Friðrik Helgi Jónsson fæddist á Siglufirði 13. nóvember 1951. Hann lést að heimili sínu í Reykjavík 12. desember 2010. Hann var sonur hjónanna Steinunnar Friðriksdóttur, f. 10. janúar 1934, og Jóns Árnasonar, f. 28. september 1932, d. 1. apríl 2007. Systkini Friðriks eru Elín Guðrún Jónsdóttir, f. 22. mars 1953; Árni Frímann Jónsson, f. 6. ágúst 1955; Ástríður Sigurrós Jónsdóttir, f. 23. mars 1961, og Jón Steinar Jónsson, f. 14. október 1963.

Friðrik kvæntist konu sinni Guðnýju Ágústu Steinsdóttur 14. september 1974. Guðný fæddist 18. ágúst 1954 í Reykjavík, foreldrar hennar eru Steinn Guðmundsson, f. 15. maí 1933, og Guðbjörg Soffía Petersen, f. 20. júlí 1933. Friðrik og Guðný eignuðust saman tvö börn þau Hildi, f. 11. júlí 1985, og Stein, f. 23. mars 1988.

Fyrstu fjögur ár ævi sinnar bjó Friðrik hjá ömmu sinni og afa á Siglufirði, en eftir það ólst hann upp hjá foreldrum sínum í Hafnarfirði. Friðrik lauk kennaraprófi og stúdentsprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1973, BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1976, meistaraprófi í félagssálfræði frá London School of Economics 1977 og doktorsprófi frá Háskólanum í Sheffield 1986. Hann vann næstum allan sinn feril í Háskóla Íslands, varð stundakennari í félagsvísindadeild árið 1983 og lektor í sálfræði árið 1989. Hann varð dósent í sömu grein 1992 og prófessor árið 2007. Aðalkennslugrein Friðriks var félagssálfræði en á ferli sínum sinnti hann kennslu miklu víðar, bæði innan sálfræðinnar og utan. Hann var vinsæll kennari og farsæll stjórnandi, gat sér góðan orðstír á sínu sviði og var eftirsóttur til margvíslegra starfa. Hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar 1999-2009. Hann sat einnig í stjórnum stofnana skólans, var varafulltrúi í háskólaráði og tók þátt í margs konar nefndarstörfum fyrir Háskóla Íslands. Hann var forstöðumaður Rannsóknastofnunar uppeldismála 1986-1987 og formaður skólanefndar Menntaskólans við Hamrahlíð um skeið. Einnig gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir menntamálaráðuneytið. Friðrik var ötull rannsóknamaður í sálfræði í nær þrjá áratugi. Hann var aðalhvatamaður og stjórnandi ráðstefnuhalds um rannsóknir í félagsvísindum, sem nú kallast Þjóðarspegill, fyrst 1994 og fram til ársins 2008. Friðrik lék knattspyrnu með yngri flokkum og var markvörður meistaraflokks FH. Síðar tók hann að sér þjálfun, einkum markvarða.

Útför Friðriks fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 20. desember 2010, og hefst athöfnin kl. 16.

Elsku bróðir, ekkert var mér fjarlægara en að setjast niður og skrifa um þig minningargrein. Ég gekk alltaf að því sem vísu að þú yrðir til staðar og ég gæti tekið í styrka hönd þína hvenær sem er. Ég þekki ekki annað en að eiga þig að og geta leitað til þín í gleði og sorg. Frá fæðingu hefur þú passað mig og mínar fyrstu minningar tengjast þér. Hugurinn leitar aftur til þess þegar þú um fermingu sóttir mig þriggja eða fjögurra ára stelpuhnátuna í leikskólann. Þú tókst þétt í höndina á mér og við gengum saman sundið við hliðina á St. Jósefsspítala. Á leiðinni kenndir þú mér að segja orðið útvarp og svo kartafla. Tungan vafðist eitthvað fyrir mér en það var engin gagnrýni frá þér heldur aðeins þolinmæði kennarans sem vildi að sú stutta kæmi orðunum rétt frá sér. En auðvitað var það ekki alltaf einfalt fyrir unglinginn að þurfa að taka ábyrgð á litlu systur, eins og við Selvogsgötuna, þú slepptir hendinni af mér, en bauðst mér litla putta. Það var aldrei að vita hverjum við mættum, þú unglingurinn með litlu systur í eftirdragi. Þegar ég varð aðeins eldri varstu fljótur að ráða mig til hinna ýmsu verkefna sem ég hefði eflaust unnið kauplaust en að fá 500 krónur fyrir að klóra þér á bakinu; 500 strokur voru unnar af samviskusemi enda reiknaðir þú ekki með öðru.

Í gegnum árin hef ég alltaf verið svo ótrúlega stolt af þér. Þegar þú varst í markinu hjá FH, kláraðir námið við LSE og ekki síst þegar þú varðst doktor. Örlögin höguðu því þannig að þú kvaddir okkur í hinsta sinn daginn sem þú hélst upp á 25 ára doktorsafmæli. Þú gerðir allt svo vel, varst fyrirmyndareiginmaður og fyrirmyndarfaðir. Hvernig þú komst fram við þitt fólk var aðdáunarvert, af látleysi og hógværð, þó þú værir fastur fyrir og ákveðinn. Af yfirvegun var orðum hagað þannig að í þeim fólst stuðningur en ekki gagnrýni, en um leið oft ögrun til að fá fólk til að hugsa.

Þeir eru ófáir nemendurnir sem hafa hrósað þér í mín eyru sem afburðakennara. Þú lagðir alúð við það starf og mikinn metnað í undirbúning fyrir hverja önn og það kallaði oft á vinnu heilu næturnar, enda gerðir þú meiri kröfur til þín en annarra.

En þú varst fyrst og síðast vinur vina þinna. Órækasti vitnisburðurinn um hversu góður þú varst við alla, sem stóðu þér nærri, er vinahópurinn sem heimsótti þig reglulega í gegnum veikindin. Mikið þótti okkur öllum vænt um hversu mikla ræktarsemi æskuvinirnir og samstarfsmaður sýndu þér og langar mig að þakka Sigurði Grétarssyni, Steingrími Þórðarsyni og Viðari Halldórssyni fyrir hlýjuna og traustið sem þeir sýndu þér alla tíð.

Það var okkur öllum mikið áfall þegar þú greindist með krabbamein vorið 2008. En þú ákvaðst strax að sigrast á þessum sjúkdómi og barðist af hörku allan tímann. Allt fram á síðasta dag varst þú ákveðinn í að hafa sigur.

Síðustu dagar hafa verið erfiðir en að fá að vera með þér fram á síðustu stundu mun alltaf ylja mér um hjartarætur og strengurinn sem var á milli okkar verður aldrei slitinn. Guð geymi þig, elsku bróðir.

Þín litla systir,

Ástríður Sigurrós (Ásta Rós).

Kveðja frá Barcelona.

Friðrik var einstaklega góður maður,

með húmorinn í lagi og alltaf glaður.

Fyrirmynd hann flestum var,

þótt lið hans hafi verið Tottenham.

Kunnir ráð við flestu og með allt á hreinu,

enda sálfræðingur með meiru.

Meistari á Meistaravöllum varst,

keppnisskap þú ávallt barst.

Við kveðjum þig með söknuði,

elsku Friðrik frændi.

Minningu þína við munum alltaf geyma,

þú ert í hjarta okkar allra hérna heima.

Um leið og ég kveð þig bið ég góðan Guð að passa Guðnýju, Hildi, Stein og ömmu Steinunni.

Þín frænka,

Guðrún Nielsen.

