Stefán Ólafsson kvartar ekki lengur undan sköttum og hampar nú velferðarkerfinu

Í fréttum Stöðvar 2 fyrir helgi var rætt við Stefán Ólafsson, prófessor í félagsvísindadeild og formann stjórnar Tryggingastofnunar. Tilefnið var að þriggja barna móðir þótti hafa háar bætur, en hún væri með fjögur hundruð þúsund krónur til ráðstöfunar á mánuði. Um þetta sagði Stefán: „Það er þannig og hefur verið þannig lengi í íslenska velferðarkerfinu að það hefur verið reynt að gera vel við foreldra barna, sérstaklega einstæða foreldra, þannig að erfiðar aðstæður bitni ekki um of á börnunum.“

Stefán hefur á liðnum árum átt afar greiðan aðgang að fréttastofum ljósvakamiðlanna með sjónarmið sín og þeim sem hafa hlýtt á þau sjónarmið hlýtur að hafa krossbrugðið að heyra þessi nýju viðhorf hans. Á meðan kaupmáttur fór vaxandi hér á landi og skattar voru lækkaðir var Stefán í sérstakri herferð til að reyna að sannfæra fólk um að skattar hefðu í raun hækkað og að velferðarkerfið væri handónýtt. Nú telur hann skyndilega að velferðarkerfið styðji vel við þá sem mest þurfa á að halda og að svo hafi verið lengi.

Þessu til viðbótar hafa erindi hans um auknar skattbyrðar á almenning horfið úr fjölmiðlum, enda er Samfylkingin nú komin til valda og nú er í raun verið að hækka skatta.

Athygli vekur að á sama tíma og þessi kúvending verður hjá Stefáni Ólafssyni stendur Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, í hörðum deilum við Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann um hvort hún sé að fela greiðslur til nokkurra aðila, þeirra á meðal Stefáns.