Kristján Júlíus Bjarnason fæddist í Reykjavík 27. ágúst 1929. Hann andaðist á líknardeild Landspítala Landakoti 4. desember 2010.

Foreldrar Kristjáns voru Ragnheiður Kristjánsdóttir frá Meira-Garði í Dýrafirði og Bjarni Aðalsteinsson frá Hrauni, Keldudal, Dýrafirði. Systkini: Guðný Bjarnadóttir, Ólafía Verónika Bjarnadóttir sem lést í æsku og Ólafur Bjarnason sem var tvíburabróðir Kristjáns.

Kristján kvæntist Evu Dagbjörtu Þórðardóttur 23. feb. 1957 og bjuggu þau í Akurgerði 41 í Reykjavík. Börn þeirra eru 1) Ragnheiður Kristjánsdóttir, grunnskólakennari á Egilsstöðum. Maður hennar er Óli Metúsalemsson og börn þeirra a) Einar Örn Ólason, en kona hans er Agnes Vogler og barn þeirra Völundur Ari, b) Eva Dagbjört og c) Eiríkur. 2) Sigurður Þór Kristjánsson, húsgagnasmiður. Sambýliskona hans er Steingerður Á. Gísladóttir. Börn Sigurðar eru a) Steinar Freyr, en hans kona er Irma Rán Heiðarsdóttir og þeirra börn Þorgeir Aron og Bríet Ýrr. b) Kristín Svava og c) Jón Reynir Hilmarsson, uppeldissonur Sigurðar. Hans kona er Sunna Róbertsdóttir og þeirra börn Klara Sól, Ísabella Ása og tvíburarnir Viktoría Ýr og Alexander Þór. Steingerður á þrjú börn úr fyrra hjónabandi: Sigurð Ágúst og tvíburana Ragnhildi og Sigurjón. 3) Bjarni R. Kristjánsson, heimspekingur og námsmaður. Kona hans er Dagný Blöndal og þeirra barn stúlka, fædd 9. nóv. 2010. Börn Dagnýjar úr fyrra hjónabandi eru Sólrún Rós og Einar Sigurður.

Kristján nam rafvirkjun í Volta og starfaði þar við iðn sína um skeið, vann síðan á rafmagnsverkstæði SÍS en fór til starfa hjá Reykjafelli árið 1971 og starfaði þar þangað til hann lét af störfum rúmlega sjötugur.

Útför Kristjáns fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 20. desember 2010, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku pabbi minn, ég vissi ekki hvor kæmi fyrr kveðjudagurinn þinn eða fæðingardagur litlu dóttur minnar. En ég hefði mátt vita að þú færir ekki fyrr en þú værir búinn að hitta litlu manneskjuna. Alla meðgönguna fylgdistu með af áhuga og tilhlökkun og þegar nær dró vissu nær allir á líknardeildinni að lítil afastelpa væri væntanleg.

Svo var hún komin í fangið þitt í sjúkrarúminu og þú skoðaðir hana í krók og kring ánægður og stoltur. Ég tók af ykkur ljósmynd sem ég sýni henni seinna þegar hún er orðin stærri. Þá ætla ég að segja henni frá afa Kristjáni.

Þá segi ég henni frá því þegar ég man eftir þér fyrst, hálfsofandi og uppgefinn á öxlinni þinni eftir matarboð á Hverfisgötunni. Hvað það var notalegt að finna öryggið og hlýjuna þegar þú hélst á litla stráknum þínum niður hálar tröppurnar í kvöldkulinu.

Og þá segi ég henni líka frá því að ef ég varð lasinn þegar ég var lítill og þurfti að liggja heima í rúminu mínu, brást það aldrei að þú kæmir hlaupandi upp stigann til mín þegar þú komst heim úr vinnunni. Og þú klappaðir mér mjúklega á ennið með stóru fingrunum og kallaðir mig gosann þinn.

Eða hvað þú gast verið hrekkjóttur og gabbað mig til að trúa því að sennilega yrði að sleppa afmælinu mínu eitt árið því það vantaði pláss í dagatalið. Þá varð ég áhyggjufullur.

