Klukka Er hún rétt?
Klukka Er hún rétt? — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Umsjónarmenn Kastljóss láta sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Umfjöllunarefnin eru því af alls kyns toga og koma oft á óvart. Um daginn mættu tveir vaskir menn í þáttinn til að tala um klukkuna. Annar þeirra er þingmaður.

Umsjónarmenn Kastljóss láta sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Umfjöllunarefnin eru því af alls kyns toga og koma oft á óvart. Um daginn mættu tveir vaskir menn í þáttinn til að tala um klukkuna. Annar þeirra er þingmaður. Hann er sennilega orðinn jafnþreyttur á tali um Icesave og þorri þjóðarinnar og vill hleypa meiri gleði inn í líf alþýðunnar. Besta leiðin til þess er víst að seinka klukkunni því rannsóknir lærðustu manna sýna að þjóðin fer of snemma á fætur og er því stöðugt þreytt.

Alla ævi hefur manni fundist það brýnt hagsmunamál að fá að sofa lengur og þurfa ekki að eiga mikil tjáskipti fyrir klukkan tíu á morgnana. Það er gott að nú er á þingi maður sem beitir sér fyrir því að þjóðin sé ekki rifin á fætur um miðjar nætur og látin vinna. Það er líka gott að Kastljóssfólkið skuli standa vaktina og vekja athygli á brýnu hagsmunamáli sem varðar heill allrar þjóðarinnar. Einnig er afar huggunarríkt að frétta af því að þeir sem eru fremur styggir á morgnana séu ekki geðvondir að eðlisfari heldur séu þeir súrir vegna þess að þeir sæta svívirðilegri meðferð með því að vera látnir vakna þegar þeir eiga að vera að sofa.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir