Írönsk bensíndæla.
Írönsk bensíndæla.
Klerkastjórnin í Íran tilkynnti í gær að stjórnvöld muni hætta niðurgreiðslu á eldsneyti og að þau muni draga úr niðurgreiðslum á brauði.

Klerkastjórnin í Íran tilkynnti í gær að stjórnvöld muni hætta niðurgreiðslu á eldsneyti og að þau muni draga úr niðurgreiðslum á brauði. Samkvæmt breska ríkisútvarpinu, BBC, var lögreglan með mikinn viðbúnað í höfuðborginni, Teheran, eftir að tilkynnt var um aðgerðirnar í gær. Óeirðir brutust út í landinu fyrir þrem árum þegar byrjað var að skammta bensín. Aðgerðirnar munu meðal annars leiða til þess að verð á bensíni mun fjórfaldast og einnig er viðbúið að verð á rafmagni, vatni og fleiri lífsnauðsynjum muni hækka.

Þessar ráðstafanir þykja til marks um að efnahagsþvingunaraðgerðir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna kjarnorkuáætlunar klerkastjórnarinnar séu farnar að hafa veruleg áhrif á íranska hagkerfið. Þær takmarka meðal annars uppbyggingu orkuiðnaðarins í landinu og er það mat bandarískra stjórnvalda að þvinganirnar kosti íranska hagkerfið 60 milljarða dala á ári.