Vilborg Oddsdóttir
Vilborg Oddsdóttir
Ingibjörg Rósa Björnsdóttir ingibjorgrosa@mbl.is „Þetta verður svipaður fjöldi og í fyrra, svona í kringum 4.

Ingibjörg Rósa Björnsdóttir

ingibjorgrosa@mbl.is

„Þetta verður svipaður fjöldi og í fyrra, svona í kringum 4.000 manns,“ segir Vilborg Oddsdóttir hjá Jólaaðstoðinni, en að henni standa Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn í Reykjavík og Hjálpræðisherinn. Úthlutun hefst í dag og mun standa yfir í þrjá daga. „Vonandi höfum við bara náð toppnum í umsóknum, það eru færri atvinnulausir nú en í fyrra og svo er greiddur út jólabónus til atvinnulausra í fyrsta sinn, svo vonandi hefur það eitthvað að segja. Það er almennt minna af varningi sem hefur safnast í ár en í fyrra, fyrirtæki hafa ekki gefið eins mikið núna. Nokkur fyrirtæki gefa alltaf vel en sum gefa greinilega minna, önnur gefa eflaust til einhverra annarra. En á móti kemur að fleiri veita Jólaaðstoðinni lið með peningum þannig að við getum sjálf keypt vörur og fengið góðan afslátt.“ Umsækjendur fá jólamatinn og nokkrar aukamáltíðir, allt eftir fjölskyldustærð, auk nokkurra jólagjafa. „Við lendum alltaf í sama vandamálinu þar fyrir hver jól, það vantar alltaf gjafir fyrir stráka, sérstaklega þá sem orðnir eru 7-8 ára og eldri. Það vilja einhvern veginn allir kaupa og gefa gjafir fyrir stelpur, sennilega þykir þeim auðveldara að kaupa eitthvað bleikt og stelpulegt, og við fáum óskaplega lítið af gjöfum fyrir stráka.“ Jólagjöfunum hefur verið safnað undir jólatréð í Kringlunni, á útvarpsstöðinni Bylgjunni og víðar og segir Vilborg að mönnum sýnist heldur minna af gjöfum hafa safnast í ár en áður.