Og hvað þú unnir landinu þínu og hversu mikið þú naust þess að ferðast. Ég varð alltaf jafn undrandi yfir því hvað þú mundir öll örnefni í sveitum sem þú hafðir farið um þó ekki væri nema einu sinni. Hver hóll, hver árspræna, jafnvel hver einasta brú eða beygja var greypt í minni þér svo hægt var að fletta því þar upp eins og í ferðabók.

Vonandi get ég einhvern tíma kennt stelpunni minni að meta landið sitt og hversu fallegt og dýrmætt það er. Eins og þú kenndir mér.

En fyrst og síðast, pabbi minn, mun ég segja henni frá því hvað þú varst góður maður. Hvað þú varst alltaf heiðarlegur og hreinskiptinn gagnvart öðru fólki og hvernig þú varst sannur vinur vina þinna. Og ég ætla að segja henni að þú varst alla tíð stóra fyrirmyndin mín í vandvirkni og samviskusemi.

Ég veit að þið hefðuð orðið miklir mátar ef þið hefðuð fengið lengri tíma saman. Því þú varst ekki bara góður pabbi heldur líka mildur og hlýr afi. Því fengu stjúpbörnin mín tvö að kynnast sem nú syrgja afa sem aldrei gerði neinn greinarmun á þeim og öðrum afabörnum. Fyrir það verðum við Dagný þér alltaf þakklát.

Hvíldu í friði, elsku pabbi minn, og þakka þér fyrir allt það góða sem þú gafst mér.

Ég sakna þín.

Þinn sonur,

Bjarni Kristjánsson.

Með hryggð í hjarta en streng af feginleik kveð ég tengdaföður minn. Hans tími var kominn eftir áralangt stríð við óvæginn gest. Gest sem hann tókst á við af óbilandi og einstæðu æðruleysi, fyrst í þeirri trú að hægt væri að búa með honum, en síðan í sátt við það að enginn flýr sitt skapadægur. Í sumar fóru þau hjón, Kristján og Eva, með okkur Ragnheiði akandi til Egilsstaða. Alla leiðina vorum við í blíðu sumarveðri, fórum okkur hægt og við nutum öll ferðarinnar. En þarna gerðum við Ragnheiður okkur ljóst hve mjög var af Kristjáni dregið. Ég vona og trúi því að þessi síðasta ferð hans í Egilsstaði hafi lífgað upp á síðustu daga lífs hans. Eftir fárra daga dvöl flugu þau Eva aftur suður og skömmu síðar var Kristján lagður inn á líknardeildina á Landakoti, þar sem hann dvaldi til æviloka við einstaklega gott atlæti og mikla umhyggju, sem ég veit að aðstandendur hans verða ævinlega þakklátir fyrir.

Í haust eru liðin 33 ár síðan ég kom fyrst í heimsókn í Akurgerði 41; síðhærður og fúlskeggjaður háskólanemi, klæddur í þykkan sjóliðajakka, í fylgd með heimasætunni á bænum. Ég var settur niður í stofu og hellt í mig sjóðheitu kaffi að hætti húsfreyjunnar, meðan heimasætan brá sér upp á loft til að skipta um föt fyrir frekara skemmtanahald. Ekki man ég lengur hvað var rætt á þessum fundi, en man enn hvað ég svitnaði, hvort sem það var af feimni við verðandi tengdafólk eða um var að kenna of þykkum jakka og of heitu kaffi. Síðan þá hef ég eytt ótal stundum í stofunni í Akurgerði 41 en haft vit á að fara úr yfirhöfninni frammi á gangi! Þó ég hafi birst þarna sem hálfgerður Neanderdalsmaður, rænt heimasætunni og síðar flutt með hana og fyrsta barnabarnið í Egilsstaði, sem í þá tíð jafngilti flutningi til annarra landa, var ég aldrei látinn gjalda þess. Alltaf var Kristján og þau hjón bæði boðin og búin til að rétta okkur hjálparhönd ef á þurfti að halda. Dagsferðir í bæinn enduðu oftar en ekki í kaffi í Akurgerðinu eða þá að ég stakk inn nefinu í hádeginu og þáði snarl og gaf skýrslu um uppeldi barnabarnanna. Ekki var leitað annað ef ég eða mitt fólk þurfti gistingu í eina eða fleiri nætur.

