[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Magnúsdóttir var eftirlitsmaður á vegum Handknattleikssambands Evrópu, EHF, á úrslitaleik Noregs og Svíþjóðar á Evrópumeistaramótinu í gær. Hún afhenti viðurkenningar til leikmanna áður en flautað var til leiksloka.

H elga Magnúsdóttir var eftirlitsmaður á vegum Handknattleikssambands Evrópu, EHF, á úrslitaleik Noregs og Svíþjóðar á Evrópumeistaramótinu í gær. Hún afhenti viðurkenningar til leikmanna áður en flautað var til leiksloka. Helga hefur árum saman setið í stjórn EHF og verið í aðahlutverki á mörgum síðustu stórmótum landsliða.

Logi Gunnarsson , landsliðsmaður í körfuknattleik, hélt uppteknum hætti með liði sínu Solna Vikings í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í gærkvöldi. Logi skoraði tuttugu stig og var stigahæstur hjá Solna sem sigraði Borås 77:74. Leikið er afskaplega þétt í sænska körfuboltanum en Logi spilaði einnig á föstudagskvöldið. Solna tapaði þá fyrir Jamtland en þá skoraði Logi einnig 20 stig.

Sir Bobby Charlton ber mikið lof á Sir Alex Ferguson sem í gær skráði nafn sitt enn einu sinni í sögu félagsins með því að vera sá knattspyrnustjóri sem lengst hefur unnið hjá félaginu. Ferguson hefur verið við stjórnvölinn hjá United í 24 ár, 1 mánuð og 14 daga eða einum degi meira en Sir Matt Busby en hann stýrði liði United frá október 1945 til janúar 1969 og aftur frá desember 1970 til júní 1971.

Bandaríska skíðadrottningin Lindsey Vonn átti frábæra helgi í Val d'Isere í Frakklandi þar sem hún sigraði tvöfalt. Vonn sigraði í bruni á laugardag og í tvíkeppni í gær. Með árangri sínum um helgina endurheimti Vonn efsta sætið á stigalista heimsbikarsins en hún hefur sigrað í stigakeppninni síðustu þrjú keppnistímabil. Sem stendur er hin þýska Maria Riesch í öðru sæti listans, skammt á eftir Vonn.

Japanski framherjinn Ryo Miyaichi mun ganga til liðs við Arsenal í janúar. Hann er 18 ára gamall og var til reynslu hjá Arsenal í sumar og hreifst Arsene Wenger mjög af frammistöðu hans.

Frakkinn Tony Parker fór gersamlega á kostum með liði San Antonio Spurs í fyrrinótt þegar það lagði Memphis eftir framlengdan leik, 112:106. Parker skoraði 37 stig og átti auk þessa níu stoðsendingar í leiknum. San Antonio hefur þar með unnið tuttugu og þrjá leiki en aðeins tapað þremur það sem af er leiktíðinni í NBA-deildinni í körfuknattleik.

San Antonio hefur besta vinningshlutfallið af öllum liðum deildarinnar.

Lewis Hamilton hlaut þrjú efstu sætin í svonefndri Hilton F1-könnun. Hamilton reyndist vinsælasti ökumaðurinn meðal þátttakenda í könnuninni og einnig sá best klæddi, auk þess að hafa þótt sýna framúrakstur ársins. Nico Hülkenberg þótti nýliði ársins og Lotus besta nýja liðið; varð hlutskarpara en Sauber, Virgin og Hispania. Lokamótið í Abu Dhabi var valið kappakstur ársins en í næstu sætum urðu belgíski kappaksturinn og sá breski.