Fallegur Vídeóverk af David Beckham sofandi var sýnt eitt sinn í Bretlandi. Hann passar örugglega vel að fá sinn fegrunarsvefn á hverri nóttu.
Fallegur Vídeóverk af David Beckham sofandi var sýnt eitt sinn í Bretlandi. Hann passar örugglega vel að fá sinn fegrunarsvefn á hverri nóttu. — AP
Fyrsta sönnun þess að fegurðarsvefn sé til er fundin að sögn sænskra vísindamanna. Þeir hafa komist að því að reglulegur átta tíma svefn að nóttu lætur fólk líta út fyrir að vera heilbrigðara og meira aðlaðandi en þeir sem minna sofa.

Fyrsta sönnun þess að fegurðarsvefn sé til er fundin að sögn sænskra vísindamanna. Þeir hafa komist að því að reglulegur átta tíma svefn að nóttu lætur fólk líta út fyrir að vera heilbrigðara og meira aðlaðandi en þeir sem minna sofa.

Þegar fólki voru sýndar ljósmyndir af andlitum sjálfboðaliða sem höfðu sofið lítið dæmdi það þá minna heilbrigða og minna aðlaðandi en þegar því voru sýndar ljósmyndir af sömu aðilum úthvíldum eftir góðan nætursvefn.

Niðurstöðunum fagna eflaust foreldrar unglinga sem erfitt er að fá til að fara að sofa á skikkanlegum tíma á kvöldin. En trúlega eiga þær eftir að koma sér illa fyrir snyrtivöruframleiðendur.

„Ef þú vilt líta vel út, heilbrigður og aðlaðandi er miklu betra að fá góðan nætursvefn og miklu ódýrara en aðrar fegrunarmeðferðir,“ sagði John Axelsson hjá Karolinska Institutet í Stokkhólmi, en hann leiddi rannsóknina.

Kynferðislega aðlaðandi

Munurinn á þreyttu og óþreyttu andlitunum var sáralítill á myndunum en þeir sem völdu á milli andlitanna urðu ómeðvitað varir við mun. „Merkin voru lítil en ef þú eyddir nokkrum sekúndum í að horfa á andlitin sá eðlisávísunin mun. Þú dæmir fólkið án þess að þurfa að hugsa.“

Möguleikinn á að sjá merki um of lítinn svefn getur haft kosti, þar sem aðlaðandi andlit er merki góðrar heilsu. Þetta getur haft áhrif á kynferðislega aðlöðun, val á maka og vel heppnaða genadreifingu. Að fá góðan nætursvefn fyrir stefnumót getur skilið á milli hamingju það sem eftir er eða leigubíls ein/n heim.

Dr. Axelsson sagði að lítill svefn gæti valdið sálrænum breytingum sem kæmu fram í andlitinu. Með litlum svefni veikist ónæmiskerfið, hættan á sýkingum eykst, glúkósinn sveiflast og blóðþrýstingur hækkar. En er það ekki augljóst að einhver sem lítur út fyrir að vera þreyttur þyki minna aðlaðandi? Ekki endilega segir dr. Axelsson. „Þreytulegt fólk vinnur kannski meira og er tekjuhærra. Ég gerði ráð fyrir því að þreyta tengdist heilbrigði en ég hélt ekki að þreyta tengdist hversu aðlaðandi fólk þykir.“

Rannsókin er birt í jólablaði British Medical Journal.

Fyrir rannsóknina voru tugir karla og kvenna látnir sofa að hámarki fimm klukkustundir fyrstu nóttina heima hjá sér, næstu nótt eyddu þau á rannsóknarstofu og fengu ekki að sofa neitt. Myndir voru teknar af þeim síðdegis þann dag, eftir 31 klukkustundar vöku. Önnur mynd af þeim var tekin eftir góðan átta tíma svefn. Myndirnar voru síðan dæmdar af 65 manneskjum sem gáfu þeim einkunn eftir aðdráttarafli og heilbrigði.

Aðeins örfáir sjálfboðaliðar voru sagðir heilbrigðari og meira aðlaðandi vansvefta. „Við þurfum að skoða það aðeins betur hvort þetta var tilviljunarkennt eða tengt sérstökum persónueinkennum eða öðru hjá sjálfboðaliðunum eða hinum sem skoðuðu myndirnar,“ sagði dr. Axelsson og bætti við að frekari rannsókna væri von.