Það var svalt síðustu vikuna í september 1958 þegar hringt var á dyrabjöllunni hjá okkur í nýbyggingunni á Hringbrautinni. Við vorum nýflutt úr Óla Garða-húsi, sem stóð í miðri Illubrekkunni, og vorum hálffeimin við sírat nýju íbúðarinnar sem var dyrasími. Fyrst í stað þótti okkur svolítil tilgerð að tala í dyrasíma milli hæða í húsi sem hafði ekki venjulegan síma og því var hlaupið niður meðan við vöndumst tækninni. Úti í haustnepjunni stóð brosandi og snöggklipptur Friðrik Helgi Jónsson með fráhneppt í hálsinn. Hann sagði að við yrðum í sama bekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar og að við værum víst skyldir í ofanálag, nokkuð sem húsbóndinn á Hringbrautinni staðfesti síðar og rakti til manna sem höfðu tekið til handargagns fleira sauðfé en þeir áttu. Vináttan var innsigluð áður en september var allur og hélst áreynslulaust síðan.

Í Barnaskóla Hafnarfjarðar hófum við skólalærdóm með því að bíða í röð eftir öðlingnum Kjartani Ólafssyni, sem í endurminningunni var ævinlega í gráum jakkafötum og ilmaði af filterslausum Camel. Kjartan var svo góður og við bekkjarsystkinin svo elsk að honum að jafnvel steinbítstakið, sem hann notaði stundum til að róa æsta stráka, varð eins og blíðleg stroka. Enginn hafði viðlíka áhrif á okkur og hann alveg þangað til við kynntumst Bítlunum. Á leiðinni heim úr skólanum hrekktum við svo stelpur sem okkur leist vel á.

Á Hringbrautinni og í Háukinninni uppgötvuðum við riddara hringborðsins og seinna Stones. Við sórumst í fóstbræðralag við þá vorið 1963 og innsigluðum það með kaupum á „Sixties Chelse“-skóm, þessum með breiðu teygjunni og hælnum. Grimmir töffarar á 1. bekkjar ballinu í Flensborg, í skónum og með áhnepptar blúndur á skyrtunum sem hannyrðakonan í Háukinninni útbjó.

Nýtt líf hófst 1966 þegar Friðriki áskotnaðist fyrir fermingarpeningana fyrsta alvörugræjan, Robert‘s útvarp. Sunnudagskvöldin fóru í Top Twenty á Radíó Luxemburg, hvílík kvöld. Í júní 1967 kom svo Sgt. Pepper‘s og tónninn var gefinn fyrir Kennaraskólaárin. Axlasítt hár og nýir vinir. Upp frá því fór að örla á áhuga Friðriks á sálinni, því óræða fyribæri. Það var þá sem ég áttaði mig á því að við hugsuðum ekki alltaf eins. Þá fór hann að hlusta á Dylan og Motown-liðið með blásturshljóðfærunum sem er nú ekki beinlínis rokk. Og skömmu seinna viðraði Friðrik pólitískar skoðanir sem voru ekki alveg eins og Hafnarfjarðarkratisminn sem ég var alinn upp við. Eftir á að hyggja held ég þó að ólíkar skoðanir okkar í þeim efnum hafi verið eins og hjá þeim sem aldrei lásu pólitísku fræðin vel. Að minnsta kosti vöfðust þau aldrei fyrir vináttu okkar.

Síðustu tvo áratugina tókum við upp þráðinn frá unglingsárunum og spiluðum bridds. Við hefðum bara þurft önnur 20 ár saman á því sviði til að verða góðir.

Svo er ævinlega um þann mann sem eignast góða konu að hann vex á því að hún er með honum. Það var gæfa Friðriks að feta lífsbrautina með Guðnýju Steinsdóttur. Elskusemi hennar er viðbrugðið.

Steingrímur Þórðarson.

Við Friðrik kynntumst haustið 1960, þegar ég settist í 9 ára A hjá Kjartani Ólafssyni í Barnaskóla Hafnarfjarðar. Vorum nágrannar – á Hvaleyrarbraut og í Ásbúðartröð. Síðan urðum við samskipa í lífinu í hálfa öld. Báðir fóru í Flensborg, Kennaraskólann, Háskóla Íslands og í meistara- og doktorsnám til Englands. Svo í starf við Háskólann. Þar höfum við verið nánir samverkamenn í tæpa þrjá áratugi. Líka miklir FH-ingar og átt góðar stundir í leik og starfi með Fimleikafélaginu. Fyrir nokkrum árum tók Friðrik upp á því að hjóla úr Reykjavík á heimaleiki FH í Kaplakrika. Tvö sumur hjólaði ég með honum. Við áttum góðar stundir tveir einir og um margt að spjalla. Nú sé ég betur hversu dýrmætir þessir hjólatúrar voru. Unnum líka oftast. Þótti ekki verra.

Hann var minni en ég þegar við vorum níu ára. Strákarnir í bekknum flugust gjarnan á, sjaldan þó í illu. Oft slógumst við Frikki og alltaf eins: hann boxaði og kom einhverjum höggum í andlitið á mér áður en ég kom honum flötum á skólamölina – og lá síðan ofan á honum þangað til allur vindur var úr okkur. Ekki var kappið minna í fótboltanum. Þegar við vorum í 12 ára A komum við á skólamóti í knattspyrnu og gáfum til þess bikar – sagt var að við hefðum þegar smíðað hillu undir bikarinn í okkar stofu. Úrslitaleiknum töpuðum við fyrir 11 ára C, þar sem Þórir heitinn Jónsson fór fremstur í flokki. Allir vorum við beygðir, en markvörðurinn hljóp beint heim, grenjandi af reiði. Seinna lærði Friðrik að temja skap sitt betur. En dugnaðurinn, metnaðurinn og keppnisskapið einkenndu hann ævilangt. Vinir hans hafa síðustu ár dáðst að því harðfylgi sem hann sýndi í sinni síðustu glímu.

Friðrik var Háskóla Íslands frábær starfsmaður. Hann gegndi lykilhlutverki við uppbyggingu kennslu í sálfræði í félagsvísindadeild. Líka í Félagsvísindastofnun, þar sem hann var forstöðumaður í áratug. Ráðstefna um rannsóknir í félagsvísindum – nú Þjóðarspegillinn – var að miklu leyti hans verk. Einn fremsti vísindamaður Háskólans var í dómnefnd sem mælti með framgangi Friðriks í starf prófessors. Hann sagði mér, að það starf hefði verið sér alveg sérstök ánægja: óeigingirnin hefði leiftrað úr ferilskránni. Friðrik hefði ekki bara sinnt þeim starfsþáttum sem í punktakerfi Háskólans gilda til hærri launa og aukins starfsframa, heldur lagt sig allan fram við að efla greinina, deildina, Háskólann – hvort sem því fylgdi veraldleg umbun eða ekki. „Svona mann vildi ég hafa í minni deild!“ bætti hann við.

Oddaverjar sakna Friðriks. Samræðna á kaffistofu um enska menningu, stjórnmál, fræði, mannlíf. Skarpra og fyndinna athugasemda. Kerskni og stríðni. Stöku sinnum ofurlítils koníaks inni á skrifstofu eftir verkalok. Vinar, sem alltaf var hægt að leita til ef á bjátaði.

Fyrir hönd starfsfólks Félagsvísindasviðs HÍ votta ég Guðnýju, Hildi, Steini og öðrum ættingjum dýpstu samúð okkar – um leið og við þökkum samvistirnar við Friðrik. Hann var góður drengur.

Ólafur Þ. Harðarson, forseti Félagsvísindasviðs HÍ

Minning um kæran vin.

