jónssyni