Sigrún Haraldsdóttir lagði leið sína í bæinn, kannski að leita að jólagjöfum, og sendi Vísnahorninu kveðju eftir það: „Ég hitti kerlinguna áðan, nýklippta og uppskveraða.

Sigrún Haraldsdóttir lagði leið sína í bæinn, kannski að leita að jólagjöfum, og sendi Vísnahorninu kveðju eftir það: „Ég hitti kerlinguna áðan, nýklippta og uppskveraða. Ég spurði hana hvort hún ætlaði að þiggja boð karlsins á Laugavegi og fara með honum til Parísar. Hún brosti og svaraði:

Ég vilja minn fer ekki að fela

að fús með þeim karlrembudela

í góðviðri lygnu

skal ganga með Signu

í rökkri með rauðvín á pela.

Með þeim sótrafti flissandi flakka

og flottustu ostrurnar smakka

og bara ef ég vil

þá breyti ég til

og næ mér í fjörugan Frakka.“

Það eru merkileg tíðindi fyrir alla sem unna góðum kveðskap að Þórarinn Eldjárn skáld hefur sent frá sér Vísnafýsn með úrvali vísna. Ein sígild vísa nefnist „Höfundarréttur“:

Ritdómarinn harði úr hörku er að springa

höfunda telur sakborninga.

Jafnvel eftirlætishöfundur hans

hefur réttarstöðu grunaðs manns.

Grétar Snær Hjartarson sendir kveðju: „Með þessari jólakveðju föður míns frá árinu 1984 óska ég ykkur gleðilegra jóla og þakka allar ánægjustundirnar við lestur „Vísnahorns“ Morgunblaðsins:

Við göngum til móts við gleðileg jól

og góðvild í hverju hjarta

og nú er horft móti hækkandi sól

og heillandi vorinu bjarta.“

Pétur Blöndal pebl@mbl.is