Elskulegur vinur okkar, Friðrik H. Jónsson, er látinn eftir erfið veikindi. Aldrei kom annað til greina hjá honum en að sigra og háði hann hetjulega baráttu allt til enda með Guðnýju sér við hlið sem gætti hans og fylgdi hvert fótmál. Annar eins kærleikur og á milli þeirra ríkti er vandfundinn. Það var alltaf tilhlökkunarefni þegar matarklúbbskvöldin voru framundan. Við höfum haldið þeim sið í mörg ár að hittast og eiga saman góðar stundir vinkonurnar ásamt mökum. Friðrik var hafsjór af fróðleik hvort sem var um tónlist, knattspyrnu, bókmenntir eða lífið almennt. Hann var snjall í rökræðum, vildi brjóta málin til mergjar og hafði af því yndi. Hann var mikill fjölskyldumaður, frábær faðir, góður félagi barna sinna og naut þess að styðja þau í þeim verkefnum sem þau tóku sér fyrir hendur. Friðrik var dýrmætur vinur sem við öll söknum.

Elsku Guðný, Hildur, Steinn og fjölskylda. Missir ykkar er mikill. Megi almættið veita ykkur styrk til að líta fram á veginn í sorginni og geyma með ykkur minninguna um góðan dreng. Blessuð sé minning hans.

Sólrún, Jóhannes,

Aðalheiður, Oddur, Ásta

og Guðleifur.

Í dag kveðjum við góðan vin og félaga til áratuga. Það er í minningunni ekki svo ýkja langt síðan að leiðir okkar Friðriks lágu saman í fótboltanum í FH og síðan í gegnum lífið. Friðrik Helgi var vinur vina sinna, hafði ákveðnar skoðanir og rökræðurnar voru margar sem við áttum, fyrst um fótboltann, sem fylgdi okkur alla tíð, og síðan einnig um pólitíkina. Frikki var markmaður í FH liðinu á 8. og 9. áratugnum, góður markmaður en gekk með það í maganum að hann væri einnig frábær framlínumaður en ekki voru margir sem deildu þeirri skoðun með honum. Frikki var metnaðarfullur, vildi ná langt bæði í leik og starfi, glaður á góðri stundu, mikill fræðimaður og hafði góðan skilning á íþrótt íþróttanna, knattspyrnunni. Við hjónin urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fylgja þeim Frikka og Guðnýju á lífsleiðinni og man ég vel þegar þau byrjuðu að draga sig saman snemma á 8. áratugnum. Frikki var gæfumaður í einkalífi og samband þeirra Guðnýjar ávallt hlýtt og notalegt, virðing og samkennd einkenndi þau. Börnin Hildur og Steinn nutu ástríkis og umhyggju og má segja að veganesti þeirra út í lífið sé gott, góð gildi í hávegum höfð.

Það er margs að minnast þegar maður á besta aldri er kallaður burt. Æfingar, leikir, keppnisferðir og ferðir á útihátíðir á yngri árum. Skemmtilegar minningar koma upp um heimsóknir bæði hér heima og erlendis þegar árin liðu og konur og börn komu inn í líf okkar. Alltaf var Frikki í jafnvægi, yfirvegaður en ávallt skemmtilegur. Það var því erfitt að fá þær fréttir á vordögum 2008 að Frikki hefði greinst með erfiðan sjúkdóm, en ekki kvartaði hann. Hann ætlaði sér að sigrast á þessum sjúkdómi en beið lægri hlut að lokum þrátt fyrir hetjulega baráttu, ávallt með Guðnýju sér við hlið. Hennar barátta var ekki síður hetjuleg. Söknuður hennar og barnanna Hildar, Steins og kærustunnar Mörtu er mikill. Frikki var stoð þeirra og stytta, hvatti þau áfram á jákvæðan hátt. Frikki mun ávallt lifa í hjarta okkar og minningin um hann aðeins kalla fram kærleika og hlýju.

Guðný, Hildur, Steinn, Marta og Steinunn: Ykkar er missirinn mestur, megi minningin um góðan dreng, ástríkan föður, elskulegan eiginmann og umhyggjusaman son ávallt lifa með ykkur og styrkja á erfiðum tímum.

Viðar Halldórsson og Guðrún Bjarnadóttir.

„Vertu viss“ var nokkuð sem vinur minn Friðrik Helgi Jónsson sagði við mig og innprentaði mér fyrir margt löngu. Nú þegar hann hefur kvatt eftir erfið veikindi er ég ekki lengur viss um að ég skilji hina ýmsu hluti sem tengjast lífinu og tilverunni. Allavega er ég ekki viss og skil ekki hvernig almættið velur í liðið hjá sér. Vini mínum er þar eflaust ætlað stórt og mikið hlutverk þó ég vildi heldur hafa hann í okkar liði hér á jörðinni.

Kynni okkar voru í fyrstu tengd íþróttum en þróuðust síðan í ævilanga vináttu þar sem fjölskyldur okkar léku stórt hlutverk. Sem vinur og fræðimaður var ávallt hægt að leita til hans varðandi hina ýmsu hluti og þá gat maður alltaf verið viss um að fá hreinskilið svar. Svarið var ekki endilega það sem maður hafði búist við eða óskað sér en það var ávallt gott veganesti varðandi þær aðgerðir eða ákvarðanir sem taka þurfti.

Friðrik var maður hreinn og beinn, með stórt hjarta sem hafði mikið að gefa. Slíku bera fjölskylda hans, fræðistörf og kennsla fagurt vitni. Þakklæti og söknuður er okkur efst í huga þegar þessi góði drengur er fallinn frá. Guð blessi minningu Friðriks Helga Jónssonar.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem)

Elsku Guðný, Hildur, Steinn og Marta – missir ykkar er mikill. Megi góður guð styrkja ykkur og varðveita.

Ólafur Magnússon og fjölskylda.

Á uppvaxtarárum okkar félaganna á Öldunum voru ekki sömu afþreyingarmöguleikar og nú til dags. Í minningunni spiluðum við strákarnir í hverfinu fótbolta nánast á hverju kvöldi sumarlangt. Má segja að við Friðrik höfum kynnst á öðrum hvorum sparkvellinum við Klaustrið eða Hamarinn. Nú er hins vegar löngu búið að byggja raðhús við Klaustrið og Hamarsvöllurinn hýsir bílastæði nemenda Flensborgarskóla. Þegar ekki var sparkað á hverfisvöllunum æfði Friðrik knattspyrnu með FH og var þar ötull og samviskusamur iðkandi og átti hann síðar eftir að gera garðinn frægan með gullaldarliði Fimleikafélagsins. Þetta lið sem stundum var kennt við Árna Ágústsson átti eftir að brjóta blað í knattspyrnusögu FH, koma félaginu í úrvalsdeild í fyrsta sinn og móta framtíðina að glæstum ferli knattspyrnudeildar FH.

Fyrir þrettán árum tókum við Friðrik upp þráðinn að nýju þegar við fjórir félagar af sparkvellinum við Klaustrið stofnuðum með okkur bridgeklúbb. Við vildum ekki hafa neinn viðvaningsbrag yfir okkar spilamennsku og fjárfestum í sagnboxum og spilabökkum og spiluðum forgefin spil kennd við Tops og Doop. Stíll Friðriks við spilaborðið féll mér ávallt vel í geð. Hann var óhræddur við að melda á spilin sín og tók bæði sigrum og tapi með sama jafnaðargeðinu. Tvisvar til þrisvar á vetri var svo bryddað upp á þeirri tilbreytingu að hefja spilamennsku upp úr hádegi á föstudegi eða laugardegi í stað hefðbundinna fimmtudagsspilafunda og gera sér glaðan dag á eftir í mat og drykk. Friðrik vildi heldur halda slíka dýrðardaga á föstudögum, því eins og hann orðaði það: „Það er svo syndsamlegt að spila á vinnudegi.“ Ég leyfi mér að efa að vinur okkar hafi drýgt stærri syndir en þessar um dagana.

