Hinrik Thorarensen fæddist á Siglufirði 20. febrúar 1927. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 21. september 2010.

Foreldrar hans voru Hinrik Thorarensen læknir, f. 15.9. 1893, d. 26.12. 1986, og kona hans Svanlaug Margrét Ólafsdóttir Thorarensen, f. 19.2. 1896, d. 6.11. 1950.

Bræður Hinriks eru: Oddur lögfræðingur, f. 1920, Ragnar, doktor í rafmagnsfræði, f. 1921, búsettur í Kaliforníu, og Ólafur, viðskiptafræðingur, f. 1922. Faðir þeirra eignaðist einnig dótturina Stellu, f. 1938, búsett í Kanada.

Hinrik kvæntist árið 1952 Emilíu Ellertsdóttur Thorarensen (Millý), f. 13.2. 1930, og eignuðust þau þrjú börn: Hinrik, f. 11.11. 1956, dreng óskírðan, f. mars 1959, d. sama dag, og Svanlaugu Dóru, f. 25.4. 1960, maki Haukur Harðarson, f. 20.3. 1952. Börn þeirra eru Haukur Örn, f. 21.6. 1981, og Sara, f. 5.5. 1986.

Hinrik ólst upp á Akureyri þar sem þeir bræður gengu í skóla en fjölskyldan dvaldist á Siglufirði á sumrin. Hann fór til náms í Bandaríkjunum árið 1945 og lauk námi í viðskiptafræði frá Berkley-háskóla í Kaliforníu. Eftir að Hinrik flutti heim árið 1950 vann hann í hagfræðideild Landsbanka Íslands í fimm ár uns Hinrik og Millý stofnuðu verslunina Tískuskemmuna á Laugaveginum árið 1953 og ráku hana í rúma fjóra áratugi. Hinrik hafði mikla ánægju af ferðalögum jafnt innanlands sem utan. Hann hafði áhuga á útivist og fjallamennsku og ferðaðist um hálendi Íslands um árabil. Hann naut þess að ganga á fjöll og fór m.a. á Vatnajökul með Jöklarannsóknafélagi Íslands. Hann var virkur í Lionshreyfingunni og stofnaði Lionsklúbbinn Frey ásamt nokkrum félögum sínum árið 1968 og hefur klúbburinn styrkt mörg góð málefni. Hinrik hafði mikinn áhuga á flugi og lauk einkaflugmannsprófi og einnig lærði hann að sigla. Árið 1984 byrjuðu Hinrik og Millý að gera upp gamalt hús á jörðinni Sléttu í Fljótum í Skagafirði og nutu þess að dvelja þar á hverju sumri. Í lok árs 1997 veiktist Hinrik og fékk heilablóðfall. Það var honum mikið áfall að missa heilsuna og stóð Millý eins og klettur við hlið hans og hugsaði um hann í 12 ár, allt þar til fyrir um ári að hann fór á hjúkrunarheimilið Skjól.

Útför Hinriks fer fram frá Langholtskirkju í dag, 30. september 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Þegar ég var lítil stúlka sátum við pabbi oft á heiðskírum vetrarkvöldum og horfðum á stjörnurnar og spjölluðum um heima og geima. Á sumrin horfðum við á Snæfellsjökul bera við himin í kvöldsólinni. Seinna eignaðist fjölskyldan jeppa og við fórum að ferðast um hálendi Íslands. Við fórum margar ferðir á hverju sumri og hann kenndi mér að njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar í víðáttunni.

Pabbi átti sér mörg önnur áhugamál. Hann fór daglega í sund, gekk á fjöll, lærði að fljúga og sigla og ferðaðist um heiminn.

Þegar börnin mín Haukur Örn og Sara fæddust var hann þeim yndislegur afi, alltaf að hugsa um öryggi þeirra og velferð. Í Fljótum í Skagafirði á fjölskyldan sér sælureit og þar naut hann lífsins. Hann gat setið tímunum saman ásamt mömmu, horft á fjöllin og notið útsýnisins.

