Það vakti mikið uppnám á Alþingi og einkum í stjórnarliðinu þegar þrír þingmenn Vinstri grænna; þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, tilkynntu að þau myndu ekki greiða fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar atkvæði sitt heldur...

Það vakti mikið uppnám á Alþingi og einkum í stjórnarliðinu þegar þrír þingmenn Vinstri grænna; þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, tilkynntu að þau myndu ekki greiða fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar atkvæði sitt heldur sitja hjá og eiga þannig samleið með stjórnarandstöðunni en ekki ríkisstjórninni. Fordæmi þessa hefur ekki fundist.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gagnrýndi þingmennina þrjá harðlega og sagði naumast hægt að líta á þá sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar lengur.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði að ábyrgð stjórnarliða næði í senn til skyldu til að verja ríkisstjórn vantrausti og að styðja fjárlagafrumvarp hennar. Stjórnarþingmenn sem gerðu slíkt ekki yrðu að skoða hvar í veröldinni þeir væru staddir, eins og Össur orðaði það.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði að þau þrjú sem setið hefðu hjá við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið gætu ekki setið áfram í þingflokknum „eins og ekkert hefði ískorist“.

Hætt er við að hjásetu þingmannanna þriggja verði að skoða í nýju ljósi því samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tóku þingmennirnir þrír ákvörðun um hjásetu sína á hádegisfundi þar sem sátu auk þingmannanna þriggja þau Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna (er í barneignarleyfi), og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.

Þingmenn VG eru 15 eftir að Þráinn Bertelsson gekk til liðs við þingflokkinn. Fjörutíu prósent þingmanna VG voru því á fundinum þegar hin sögulega ákvörðun um hjásetu við afgreiðslu fjárlaga var tekin. Heimildarmenn Morgunblaðsins bentu á að í þessu ljósi yrði að líta á tiltölulega vinsamleg ummæli Ögmundar Jónassonar um hjásetu þingmannanna þriggja.

Afgreiðsla fjárlaga
» Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, þingmenn VG, sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga.
» Fjárlögin voru samþykkt með 32 atkvæðum en 31 sat hjá á Alþingi sl. fimmtudag. Tæpari mátti meirihlutinn ekki vera.
» Sex af fimmtán þingmönnum Vinstri grænna lögðu á ráðin um hjásetu þingmannanna þriggja.