Ég minnist Friðriks á knattspyrnuleikjum í Kaplakrika, hafandi lagt að baki hjólreiðaferð úr vesturbænum, orðinn sjúkur, en ekki bugaður á nokkurn hátt, svitastorkinn með sitt einlæga bros á vör. Friðrik var sönn hetja og verður ávallt hetja í mínum huga.

Guð blessi ykkur, Guðný, Hildur og Steinn og varðveiti á sérhverja lund. Sömuleiðis sendum við Steinunni og öðrum aðstandendum Friðriks okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Guð geymi góðan dreng.

Gunnlaugur Sveinsson

og Elín Ástráðsdóttir.

Við fráfall lærimeistara í vísindum, fræðimanns, afburða kennara og góðs vinar koma ljóðlínur Hannesar Péturssonar upp í hugann.

Eitthvað er það

sem engin hugsun rúmar

en drýpur þér á augu

sem dögg – þegar húmar.

Ég tók fyrst eftir Friðriki Helga Jónssyni, eða öllu heldur Frikka, eins og við félagarnir í fótboltanum vorum vanir að kalla hann, á Hringbrautarvellinum í Hafnarfirði, þá tæplega 10 ára gamall. Þar lék hann með hverfafélaginu Spörtu þegar strákar öttu kappi í knattspyrnu milli hverfa í Hafnarfirði. Ég horfði upp til þessara stráka sem voru aðeins eldri og reyndi að líkja eftir tilburðum þeirra og færni. Seinna fékk ég tækifæri til að vera í liði þeirra, á uppgangstíma FH í knattspyrnu á áttunda áratug síðustu aldar. Friðrik lék annað hlutverk en flestir aðrir í liðinu, hann varði markið og var útsjónarsamur í öllum aðgerðum. Hann reyndist liðinu ákveðin kjölfesta, bæði utan og innan vallar. Þessari kjölfestu hélt hann lífið á enda, sem eiginmaður og foreldri, einstakur fræðimaður og kennari við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, en ekki síst sem traustur félagi og vinur með einstaka nærveru. Við kennslu, rannsóknir og vísindastörf naut hann sín. Sjálfur á ég Friðriki mikið að þakka, ekki aðeins fyrir að hafa varið markið á sínum tíma heldur einnig fyrir aðstoð í framhaldsnámi, yfirlestur lokaverkefna og vísindagreina. Á leiksviðinu í Odda var Friðrik á heimavelli líkt og Sæmundur fróði á Rangárvöllum forðum daga. Hann var einnig á heimavelli á Hvaleyrarholtsvelli og síðar í Kaplakrika en fram á síðasta dag fylgdist hann vel með gangi mála í knattspyrnunni. FH var hans lið. Það er ekki svo langt síðan að hann hjólaði úr vesturbæ Reykjavíkur í Krikann til að fylgjast með deildarleik sinna manna. Hvílík elja og dugnaður.

Það var ávallt styrkur að leita til Friðriks. Hann hafði góða yfirsýn yfir fræðasvið vísinda, var glöggur að setja sig inn í efnið og færa til betri vegar. Hann er höfundur fjölda fræðigreina og rita. Gagnfræðakverið handa háskólanemum er eitt þessara rita. Þar leggur hann ásamt félaga sínum, Sigurði J. Grétarssyni, ákveðinn grunn að akademískri kjölfestu háskólastúdenta. Á skýran en einfaldan hátt er grundvallarsjónarmiðum komið til skila sem styrkja stoðir háskólasamfélagsins. Hlutverk hans var að veita fjöldanum leiðsögn og skapa trausta undirstöðu. Því verður hans sárt saknað.

Friðrik átti einstakan förunaut, Guðnýju Steinsdóttur, sem nú sér á eftir manni sínum langt um aldur fram. Samrýmdari hjón var varla hægt að hugsa sér, enda var alltaf jafn notalegt að sækja þau heim, hvort sem það var á fyrstu búskaparárum á Mánagötunni þar sem allt nýjasta poppið var leikið eftir góða sigra í fótboltanum, í Sheffield þar sem hann lauk doktorsnámi eða á Meistaravöllunum í vesturbæ Reykjavíkur. Við Sigrún sendum Guðnýju, börnum þeirra, Hildi og Steini ásamt unnustu hans og ættingjum okkar dýpstu samúðarkveðjur. Megi minning um einstakan félaga lifa.

Janus Guðlaugsson.

mbl.is/minningar

Þegar ég frétti fráfall góðs vinar þagnaði tónlist heimsins um stund. Síðan hefur hún einhvern veginn misst takt sem hún átti fyrr – það vantar í hana kunnuglegan bjartan tón. Friðrik var traustur vinur vina sinna og vina vina sinna, elskulegur fjölskyldumaður, fæddur kennari, heimspekingur og maður tónlistar. Þegar hann var á skrifstofu sinni var alltaf opið inn til hans.

Ég á Friðriki mikið að þakka og mun ætíð varðveita minninguna um skemmtilegar samverustundir og samtöl um hvernig lífið var áður en tónlistin breyttist. Hans verður sárt saknað. Ég sendi fjölskyldu hans og vinum innilegar samúðarkveðjur. Bless, Maharishi. Takk fyrir að hafa verið til með okkur.

Terry.

E-bekkurinn okkar sem útskrifaðist með kennarapróf vorið 1972 hefur alla tíð verið samheldinn og vandræðalaus. Mikil hlýja hefur einkennt samkomur okkar. Við hittumst a.m.k. á fimm ára fresti, síðast 2007 hjá Ingu Braga. Maðurinn hennar Ingu Pálma tók frábærar myndir af okkur og þar er Frissi bráðlifandi, nú miðaldra, og ljósa bítlahárið ögn farið að láta á sjá. Þetta var sveitabekkur, því margir komu utan af landi. Hafnarfjörður taldist varla til dreifbýlis, þótt nærri lægi, en þaðan komu þeir Friðrik og Steingrímur á hverjum morgni með Hafnarfjarðarstrætó. Fyrsta daginn í skólanum leit Inga Andreassen yfir hópinn og vonaði heilshugar að þessir töffarar úr Firðinum lentu í hennar bekk, þvílík glæsimenni. Og það gerðu þeir og Frissi hóf strax fyrsta daginn að fikta í tökkunum sem stýrðu gardínunum. Eftir það stóðst hann aldrei þá freistingu.

E-bekkurinn hefur nú í fyrsta sinn misst bekkjarfélaga og er að vonum brugðið. Hugur okkar er nú hjá þessum ljóshærða víkingi sem var hlýr, brosandi, léttur í lund, stundum galsafenginn og stríðinn, en ætíð með skopskynið ofar öllu. Frissi var góður bekkjarfélagi, lagði gott til málanna og liðsinnti þeim sem á þurftu að halda. Væntumþykja einkenndi hann. Upp í huga sumra okkar kemur partí sem Friðrik bauð okkur í heima hjá afa sínum og ömmu fyrir árshátíðina í fjórða bekk. Á bak við prakkarann var ábyrgur maður sem afi og amma treystu fyrir fínu íbúðinni sinni, enda fór ekkert úrskeiðis.

Frissi var betur að sér í tónlist en við hin og kenndi okkur að hlusta. Cream þóttu góðir á þessum árum. Tónlistin gerði það að verkum að Friðrik hafði komist yfir flottari enskan framburð en við hin.

