Þróun Hafið getur verið hverful auðlind. BioPol var sett á laggirnar til að rannsaka auðlindina og skapa nýjar leiðir til verðmætasköpunar. Félagarnir Jacob Kasper, Halldór Ólafsson og Sigurður Baldursson rýna í tilraunaglas.
Þróun Hafið getur verið hverful auðlind. BioPol var sett á laggirnar til að rannsaka auðlindina og skapa nýjar leiðir til verðmætasköpunar. Félagarnir Jacob Kasper, Halldór Ólafsson og Sigurður Baldursson rýna í tilraunaglas. — Ljósmynd/Ólafur B.
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is „Fólkið hér á Skagaströnd hefur byggt afkomu sína á sjónum alla tíð, en ef farið er yfir söguna sést að hún er þyrnum stráð.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

„Fólkið hér á Skagaströnd hefur byggt afkomu sína á sjónum alla tíð, en ef farið er yfir söguna sést að hún er þyrnum stráð. Upp úr 1940 var það síldin sem fólkið stólaði á og byggð var upp stór síldarverksmiðja – en síldin brást okkur og hvarf. Sama var svo með hörpuskel og rækju, og svo núna síðast að þorskkvótinn var skorinn niður um hér um bil þriðjung. Við höfum upplifað þessar miklu breytingar á náttúrunni og þau neikvæðu áhrif sem þær hafa haft á samfélagið á staðnum,“ segir Halldór Gunnar Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol. „Þess vegna var BioPol sett á laggirnar árið 2007, til að skilja betur lífríkið í sjónum á okkar nærsvæði og reyna að koma auga á nýja nýtingarmöguleika til atvinnusköpunar.“

Þrír spennandi möguleikar

Eftir þriggja ára rannsóknarvinnu hafa starfsmenn BioPol, ásamt samstarfsaðilum, komið auga á og unnið að frekari rannsóknum á nokkrum spennandi nýtingarmöguleikum er snúa að lífríki sjávar. Halldór leggur samt áherslu á að um sprotafyrirtæki sé að ræða og leiðin að framleiðsluvöru og teljandi tekjum sé langhlaup. „Við erum einkum að skoða þrjá möguleika í dag: framleiðslu á kollageni úr grásleppuhvelju, framleiðslu sjávarolía með ræktun á ófrumbjarga þörungum og svo þróa nýja notkunarmöguleika fyrir þangafurðir.“

Grásleppan nýtt betur

Halldór bendir á að í dag sé grásleppan nánast eingöngu veidd vegna hrognanna og gríðarlegu magni af fiski því kastað í sjóinn þegar búið er að fjarlægja þau. Á undanförnum árum hafa þó verið gerðar tilraunir til markaðssetningar á heilfrystum fiski í Kína. „Það er mikilvægt finna leiðir til að nýta þessa mikilvægu nytjategund betur. Okkar nálgun var að skoða hvort nýta mætti hveljuna,“ útskýrir hann en úr hveljunni má m.a. vinna kollagen. „Almennt má segja að nóg sé til af fiskroði til að framleiða kollagen en hugsanlega býr hveljan á grásleppunni yfir einhverjum sérstökum eiginleikum sem þykja eftirsóknarverðir. Grásleppuhveljan er allóvenjuleg, þykk og hlaupkennd, og leiddi það okkur í þá átt að skoða þennan möguleika. Búið er að gera tilraunir með framleiðsluna á verksmiðjustigi og við fengum þar út ágætis afurð, en nú er verið að rannsaka hvaða eiginleikum hún býr yfir.“

Íslenskir úrvalsþörungar?

Ófrumbjarga þörungar eru ljósóháðar sjávarlífverur sem eru m.a. frumframleiðendur á fitu í lífríkinu í hafinu. Nú þegar má finna verksmiðjur í Þýskalandi, Ástralíu og Bandaríkjunum sem framleiða fitusýrur með slíkum þörungum og skoðar BioPol hvort tegundir úr hafinu við Ísland kunni að henta vel til slíkrar starfsemi. „Ræktunin fer þá fram í stórum tönkum – ekki ósvipað og verið væri að brugga bjór, en skilja má fitusýrurnar frá með nk. skilvinduaðferð og fá þannig t.d. Omega-3 fitusýrur til að nota í matvæli, í lyfjaiðnaði eða í fóður, t.d. til fiskeldis. Sem dæmi má nefna að megnið af þeim barnamat sem framleiddur er í Bandaríkjunum er auðgaður með fitusýrum sem framleiddar eru með þessum hætti.“

En kúnstin við þörungaræktina er að finna stofn sem framleiðir verðmætustu fitusýrurnar í ákjósanlegu magni. Nú þegar hefur teymi BioPol, hreinræktað um þrjátíu stofna og búið er að greina fitusýruframleiðslu níu þeirra. „Kosturinn við þessa framleiðsluaðferð er, ólíkt t.d. hefðbundinni lýsisframleiðslu, að varan er algjörlega rekjanleg og einnig ætti að vera auðvelt að fá hana vottaða sem lífræna framleiðslu. Þá getur ræktunin farið fram við aðstæður sem tryggja að engin hætta sé á að aðskotaefni eins og þungmálmar berist í vöruna sem þá myndi kalla á flókna hreinsun,“ segir hann. „Þörungarnir hér við land vaxa við kaldar aðstæður og rannsóknir benda til þess að slíkt hækki hlutfall framleiðslu þeirra á fjölómettuðum fitusýrum eins og Omega-3.“

Þangið þróað lengra

Loks vinnur BioPol að þróun þörungaþykknis úr þangmjöli frá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum. „Við erum að skoða leiðir til að vinna framleiðsluafurðir verksmiðjunnar lengra. Einn áhugaverðasti kosturinn er hvernig nýta má þangþykkni sem áburð. Við erum alls ekki að finna upp hjólið en víða um heim eru þangafurðir nýttar við áburðargjöf. Jafnframt er vitað að efni úr þangi eru nýtt til annarra og verðmætari hluta. Íslenskt þang er talið hafa sérstöðu vegna hreinleika auðlindarinnar.“

Þurfa ekki að „mennta sig burt“ frá heimaslóðunum

BioPol er einkahlutafélag í eigu sveitarfélagsins Skagastrandar. Uppistaðan í starfinu í dag eru rannsóknir og þróun en reksturinn miðar að því að skapa tekjur þegar fram líða stundir og einnig vera vettvangur kennslu og fræða á háskólastigi. Fastir starfsmenn eru fimm en yfir sumartímann fjölgar um nærri 100% á launaskrá þegar nemar og sumarstarfsmenn bætast við.

Halldór segir starfsemi af þessum toga meðal annars hjálpa til við að stöðva spekileka frá landsbyggðinni, en það vandamál er vel þekkt og útbreitt að fá tækifæri séu fyrir hendi utan allra stærstu þéttbýliskjarnanna fyrir fólk með sérfræðimenntun. „Það hefur loðað við að þeir sem hafa lært hafa menntað sig burt frá heimaslóðunum.“

Vinnustaður eins og BioPol, bendir Halldór líka á, hefur ekki bara staðbundin áhrif heldur skapar tækifæri fyrir sérfræðimenntað fólk á allstóru svæði. „Einn starfsmaðurinn keyrir t.d. til vinnu frá Sauðárkróki og í sumar var hjá okkur líffræðinemi búsettur í Svínadal.“