Hann pabbi minn hefur alltaf stutt mig með ráðum og dáð í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Á fallegum haustdegi í september kvaddi hann þennan heim og flaug á vit stjarnanna í mildu hausthúminu. Ég óska honum góðrar ferðar og kveð pabba minn með hjartað fullt af þakklæti fyrir allt það sem hann gaf okkur.

Svanlaug.

Elsku afi.

Ég man þegar þú gafst mér prinsessukjólinn með bjöllunni;

ég man þegar þú kallaðir Dóru dúkku alltaf Bergþrúði í stríðni og hláturinn sem fylgdi á eftir;

ég man þegar við fengum okkur alltaf ábót af ískremi;

ég man þegar þú baðst mig um að rétta þér toothpick;

ég man þegar við fundum gömlu mógrafirnar í fyrsta sinn, þú í lopapeysu og stígvélum;

ég man þegar þú gafst mér og bróður mínum Sléttufjall;

ég man þegar þú byggðir rammgerða girðingu svo ég dytti ekki fram af pallinum;

ég man þegar þú sagðir mér söguna af hagamúsinni sem þú bjargaðir;

ég man eftir svipnum á þér þegar þú dáðist að náttúrunni;

ég man eftir svörtu skótöskunni og hversu vel þú pússaðir skóna þína;

ég man eftir gusunum sem gengu í allar áttir þegar þú þvoðir þér í framan;

ég man eftir vel skipulögðu skúffunum þínum á skrifstofunni, allt í röð og reglu;

ég man eftir framkvæmdagleðinni

ég man eftir fallega brosinu þínu;

ég man að ég gat alltaf treyst á þig;

ég man hvað það var gott að koma í heimsókn til þín og ömmu;

og þér mun ég aldrei gleyma.

Þín

Sara.

Hinrik frændi hefur kvatt. Í gegnum hugann flýtur fjöldi myndbrota frá ýmsum tímum. Hann var glæsimenni á velli, hár, þrekinn og fríður sýnum og það leiftraði af honum. Skarpur, mælskur og skemmtilegur. Alltaf vel til fara enda einstakt snyrtimenni fram í fingurgóma. Hinrik var yngstur fjögurra bræðra. Í huga pabba var hann samt frekar eins og stóri bróðir. Pabbi leit mikið upp til Hinriks, bróður síns, enda var hann alltaf til í að veita pabba góð ráð og aðstoða hann á allan hátt. Þeir áttu sameiginlegt áhugamál sem var rekstur fataverslana. Ég man eftir margra klukkustunda samtölum þeirra í gegnum síma í gamla daga þegar við feðgar þrír bjuggum á Siglufirði. Hinrik og pabbi voru saman í háskólanum í Berkeley í Kaliforníu og luku báðir þaðan prófi í viðskiptafræði. Eftir að Hinrik kom heim úr námi í Bandaríkjunum vann hann fyrst í hagdeild Landsbankans en opnaði svo fljótlega eigin kvenfataverslun, Tízkuskemmuna við Laugaveg 34a ásamt Millý eiginkonu sinni. Hinriki farnaðist vel í rekstrinum og á tímabili átti hann þrjár verslanir, Táninginn og Tízkuskemmuna við Laugaveginn og Helenu í Bankastræti. Hinrik var félagslyndur, tók virkan þátt í Lionshreyfingunni og var einn af stofnendum Lionsklúbbsins Freys. Hann var líka mikill útivistarmaður á sínum yngri árum. Áhugi hans fyrir flugi var líka talsverður og hafði kviknað í frægri flugferð yfir Klettafjöllin á eins hreyfils 65 hestafla Piper Cub-vél árið 1947 þar sem Karl Eiríksson, síðar forstjóri Bræðranna Ormsson var flugstjórinn. Frá þessu ævintýraflugi sagði Hinrik mér oft. Það er ekki vitað til þess að áður hafi verið flogið svona lítilli eins hreyfils vél yfir Klettafjöllin. Þetta átti ekki að vera hægt en þeim tókst það. Síðar á lífsleiðinni lærði Hinrik sjálfur að fljúga og átti í nokkur ár hlut í eins hreyfils Cessna-vél og flaug þá talsvert um landið yfir sumartímann. Þegar við bræður vorum komnir suður til náms fjölgaði þeim stundum sem við áttum með Hinriki enda leigðum við báðir á Laugaveginum þar sem Tízkuskemman var. Það var oft gaman að koma við á skrifstofunni hjá honum og spjalla. Hann sýndi lífi okkar bræðra talsverðan áhuga og var alltaf tilbúinn að gefa okkur góð ráð. Við Hinrik tefldum talsvert saman á þessum árum og var Hinrik ágætur skákmaður. Einn mjög stóran kost hafði Hinrik frændi. Hann var alltaf ánægður með það sem hann átti. Ég hef oft hugsað til þess hversu lífið væri bærilegra hjá mörgum ef þeir væru ánægðir með það sem þeir ættu en væru ekki alltaf að sækjast eftir því sem aðrir ættu. Hinrik fékk heilablóðfall fyrir rúmum 10 árum. Hann náði aftur nokkuð góðri heilsu en svo fékk hann annað áfall fyrir rúmum þremur árum og þá má segja að hann hafi aldrei orðið samur aftur. Honum hrakaði smátt og smátt og fyrir tæpum tveimur árum fékk hann inni í Skjóli þar sem vel var hugsað um hann. Ég sendi Millý, Hinriki yngri, Svanlaugu og fjölskyldu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ragnar Thorarensen.