Friðrik var vel gefinn og var strax eftir kennarapróf staðráðinn í því að mennta sig enn frekar, eins og margir bekkjarfélaganna reyndar. Hann hóf strax um haustið nám í sálfræði og tilkynnti þeim sem heyra vildu að hann hygðist aldrei fá lægri einkunn en 12, sem var ágætiseinkunn. Ekki vitum við annað en að hann hafi staðið við það, og hefur alla tíð síðan verið fyrirmynd bekkjarfélaganna í dugnaði, rétt eins og í gleðinni. Það gerðist nýlega að doktorsnemi tileinkaði Friðriki og Huldu, bekkjarsystur okkar, ritgerð sína. Hulda kenndi honum í barnaskóla, en Friðrik í háskóla. Þessi tvö voru fyrirmyndir hans í kennsluháttum.

Guðný bættist í hópinn í lok Kennaraskólaáranna og fylgdi sínum manni gegnum þykkt og þunnt alla tíð. Hjónaband þeirra kom okkur ætíð fyrir sjónir sem hið vandaðasta. Það var greinilega góður vinskapur milli þeirra.

Þótt Friðrik væri upptekinn við sína iðju, gaf hann sér ætíð tíma til að setjast niður og ræða málin, og fyrir það erum við þakklát í dag. Þessari yfirvegun hélt hann fram á síðasta dag og lét ekki á öðru bera en að hann væri ánægður og sáttur. Það hvarflaði ekki annað að honum en að varðveita sína einstæðu skapgerð út lífið.

Við hugsum til Frissa með virðingu og þakklæti fyrir samverustundirnar, og biðjum guð að styðja fjölskyldu hans.

Már og Inga fyrir E-bekkinn.

Kveðja frá Háskóla Íslands

Við kveðjum í dag kæran samstarfsmann, prófessor við Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Friðrik Helgi Jónsson var ástríðufullur kennari, vísindamaður og leiðbeinandi og bar hag Háskóla Íslands og nemenda sinna fyrir brjósti allan sinn starfsaldur. Hann var ósérhlífinn, vandvirkur og einlægur í hverju sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var vakinn og sofinn í þekkingarleit og viðleitni til að miðla henni til samstarfsmanna, nemenda og almennings.

Friðrik kom til starfa með okkur hjá Háskóla Íslands árið 1983, fyrst sem stundakennari í félagsvísindadeild en síðan lektor og seinna dósent og prófessor í sálfræði. Friðrik lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og lauk meistaraprófi í félagssálfræði frá London School of Economics og doktorsprófi frá Háskólanum í Sheffield. Doktorsverkefni hans var á sviði þroskasálfræði og fjallaði um skilning barna á verðmætum. Aðalkennslugrein Friðriks við Háskóla Íslands var félagssálfræði. Hann var vinsæll kennari og hafði sérstakt lag á að kynna fræði sín. Hann var frábær leiðbeinandi við lokaritgerðir í grunnnámi, meistaranámi og doktorsnámi. Mannkostir Friðriks og persónuleiki gerðu hann að eftirsóttum ráðgjafa sem margir leituðu til, bæði á faglegum og persónulegum nótum. Hann lagði mikið af mörkum fyrir fræðigrein sína og háskólann allan.

Við kynntumst stjórnunarhæfileikum Friðriks þegar hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar 1999-2009 og í stjórnum stofnana Háskóla Íslands. Hann var varafulltrúi í háskólaráði og tók þátt í margs konar nefndarstörfum fyrir skólann á ýmsum vettvangi. Hann var forstöðumaður Rannsóknastofnunar uppeldismála og formaður skólastjórnar Menntaskólans við Hamrahlíð um skeið. Friðrik var aðalhvatamaður og um árabil stjórnandi árlegrar ráðstefnu um rannsóknir í félagsvísindum, sem nú kallast Þjóðarspegill.

Síðustu ár átti Friðrik í baráttu við illvígan sjúkdóm. Það mun seint gleymast hversu keikur hann stóð í þeirri viðureign, staðráðinn í að standa og sinna sínum störfum meðan stætt var. Ég hitti hann síðast í haust þar sem hann var að koma til vinnu. Ég dáðist mikið að styrk hans, metnaði og umhyggju fyrir starfinu og stúdentunum.

Með ótímabæru fráfalli Friðriks er stórt skarð höggvið í raðir starfsfólks Háskóla Íslands, en vitaskuld er þó mestur missir og harmur Guðnýjar, eiginkonu Friðriks og barna þeirra, Hildar og Steins. Fyrir hönd Háskóla Íslands votta ég þeim innilega samúð á þessari sorgarstundu. Ég þakka Friðriki Helga Jónssyni fyrir farsæl störf í þágu skólans og mikilsvert framlag til kennslu og rannsókna á sviði sálfræði og félagsvísinda. Starfsfólk og stúdentar Háskóla Íslands minnast Friðriks með þakklæti og virðingu.

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands.

Við hittumst fyrst þrítugir, hálf-ó-fastráðnir stundakennarar eða hvað það hét. Þó var eins og við hefðum lengi þekkst. Afi hans hafði forðum unnið með pabba í síldarútflutningi og við áttum því margt sameiginlegt: Utanferð með tunnuskipi, Radionette útvarp. Fortíðarþræðirnir spunnust einhvern veginn þannig að við treystum hvor öðrum strax.

Og okkur var fljótt falið að kenna stóran hluta sálfræðináms í HÍ. Ekki beinlínis að stjórna náminu en það gerðum við óbeðnir. Við opnuðum gluggalausa skrifstofu í Odda og redduðum því sem redda þurfti í anda síldarútvegsmanna. Friðrik var snjall og skjótráður hvort sem viðfangsefnið var kennsla í sístækkandi sálfræðitímum, ráðgjöf, stjórnsýsla eða brýning í körfubolta. Hann hafði alltaf nef fyrir aðalatriðum og fljótur að leggja til lausnir. Þá sjaldan að ráð hans nutu ekki hylli mælti hann áfram fyrir þeim af kappi, jafnvel eftir að allt var um garð gengið. Stjórnsamur hefði hann kallast ef ekki hefði verið stöðug eftirspurn eftir ráðum hans. Áhrif hans mótuðu kynslóðir sálfræðinga og félagsvísindamanna.

Hann kom því í verk sem gera þurfti, samkvæmt eða meðfram skipuritum. Að löngu krossaprófi sömdu og frágengnu, var undirrituðum kannski efst í hug að halda heim á leið og hamingjunnar njóta eins og Friðrik orðaði það. En þá var eftir að þýða bálkinn á ensku fyrir þá tvo sem þess óskuðu. Ef ég ekki tók fullan þátt í því verki lauk hann því einn án þess að minnast á það.

Vinnugleði við þau störf sem hann tók að sér og stolt yfir því trausti sem honum var sýnt dvínaði aldrei. Hann var ekki á leiðinni neitt annað, hvorki út né upp. Honum fannst gaman. Kenndi mér að læra nöfn sem flestra nemenda. Við vorum ánægðir, stundum dálítið roggnir, með árangurinn, samanber orð hans á leið í léttar veitingar nokkru eftir að hann veiktist: Ef þeir verða ekki farnir að heiðra mig eftir tuttugu mínútur held ég ræðu sjálfur. Á heimleið í lok dags skýrði hann gjarnan sitt góða skap með því sem vel hafði tekist um daginn: Vel kennt og stjórnað, sigur á þeim stóru í körfunni, snjöll lína í kaffistofuþrefinu. Draumar hans rættust daglega.

