Kristján Möller
Kristján Möller
Alþingi samþykkti um helgina frumvarp um breytingar á lögum um virðisaukaskatt. „Með þessu er stórt skref stigið í átt til nýrrar atvinnugreinar á Íslandi. Netþjónabúin eru boðin velkomin á Íslandi og komi þau sem flest,“ sagði Kristján L.

Alþingi samþykkti um helgina frumvarp um breytingar á lögum um virðisaukaskatt. „Með þessu er stórt skref stigið í átt til nýrrar atvinnugreinar á Íslandi. Netþjónabúin eru boðin velkomin á Íslandi og komi þau sem flest,“ sagði Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, þegar atkvæði voru greidd um frumvarpið. Lögin fela í sér að ekki verður lagður virðisaukaskattur á selda þjónustu til erlendra aðila. Þá verður ekki lagður virðisaukaskattur á innflutning erlendra aðila á netþjónum, sem hýsa á í íslenskum gagnaverum.

Samtök íslenskra gagnavera lögðu mikla áherslu á að ná þessum tveimur atriðum fram og sögðu að án þeirra væru íslensk gagnaver ekki samkeppnishæf.

Frumvarpinu fagnað

Þingmenn fögnuðu almennt frumvarpinu og sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þetta einu jákvæðu skattabreytinguna sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefði staðið að og ástæðan væri ef til vill sú, að þingið hefði tekið völdin af ríkisstjórninni og knúið fram þessar breytingar.