Hafnfirðingar þurfa að spara.
Hafnfirðingar þurfa að spara.
Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2011, ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2012-2014, var samþykkt á fundi bæjarstjórnar á föstudag.

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2011, ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2012-2014, var samþykkt á fundi bæjarstjórnar á föstudag. Hafa tekjur bæjarins dregist umtalsvert saman frá hruninu 2008, samhliða auknum útgjöldum til félagsmála og auknum álögum ríkisvaldsins í formi hærra tryggingagjalds, virðisauka-, fjármagnstekju- og orkuskatts, eins og segir í tilkynningu frá bænum.

Tekur fjárhagsáætlunin mið af þessari þróun og verður gripið til margvíslegra hagræðingaraðgerða. Á næsta ári er gert ráð fyrir að ýmsir þættir í starfsemi bæjarins verði endurskipulagðir og dregið verður úr kostnaði við stjórnun. Höfuðáhersla verður lögð á að standa vörð um velferðar- og grunnþjónustuna og eftir fremsta megni leitast við að lágmarka álögur á bæjarbúa, eins og það er orðað.

Skuldir Hafnarfjarðar nema um 36 milljörðum króna og hafa lækkað um tæpa sex milljarða á árinu. Heildareignir eru metnar á um 43 milljarða. Reiknað er með rekstrarafgangi A- og B-hluta á næsta ári upp á 295 milljónir króna en afgangur þessa árs er áætlaður um 1.500 milljónir króna, borið saman við 1.513 milljóna halla í fyrra.