Viðskipti hans við þann ömurlega handrukkara, krabbann, voru samkvæmt þessari lífssýn. Þegar ég lét í ljós áhyggjur af veikindum hans tilkynnti hann að núna skyldi hann hafa áhyggjurnar. Mínar mundu engu skila. Vinsamlegast lifa áfram og miða við að hann mundi ná 85 ára aldri eins og spákonan spáði. Nema hún hafi verið lesblind og meint 58. Þegar fyrra lyfið hætti að hrína á krabbanum og hið síðara hleypti upp feiknstöfum í andliti hans tilkynnti hann frá útlöndum. Hér glápa allir á okkur Guðnýju og hugsa: Hann hlýtur að vera ríkur þessi, svona ljótur með svona fallegri konu.

Góður fjölskyldufaðir, einstakur vinnufélagi og frábær vinur er allur. Ég kveð hann með orðum sem hann viðhafði svo oft þegar ég kvaddi eftir að hafa sótt til hans ráð og skemmtun, síðast nokkrum dögum áður en hann lést: Þakka þér fyrir að tala við mig.

Sigurður J. Grétarsson.

Kær vinur, samstarfsmaður og kennari, Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands, lést 12. desember síðastliðinn. Friðrik lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1976, meistaraprófi frá London School of Economics ári síðar og doktorsprófi frá Háskólanum í Sheffield 1986. Friðrik átti langan og farsælan feril sem kennari og fræðimaður við sálfræðideild. Hann hóf störf sem stundakennari í félagssálfræði árið 1983, var ráðinn lektor árið 1989 og síðan prófessor 2007.

Friðrik bar hag sálfræðinnar ávallt fyrir brjósti og átti, að öðrum ólöstuðum, einna mestan þátt í uppbyggingu greinarinnar á síðustu 20 árum. Verklegri kennslu í rannsóknum og hagnýtingu sálfræðinnar á flestum sviðum mannlífs var gert hærra undir höfði en áður. Þessar áherslur hafa eflaust haft mikil áhrif á framgang sálfræðinnar og gert hana að einni vinsælustu grein skólans. Hann hafði einnig frumkvæði að stofnun sérstakrar námsbrautar á meistarastigi í félags- og vinnusálfræði. Friðrik var frábær kennari sem hafði einstakt lag á að setja námsefnið fram með lifandi og stundum ögrandi hætti og fékk þannig nemendur til að taka virkan þátt í umræðum um námsefnið. Hann var afar eftirsóttur leiðbeinandi við lokaritgerðir og hafði umsjón með vel á annað hundrað ritgerða á BA- og meistarastigi.

Friðrik var traustur samstarfsmaður, hollráður og greiðvikinn og enginn kom að tómum kofunum þegar til hans var leitað. Bæði samstarfsmenn og ekki síst nemendur voru ávallt velkomnir á skrifstofu hans og fengu þar greiða úrlausn sinna mála. Friðrik var eftirsóttur stjórnandi innan Háskólans, sat í stjórnum stofnana skólans og tók þátt í margvíslegum nefndarstörfum. Hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar um margra ára skeið og kom með beinum eða óbeinum hætti að fjölbreyttu rannsóknarstarfi innan félagsvísinda. Efling rannsóknastarfs innan Háskólans var Friðriki einnig hugleikin og var hann aðalhvatamaður að árlegri ráðstefnu um rannsóknir í félagsvísindum sem nú nefnist Þjóðarspegill. Sá hann um skipulagningu Þjóðarspegils frá upphafi fram til ársins 2008.

Friðrik var vinsæll meðal samstarfsfólks, enda glettinn og skemmtilegur maður sem hafði gaman af því að tefla fram óhefðbundnum hugmyndum og sjónarmiðum þegar honum þótti menn taka sig fullalvarlega í samræðum um málefni líðandi stundar. Var þetta oft þörf áminning til okkar hinna um að öll mál eiga sínar spaugilegu hliðar en Friðrik hafði jafnan glöggt auga fyrir þeim. Nú er horfinn á braut einn af okkar fremstu kennurum og fræðimönnum í sálfræði og verður hans sárt saknað úr kennaraliði sálfræðideildar. Við sendum Guðnýju eiginkonu hans og börnum þeirra innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. sálfræðideildar Háskóla Íslands,

Daníel Þór Ólason, deildarforseti.

Mig langar með örfáum orðum að minnast Friðriks H. Jónssonar sem jarðsettur verður í dag. Ég hef þekkt Friðrik í meira en 15 ár og unnið með honum að ýmsum verkefnum. Meðal annars hefur hann á undanförnum árum verið í doktorsnefnd í Viðskiptafræðideild og hefur hann veitt doktorsnemanum mikilvæg ráð. Alltaf var gott að leita til Friðriks og verður hans sárt saknað.

Á árinu 1994 beitti Friðrik H. Jónsson sér fyrir að haldin yrði ráðstefna um rannsóknir í félagsvísindum. Að ráðstefnunni stóðu Félagsvísindadeild og Viðskipta- og hagfræðideild. Þátttaka frá Félagsvísindadeild var mikil en aðeins voru flutt þrjú erindi um viðskiptafræði. Á árinu 1997 var ákveðið að halda aftur ráðstefnu, Rannsóknir í félagsvísindum II og var það aftur að frumkvæði Friðriks. Í þetta skipti var þátttaka frá Félagsvísindadeild aftur mikil en aðeins eitt erindi var flutt um viðskiptafræði. Í hófi eftir ráðstefnuna sagði ég við Friðrik að næst vildi ég fá að vinna með honum að undirbúningi ráðstefnunnar með það að markmiði að auka þátttöku á sviði viðskiptafræði. Ráðstefna um rannsóknir í félagsvísindum var næst haldin á árinu 1999 og aðstoðaði ég Friðrik við undirbúning hennar og voru þá flutt sjö erindi um viðskiptafræði. Samstarfið við Friðrik var sérstaklega ánægjulegt og tókst ráðstefnan vel.

Ráðstefnan Rannsóknir í félagsvísindum IV var haldin á árinu 2003 og vann ég með Friðriki að undirbúningi. Í þetta skipti var ekki lengur unnt að gefa öll erindin út í einni bók eins og gert var í fyrstu þrjú skiptin. Í bók Viðskipta- og hagfræðideildar voru nú 50 greinar og var þátttakan loksins orðin viðunandi. Frá og með árinu 2003 hefur ráðstefna í félagsvísindum verið haldin á hverju ári, sú ellefta var haldin í október 2010. Í tíu ár allt til ársins 2008 aðstoðaði ég Friðrik við undirbúning ráðstefnunnar sem á síðustu árum hefur hlotið nafnið Þjóðarspegillinn. Samstarfið var ætíð gott og metnaður Friðriks fyrir hönd ráðstefnunnar mikill. Frumkvæði Friðriks 1994 og gríðarlegur áhugi á að gera ráðstefnu í félagsvísindum sem besta hafa haft mjög mikil áhrif á rannsóknir í viðskiptafræði. Ráðstefnan hefur verið mikilvægur vettvangur fyrir unga rannsakendur sem gjarna eru að stíga sín fyrstu skref á sviði rannsókna. Án framlags Friðriks og dugnaðar væru rannsóknir á sviði viðskiptafræði minni í dag en þær eru.

Ég vil fyrir hönd Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands votta eiginkonu og börnum Friðriks samúð okkar í deildinni. Ég þakka fyrir að hafa fengið að vinna með Friðriki í tíu ár að góðu málefni sem hefur haft mjög jákvæð áhrif á Viðskiptafræðideild og stöðu viðskiptafræði í landinu.

Ingjaldur Hannibalsson, forseti Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.

Fallinn er frá langt fyrir aldur fram Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði. Hans er minnst með djúpum söknuði og innilegu þakklæti af íslensku háskólasamfélagi, innan sem utan fræðigreinar hans og stofnunar.