Ágætur ferðafélagi minn Hinrik Thorarensen andaðist þriðjudaginn 21. september. Andlát hans kom ekki á óvart, en hann hafði lengi átt við vanheilsu að stríða. Ég kynntist Hinriki skömmu eftir 1960 er vinur minn og ferðafélagi Gunnar Hannesson ljósmyndari kynnti mig fyrir honum. Þessi kynni okkar Hinriks leiddu til fjölmargra ferða á Vatnajökul og Langjökul og margra gönguferða á fjöll, oftast með Ferðafélaginu. Hinrik var einstaklega duglegur og skemmtilegur ferðafélagi, úrræðagóður og alltaf í góðu skapi. Allir höfðum við mikinn áhuga á að komast í ferð á Vatnajökul, en á þessum tíma var ekki hlaupið að því að komast í slíkar ferðir. Við höfðum er þarna var komið haft nokkur kynni af Jöklarannsóknafélaginu. Við bundum nokkkrar vonir við að komast í ferð með þeim á jökla, en sú viðleitni bar engan árangur. Því var ekki annað fyrir hendi en að reyna að eignast sjálfir farartæki. Við gengum þess vegna allir í Jöklarannsóknafélagið því okkur var ljóst að við yrðum að vera samflota þeim á jökul, alla vega fyrstu ferðirnar. Endirinn var sá að við komumst yfir ágætan snjóbíl af Vesel-gerð og átti Hinrik mestan þátt í þeim samningum. Seinna bættust í hópinn þeir Gunnar Högnason, forstjóri Vélsmiðjunnar Keilis, og Jörundur Guðmundsson prentari, en hann var þaulvanur fjallafari og auk þess meðlimur í Flugbjörgunarsveitinni. Fyrir okkur var það mikið happ að fá Gunnar í hópinn með heila vélsmiðju á bak við sig, enda sögðu gárungarnir að bíllinn væri notaður einn mánuð á ári en í Keili til viðgerða hina ellefu.

