Sópran Helena Guðlaug Bjarnadóttir söng á Föstudagsfreistingunni.
Sópran Helena Guðlaug Bjarnadóttir söng á Föstudagsfreistingunni. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónleikar í Ketilhúsinu 10. des. sl. Helena Guðlaug Bjarnadóttir sópran, Una Björg Hjartardóttir flauta og Risto Laur píanó.

Á tímum risatónleika með tilheyrandi tæknibrellum gleymist stundum að þegar öllu er á botninn hvolft er það flytjandinn og hans vald á viðfangsefninu sem mestu máli skiptir. Með tilkomu Hofs á Akureyri hefur verið opnaður möguleiki fyrir glæsisýningar með ljósadýrð, reykvélum og hljóðmögnun sem húsið býður upp á. En hættan er fyrir hendi að menn týni sér í glamúrnum og gleymi grunnatriðunum. Sú hætta er líka fyrir hendi að mannauðurinn gleymist, sérstaklega þeir sem ekki hafa aðgang að þeirri fjölmiðlaumfjöllun og uppkeyrslu sem landsþekktir skemmtikraftar baða sig í.

Áður en Hof kom til sögunnar þurftu tónlistarflytjendur á Akureyri að láta sér nægja að flytja list sína í ýmsu húsnæði sem yfirleitt hafði verið reist til allt annarra nota, kirkjur, íþróttamannvirki ýmis konar, guðshús og svo Ketilhús KEA sem fúnkerað hefur síðustu árin sem menningarmiðstöð.

Það er ánægjulegt að öllum þessum lista-„venúum“ hafi ekki verið kastað þrátt fyrir að reist hafi verið Hof til dýrkunar listgyðjunnar. Hitt er svo annað að hingað til hafa innanbæjarlistarmenn verið lítið áberandi í þessum glæsisýningum nema sem undirleikur eða bakraddir þrátt fyrir að víða sé hæfileikafólk að finna. En þeir eru bara ekki nógu frægir til að fylla þetta dýra húsnæði.

Tónlistarfélagið hefur ekki notið opinberra styrkja nema að mjög litlu leyti, a.m.k. ekki samanborið við það fé sem rennur til annarrar menningarstarfsemi í bænum. Þrátt fyrir þetta hafa verið haldnir reglulega tónleikar í Ketilhúsinu og voru hádegistónleikarnir á föstudaginn 10. desember hluti af reglulegri starfsemi félagsins, þar sem boðið er upp á hádegisverð með tónlistarflutningi.

Það er ekki áætlun mín að gagnrýna þessa tónleika að sinni, nema að taka fram að hér voru glimrandi góðir tónleikar afbragðs tónlistarmanna og hér er svo sannanlega falinn fjársjóð að finna. Þeir 20 eða svo manns sem hlýddu á þessa tónleika munu örugglega láta vita út á við um hvers konar listamenn voru hér á ferð. Hvort sú vitneskju verður einhvern tímann nóg til þess að vega eitthvað upp á móti auglýsingamætti fjölmiðlamenningar aðkeyptra krafta er svo annað mál.

Takk fyrir frábæra hádegishressingu, Una, Risto og Helena!

Michael Jón Clarke