Friðriki fylgdi áræði, kraftur og einlægni sem hvatti marga til dáða. Hann fékk fólk til að setja markið hátt og uppskera það sjálfstraust sem sprettur af því að glíma við ögrandi viðfangsefni og ná árangri. Nemendur hrifust með honum á vit vísindanna, enda var hann rómaður fyrir þá natni og alúð sem hann lagði í kennslu sína. Hann skrifaði ásamt kollega sínum Sigurði J. Grétarssyni kennsluefni fyrir byrjendur í háskólanámi, Gagnfræðakverið, sem fór eins og eldur í sinu um fjölmenn vinnulagsnámskeið háskólanna og er löngu orðið sígilt. Þannig lagði Friðrik grunn að farsælu háskólanámi hjá breiðum hópi. Hann var ekki síður ötull í stuðningi sínum við lengra komna nemendur sem höfðu hug á frekara námi að lokinni fyrstu háskólagráðu í sálfræði. Með því að hvetja þá nemendur til dáða og aðstoða með ýmsum hætti átti hann drjúgan þátt í að koma á legg næstu kynslóð framhaldsmenntaðra sálfræðinga sem nú lætur til sín taka í rannsóknum og kennslu, sem og öðrum sviðum atvinnulífsins.

Friðrik var frumkvöðull í starfi og átti hann, ásamt Sigurði kollega sínum, stóran þátt í að endurskipuleggja nám í sálfræði við Háskóla Íslands á níunda áratugnum þegar þeir voru tiltölulega nýkomnir til starfa þar. Hann var virkur rannsakandi og beitti sér fyrir hagnýtingu fræðanna í þágu samfélagsins sem forstöðumaður Félagsvísindastofnunar. Þá var hann upphafsmaður hins árlega Þjóðarspegils og skapaði þar dýrmætan vettvang fyrir félagsvísindafólk að koma rannsóknum sínum á framfæri við háskólasamfélagið og almenning allan.

Háskólinn á Akureyri á Friðriki margt að þakka. Þegar ákveðið var að bjóða upp á nám í sálfræði við HA frá haustinu 2003 lágu satt að segja almennar efasemdir í loftinu og því var stuðningur lykilmanna við HÍ mjög mikilvægur. Frá upphafi voru þeir Friðrik og Sigurður tilbúnir að ræða við kollega sína norðan heiða og miðla af reynslu sinni og þekkingu til að sem best mætti takast til við mótun nýrrar námsbrautar. Friðrik studdi sálfræðinámið við HA einnig með ýmsum öðrum hætti. Hann gerði sér sérstakt far um að kynna Þjóðarspegilinn fyrir háskólafólki á Akureyri og hvetja til þátttöku. Hann sýndi fyrrverandi nemendum sínum sem nú starfa við sálfræðibraut HA áhuga og stuðning. Hann hljóp undir bagga þegar vantaði kennara í félagssálfræði og kenndi þá sjálfur HA-nemendum samhliða nemendum við HÍ. Með jákvæðum og fumlausum samskiptum gaf Friðrik ótvírætt til kynna að hann bar hag sálfræðinámsins við HA fyrir brjósti í anda samvinnu.

Fyrir hönd hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri þakka ég ómetanlegan stuðning og votta fjölskyldu Friðriks hugheila samúð.

Sigurður Kristinsson, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.

Við andlát Friðriks H. Jónssonar leitar hugur minn nær þrjá áratugi aftur á sameiginlegan starfsvettvang okkar í félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Í einni kennslugrein deildarinnar höfðu komið upp samstarfserfiðleikar sem reynslulitlum deildarforseta gekk illa að leysa enda málið vandasamt, en þar tókust á kennarar með ákveðnar og andstæðar skoðanir á eðli og viðfangsefnum viðkomandi fræðigreinar.

Á þessum árum komu tveir ungir og vel menntaðir menn til starfa sem kennarar í sálfræði við Háskóla Íslands. Annar þeirra var Friðrik H. Jónsson sem nú hefur fallið frá langt um aldur fram. Að því er virtist áreynslulaust gufuðu samstarfsvandræðin upp og kennarar í sálfræði gengu samstiga til þess verks að byggja upp öfluga kennslu og rannsóknir í sálfræði við Háskóla Íslands.

Starfsviðhorf Friðriks var mjög mótað af veru hans í Kennaraskólanum og virðingu hans fyrir þeirri frumskyldu góðs kennara að koma til móts við þarfir nemenda. Þannig sömdu þeir Friðrik og Sigurður J. Grétarsson, samkennari hans í sálfræði, sérstaka kennslubók um vinnubrögð og ritun fræðiverka.

Þessi bók, Gagnfræðakver handa háskólanemum, kom fyrst út 1990 og hefur verið útgefin níu sinnum, síðast árið 2007. Gagnfræðakverið var mikil lyftistöng fyrir alla kennslu í félagsvísindadeild enda engin sambærileg bók þá til. Öll var samvinna og vinátta Friðriks og Sigurðar J. Grétarssonar til mikillar fyrirmyndar og sveipaði vinnustaðinn allan hlýju og yl.

Friðrik var algjörlega laus við alla sýndarmennsku í sínum störfum og reyndist jafnvígur á alla þætti í starfi sínu sem háskólamaður. Hann var góður kennari, ötull rannsóknarmaður og ákveðinn en lipur stjórnandi. Í daglegri umgengni var hann glaðvær og skemmtilegur. Skoðanalaus var Friðrik ekki og hélt eindregið með sínu fólki hvort sem var FH í íþróttum eða Sjálfstæðisflokknum í stjórnmálum. En heiðarleg átti keppnin að vera.

Við áttum samræður um veikindi hans og þó að horfur væru ekki góðar var Friðrik staðráðinn í að takast á við þau af bjartsýni og æðruleysi. Annað kæmi ekki til greina. Mikil gleði var að hitta hann glaðbeittan við upphaf kennslu í haust. Það var eins og birti yfir skólanum.

En nú hefur Friðrik H. Jónsson kvatt þessa jarðvist. Samúð mín er með fjölskyldu hans, samstarfsfólki, nemendum og vinum. Ég harma fráfall hans um leið og ég minnist með þakklæti góðs félaga og samstarfsmanns.

Svanur Kristjánsson.

Það er stundum sagt á vinnustöðum að enginn sé ómissandi, að maður komi í manns stað, en ég hætti að trúa því þegar Friðrik veiktist. Það var einhvern veginn eins og hlutir færu allir úr skorðum og fólk vissi vart í hvorn fótinn það ætti að stíga. Það er enda engin tilviljun að í meira en fimmtán ár hef ég alltaf leitað fyrst til Friðriks um ráð varðandi störf mín og nám. Hann var lærifaðir minn, jafnvel löngu eftir að hann hætti að vera kennarinn minn eða yfirmaður. Ekki svo að skilja að við höfum alltaf verið sammála og ég skellti víst stöku hurð. Alltaf kom ég þó aftur og allt var fyrirgefið. Friðrik kom sér inn í mín mál af hjartans einlægni og hafði alltaf lausnir á reiðum höndum. Hann samgladdist mér með tár í augum þegar ég fékk góðar fréttir og var fljótur til að hringja í mig ef fréttirnar voru af verri endanum, jafnvel af sjúkrabeði sínum. Þetta þykir mér óendanlega vænt um, slík samkennd er fátíð í fari manna. Ég veit að margir af hans fyrrverandi nemendum geta sagt svipaða sögu. Skyldurækni Friðriks var slík að hann fylgdist áfram grannt með því að nemendum hans liði og gengi vel, löngu eftir útskrift úr HÍ. Það er því ekki að ástæðulausu að Friðrik var eftirsóttur sem kennari. Mikið verður það undarlegt að halda áfram störfum án þess að geta leitað til hans eða dottið inn á skrifstofu hjá honum í létt spjall eða krassandi sögu.