Snjóbíllinn hlaut nafnið Naggur og fyrsta ferðin var farin á Vatnajökul vorið 1966 í samfloti við vorleiðangur Jöklarannsóknafélagsins til Grímsvatna. Þetta var upphafið að mörgum jöklaferðum næstu 10 árin. Í öllum þessum ferðum var Hinrik þátttakandi og naut af lífi og sál þessara stórkostlegu ferða. Einnig var farið á Langjökul og er minnisstæð páskaferð árið 1967 en þar lentum við í þriggja daga fárviðri. Þarna kom í ljós bilun í beltum snjóbílsins og reyndum við þá að snúa til baka, og láta menn ganga á undan bílnum. En þá kom í ljós að ekki var verandi úti, því vart var hægt að draga andann utan dyra. Ekki tapaði Hinrik glaðværðinni þrátt fyrir afar slæmt útlit. Eftir mikið streð komumst við niður af jöklinum og í betra veður og allt fór þetta vel að lokum. Alllöngu seinna strjálaðist um ferðir og eftir að Hinrik veiktist var að sjálfsögðu ekki um erfið ferðalög að ræða.

Nú að leiðarlokum er ég kveð minn ágæta félaga vil ég votta aðstandendum hans mína dýpstu samúð og vona að minningin um þennan ógleymanlega mann deyfi sársaukann við fráfall hans. Ég mun alltaf minnast hans með virðingu og þakklæti og það veit ég að allir gera sem átt hafa hann að ferðafélaga. Hann naut þess að ferðast um landið, ekki síst um hálendi og jökla og áreiðanlega hefði hann tekið undir með ferðagarpinum Sigurði Jónssyni frá Brún, er hann kvað.

Öræfin svíkja aldrei neinn,

öræfin stillt, en fálát.

Festi þau tryggð við einhvern einn,

eru þau sjaldan smálát.

Pétur Þorleifsson.

Kveðja frá Lionsklúbbnum Frey

Það var vorið l966 að Hinrik Thorarensen, sem staddur var í snjóbílaferð á Vatnajökli, varpaði fram hugmyndinni að stofnun Lionsklúbbs. Þarna voru á ferð nokkrir félagar á tveimur snjóbílum í ferð með Jöklarannsóknafélagi Íslands og tóku menn vel í þá hugmynd, sem varð til þess að Hinrik með aðstoð Hjalta Þórarinssonar fv. yfirlæknis á Landspítalanum hóf undirbúning að stofnun Lionsklúbbsins Freys sem var svo formlega stofnaður 29. febrúar l968. Guðfaðir klúbbsins er Hjalti Þórarinsson og Lkl. Ægir móðurklúbbur.

Hinrik var formaður klúbbsins fyrstu tvö starfsárin. Í klúbbnum voru margir félagar sem höfðu áhuga á ferðamennsku. Þess vegna var fljótlega ákveðið að klúbburinn stæði fyrir merkingu öræfaslóða og í framhaldi af því var svo ráðist í að merkja allar ár á hringveginum og víðar á landinu. Lionsklúbburinn Freyr varð með tímanum mjög öflugur með fjáröflunarverkefni sínu, sem hefur verið sala á jóladagatölunum alkunnu, og hefur getað stutt við fleiri góðgerðarmál en hægt yrði að telja upp hér. Hinrik var mjög duglegur og hreif félagana með sér til hinna ýmsu starfa sem inna þurfti af hendi. Fyrir störf sín í þágu Lionshreyfingarinnar hlaut Hinrik viðurkenninguna „Progressive Melvin Jones Fellow“.

Þá stóð hið glæsilega heimili þeirra hjóna ætíð opið fyrir félagana með hinum ýmsu uppákomum sem við félagarnir erum þakklátir fyrir. Hinrik var leiftrandi og skemmtilegur félagi og frásagnir hans verða lengi í minnum hafðar.

Hinrik mætti mjög vel á alla fundi klúbbsins og tók virkan þátt í öllum verkefnum sem klúbburinn tók að sér þar til heilsu hans hrakaði fyrir nokkrum árum og var mikil eftirsjá að honum.

Við félagarnir í Frey þökkum leiðtoga okkar fyrir öll árin sem hann gaf okkur og vottum Millý og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð.

Guðmundur Jón Helgason formaður.