Moka Snjóruðningstæki að störfum á Heathrow-flugvelli í gær.
Moka Snjóruðningstæki að störfum á Heathrow-flugvelli í gær. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil röskun varð á áætlun íslensku flugfélaganna um helgina vegna snjókomu víðsvegar í Evrópu. Icelandair þurfti að aflýsa ferðum til og frá London og París í gær. „Flug til og frá Heathrow hefur legið niðri vegna veðurs,“ segir Guðjón.

Mikil röskun varð á áætlun íslensku flugfélaganna um helgina vegna snjókomu víðsvegar í Evrópu. Icelandair þurfti að aflýsa ferðum til og frá London og París í gær. „Flug til og frá Heathrow hefur legið niðri vegna veðurs,“ segir Guðjón. „Það er einhver umferð um Heathrow, en það er misjafnt eftir flugstöðvarbyggingum. Til dæmis er ekki hægt að koma flugvélum til eða frá flugstöðvarbyggingunni sem Icelandair notar,“ sagði Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, við mbl.is í gærkvöldi. Um 1.500 manns, sem áttu farmiða með Icelandair voru strandaglópar ýmist hér á landi eða í Evrópu. Kristín Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Iceland Express, segir að félagið hafi þurft að seinka flugi til og frá Gatwick-flugvelli í London, en flugvöllurinn hafi opnast og lokast á víxl. Hún segir ekki útilokað að félagið muni bæta við flugferðum næstu daga til að vinna þetta upp, en það verði skoðað strax og flugvellir hafi verið opnaðir að nýju. „En eins og staðan lítur út núna ættum við að geta undið ofan af þessu án þess að þurfa að bæta við flugferðum,“ segir Kristín.

Á milli 250 og 300 manns biðu eftir flugi með Iceland Express. annalilja@mbl.is

FARÞEGAR ICELANDAIR FASTIR Í PARÍS

Flugnúmerið hvarf af skjánum

Morgunblaðið náði tali af Sigurgeiri M. Jenssyni í gærkvöldi, en dóttir hans, Harpa Elín, er strandaglópur á Charles de Gaulle-flugvelli í París. „Hún sagði að henni og öðrum Íslendingum hefði verið hrúgað inn í herbergi á flugvellinum, með eina kaffivél, og þar hefðu þau starað á skjái til að fá fréttir af fluginu. Svo hvarf flugnúmerið bara skyndilega af skjánum. Hún var ekki hress með samskiptaleysið. Nú er þeim sagt að að þau komist heim annað kvöld [í kvöld].“