Kristján verður mér minnisstæður um margt. Hann var hár og grannur með hrokkið svart hár og á efri árum safnaði hann skeggi að hætti hellisbúans tengdasonarins, sem klæddi hann vel og gaf andlitinu fyllingu, sem holdafarið sveik hann um. Hann var nákvæmur og samviskusamur og mikill snyrtipinni og ég gerði stundum grín að því að hann færi ekki út með ruslið án þess að setja upp bindið. Fyrir utan það að muna hann ætíð sem ástríkan afa barnanna minna, mun ég þó minnast hans lengst sem sögumanns. Alltaf hafði hann á hraðbergi dæmisögur úr eigin lífi til að krydda umræðuefnið og minnti mig þar á annan höfðingja og uppáhald; þann góða dáta Svejk. Eftir svo langa samferð er ekki örgrannt um að ég hafi kannski heyrt einhverjar þeirra oftar en einu sinni! Ef ég gæti spurt hann nú um tilveruna fyrir handan er ég viss um að svarið byrjaði á: „Þegar ég var í Volta...“

Óli Grétar Metúsalemsson.

Vammlausum hal og vítalausum fleina

vant er ei, boglist þarf hann ei að reyna.

Banvænum þarf hann oddum

eiturskeytaaldrei að beita.

(Grímur Thomsen íslenskaði.)

Þessar hendingar lýsa Kristjáni Júlíusi Bjarnasyni sem við fylgjum nú til grafar, betur en flest annað. Vammleysi hans, heiðarleika og reglusemi var við brugðið. Aldrei þurfti að draga í efa orð hans eða gerðir. Þessa eiginleika metum við kannske enn betur í dag en oft áður og vonandi að þeir verði okkur hinum leiðarvísir á komandi tímum.

Kristján var fæddur í Reykjavík fyrir rúmum áttatíu árum og bjó þar allt sitt líf. Eftirlifandi tvíburabróðir hans er Ólafur. Tvær eldri systur áttu þeir bræður, Ólafíu Veroniku sem lést áður en þeir fæddust og Guðnýju sem andaðist 1996, þá háöldruð.

Kristján var rafvirkjameistari og starfaði við iðn sína og sem sölumaður hjá fyrirtækinu Reykjafelli þar til hann var kominn á áttræðisaldur. Kristján las mikið og fylgdist vel með þjóðmálum. Hann var afskaplega minnugur og oft bárum við undir hann atburði sem skolast höfðu til í gloppóttu minni okkar en hann mundi eins og þeir hefðu gerst í gær. Hann var hæglátur maður og heimilið og fölskyldan var hans vettvangur. Ég hef þekkt Kristján mág minn jafn lengi og manninn minn, Ólaf bróður hans, eða um sextíu ára bil. Þau kynni hafa staðið óslitið fram til síðustu stundar og alltaf með miklum ágætum.

Kristján var kvæntur Evu Dagbjörtu Þórðardóttur, skólasystur minni, og eiga þau þrjú vel menntuð og mannvænleg börn. Ragnheiði, Sigurð Þór og Bjarna Reyni. Öll eiga þau börn og Ragnheiður og Sigurður barnabörn. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn, dóttir Bjarna, yndisleg lítil stúlka, fæddist tæpum mánuði áður en afi hennar dó. Það er eins og hann hafi beðið með að fara þar til þessi litla manneskja var komin í heiminn og gat heilsað afa sínum og kvatt. Kristján hverfur frá góðu búi og skilar til samfélagsins mannauð sem þjóðin þarf á að halda.

Þeir bræður og við konur þeirra höfum verið í sama vinahópnum allan okkar hjúskap. Við vorum upphaflega tíu en þessi hópur er farinn að þynnast og nú erum við aðeins fimm eftir en svona er lífið.

Kristján háði langa og stranga baráttu við íllvígan sjúkdóm og síðustu mánuðirnir voru erfiðir. Ekki það að hann kvartaði, frá honum heyrðist aldrei eitt æðruorð. En hann var ekki einn, Eva stóð við hlið hans eins og klettur allt til síðustu stundar og studdi hann eins og hún gat. Starfsfólk líknardeildar Landakots á líka þakkir skildar fyrir ótrúlega fórnfýsi og gæsku.

Við Ólafur sendum Evu, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum, okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að blessa þau og veita þeim styrk.

Að lokum kveð ég þig, mágur og vinur, með ljóði Ólafs Jóhanns Sigurðssonar:

Hræddist ég fákur, bleika brá,

er beislislaus forðum gekkstu hjá.

Hljóður spurði ég hófspor þín:

Hvenær skyldi hann vitja mín?

Loks þegar hlíð fær hrím á kinn

hneggjar þú á mig, fákur minn.

Stíg ég á bak og brott ég held,

beint inn í sólarlagsins eld.

Geirþrúður Kristín.

Í dag kveðjum við elskulegan föðurbróður okkar, hann Kristján, tvíburabróður pabba. Kristján, Eva og börnin þeirra þrjú hafa verið órjúfanlegur hluti af okkar litlu fjölskyldu, sem Bjarni afi og Guðný systir þeirra bræðra héldu svo þétt saman.

Kristján og pabbi voru fæddir í Reykjavík og ólust upp á Hverfisgötunni. Í æsku okkar áttu afi og Guðný frænka þar sitt heimili og þar var einnig miðstöð fjölskyldunnar þar sem vestfirskar minningar og hefðir voru í fyrirrúmi. Þar safnaðist fjölskyldan saman á hátíðis- og tyllidögum og þá voru oft rifjuð upp bernskubrek þeirra bræðra og vina þeirra.

Frænka sem var tuttugu árum eldri en þeir bræður tók virkan þátt í uppeldi þeirra, elskaði þá og dáði og talaði ævinlega um þá í sömu andrá sem „bræðurna“. En okkur krökkunum skildist að þeir bræður hefðu fengið nokkuð frjálslegt uppeldi og hafi verið alluppátækjasamir á sínum yngri árum. Meðal annarra uppátækja þeirra og Heimis æskuvinar þeirra var að lokka dúfur inn í íbúðina og hjóla allir á sama hjólinu en best þótti okkur samt sagan af því þegar þeir sandþvoðu bíl nágrannans. Þeir höfðu nefnilega heyrt að sandþvottur væri svo góður. Það vafðist þó fyrir okkur systrum að trúa öllum þessum sögum upp á Kristján frænda því það var erfitt að hugsa sér hann óþekkan og uppátækjasaman. Í okkar huga var hann hinn góði, myndarlegi, hægláti og heilsteypti frændi sem við vorum stoltar af og mun hann alltaf eiga sinn sess í hjörtum okkar.

Við sendum Evu, Öggu, Sigga og Bjarna ásamt fjölskyldum þeirra okkar innlegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að blessa þau.

Aðalbjörg og Ragnheiður

Ólafsdætur.

Þá er fallinn frá kær vinur minn, hann Kristján Júlíus Bjarnason.

Í æsku kynntist ég Kristjáni og tvíburabróður hans, honum Ólafi, en stutt var á milli heimila okkar neðst á Hverfisgötunni. Einhvern veginn varð það svo að við urðum mjög samrýmdir og sótti ég mikið í félagsskap þeirra bræðra. Á þessum árum voru margir krakkar þarna í nágrenninu, börn í næstum hverju húsi og sums staðar stórir systkinahópar svo ekki vantaði leikfélagana. Þarna endurgerðum við heilu sögurnar um Tarsan og Hróa hött, en teiknimyndasögurnar um þá birtust í dagblaðinu Vísi á þessum árum. Svo voru háaloftin tekin undir tindátaleiki, aldrei skorti viðfangsefni. Kristján var alltaf mjög yfirvegaður og aldrei gerðum við neitt sem var honum á móti skapi, þannig má segja að hann hafi stýrt leikjum okkar.

Þau voru ófá skiptin sem Kristján rifjaði upp atburði frá æskudögunum, hann hafði ótrúlegt minni og gat sagt frá löngu liðnum atburðum svo sem þeir hafðu gerst í gær.

Seinna sem ungir menn komnir með konur og börn, öll á svipuðum aldri, endurnýjaðist og styrktist vináttan og margar eru gleðistundirnar sem við höfum átt með Kristjáni og Evu konu hans og börnum þeirra sem koma upp í hugann þegar hugsað er til baka.

Við hjónin og dætur okkar sendum Evu, börnum hennar og þeirra fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Kristjáns.

Hákon Heimir og Ólöf.