Hann hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og var ófeiminn við að segja meiningu sína ef svo bar við. Þó birti alltaf yfir Friðriki þegar hann talaði um fjölskyldu sína, þá lagði hann saman fingurgóma beggja handa, hallaði sér aftur í stólnum, setti hökuna niður á bringu, hallaði örlítið undir flatt og brosti. Þá mynd af Friðriki ætla ég að geyma í kollinum. Það leyndist engum að virðing hans og umhyggja fyrir Frú Guðnýju (eins og hann kallaði hana ávallt) og börnunum kom frá hjartanu. Þó að aðdragandinn hafi verið langur er samt óraunverulegt og erfitt að upplifa núna þessa kveðjustund. Guðný, Hildur og Steinn, þið eigið alla mína samúð.

Ragna Benedikta.

Margar góðar minningar streyma fram þegar Friðrik hefur kvatt. Sérstök svipmynd frá níunda áratugnum yljar enn. Hún er tengd hjálpsemi, elskulegri ábyrgð gagnvart félögum, lítillæti hans og samstöðu. Friðrik var nýkominn til starfa, líklega bara stundakennari þá eins og ég, en reiðubúinn að ræða, hjálpa og skoða með mér aðferðafræðilegar þrautir í doktorsritgerðinni. Eftir það alltaf áhugasamur, vissi hvað var á prjónunum, lét sig varða og lagði gott til mála, oft með kankvísa brosinu. Eftir að komið var á lektorsstarfi í félagsráðgjöf var hann með mér í ráðum um margt, m.a. það sem viðkom uppbyggingu námsbrautarinnar og inntökumálum. Þeir voru tveir ungir kennarar og félagar í sálfræðinni á þessum árum, Friðrik og Sigurður Júlíus Grétarsson, oft kallaðir „strákarnir“ svona til aðgreiningar frá prófessorunum og seniorunum, Sigurjóni Björnssyni og Erlendi Haraldssyni, en allir stóðu þeir fyrir ólíkum en frjóum áherslum í greininni. Rannsóknarsviðið velferð barna tengdi félagsráðgjöf og sálfræði. Ekki leið á löngu þar til „strákarnir ungu“ og við Nanna K. Sigurðardóttir, tvær „vettvangsreyndar kellur“ í félagsráðgjöfinni, tókumst sameiginlega á hendur fyrsta stóra rannsóknarverkefnið um uppeldisaðstæður barna í ólíkum fjölskyldugerðum í íslensku samfélagi, verkefni sem tengdist ári fjölskyldunnar 1994. Ekki er hallað á neinn þótt ég staðhæfi að þar átti Friðrik mikinn þátt í hversu vel tókst til, ekki síst aðferðafræðilega.

Rita mætti fjöruga smásögu um teymisfundi okkar í þessu heillandi verkefni, um húmorinn, metnaðinn og hvernig ólík reynsla okkar og hæfni lék skemmtilega saman – auðvitað ekki alltaf í lyndi. Nær aldarfjórðungs samstarf og margvísleg tengsl okkar Friðriks þar sem velvild hans og áreiðanleiki vega líklega þyngst, verða seint fullþökkuð. Þorsteinn bóndi minn hefur sömu sögu að segja af andlegu fjöri Friðriks í samvinnu þeirra um málefni Háskólans.

Í strangri veikindabaráttu stóð Friðrik keikur allt fram undir það síðasta. Þannig var hans lífsfílósófía. Að sýna styrk og æðruleysi, þ.e. „flækja ekki málin“, „segja það á íslensku“ einsog við orðuðum það stundum, ganga ótrauður til verka og sigla áfram þrátt fyrir að syrti í álinn. Þótt líkaminn hafi smám saman látið undan og orðið að játa sig sigraðan að lokum, var andinn óbilandi til enda. Þannig viljum við muna þennan góða dreng. Missirinn er mikill; við í félagsráðgjafardeild söknum góðs vinar og samstarfsfélaga og okkur tekur sárt að enn er höggvið skarð í liðsheild sálfræðideildar. Háskóli Íslands hefur misst traustan aflgjafa og fræðimann. Við Þorsteinn og félagsráðgjafardeild sendum Guðnýju og börnunum þeirra, þeim Hildi og Steini, okkar einlægustu samúðarkveðjur.

Sigrún Júlíusdóttir.

Þegar sumir menn deyja þá fækkar í veröldinni. Þannig víkur því við um lát Friðriks H. Jónssonar, prófessors. Hann var góður maður og vandaður sem okkur öllum sem honum kynntumst er mikil eftirsjá að. Mannkostir hans, andlegt þrek og bjartsýni komu skýrt fram í glímu hans við ólæknandi sjúkdóm sem sigraði hann að lokum. Viðkvæði hans var jafnan að hann væri á batavegi. Friðrik bar með sér æðruleysi og kjark og átti óbilandi og ástríkan stuðning Guðnýjar eiginkonu sinnar og barna. Vandfundinn var betri fjölskyldumaður.

Við Friðrik kynntumst haustið 1983 er hann hóf störf sem lektor í sálfræði við Háskóla Íslands. Upp frá því höfum við átt vináttu hvor annars og leiðir okkar tíðum skarast við ýmis viðfangsefni innan háskólans – og stundum utan. Í gegnum tíðina höfum við átt ótal samtöl um þessi viðfangsefni og önnur – og ekki síður um lífsins gang. Hann var í senn ráðagóður og réttsýnn. Friðrik vann að öllum verkum af vandvirkni, áhuga og elju og var sannur skólamaður og kennari sem bar hag nemendanna mjög fyrir brjósti. Á fræðasviði sínu bar Friðrik með sér ferska vinda inn í sálfræðikennsluna og bryddaði þar upp á margvíslegum nýjungum.

Þar unnu þeir náið saman Friðrik og Sigurður Júlíus Grétarsson, prófessor, og komu iðulega fram sem einn maður. Missir Sigurðar er því mikill. Saman gáfu þeir út handbókina „Gagnfræðakver handa háskólanemum“ í kringum árið 1990 sem síðan hefur oft verið endurútgefin. Það var jafnan bjart yfir Friðriki og viss ákafi í fari hans. Hann gat sótt sín mál fast ef því var að skipta og varist vel að sama skapi, enda keppnismaður og gamall markvörður í meistaraflokki FH í knattspyrnu.

Þegar horft er til baka koma upp í hugann ótal atvik sem öllum er sammerkt mikil hlýja Friðriks, ferskleiki og gleði. Mér er einkar minnisstæður sólríkur vordagur sem við deildum saman í Edinborg fyrir mörgum árum. Friðrik dvaldi þá við Edinborgarháskóla í rannsóknamisseri sínu, en ég hafði sótti þar fund á vegum Háskóla Íslands.

Við mæltum okkur mót daginn eftir fundinn og fylgdi Friðrik mér í ýmsum erindagjörðum sem ég þurfti að sinna. Við gengum um bæinn þveran og endilangan og heimsóttum m.a. listamanninn Sax Shaw, sem hafði verið kennari Sigríðar konu minnar í Listaháskólanum í Edinborg mörgum árum fyrr. Sax brá hvergi við óvænta komu okkar þar sem hann sat á stuttbuxum einum fata á veröndinni fyrir framan hús sitt og sötraði gin og tónik. Var líkt og við hefðum rétt skroppið út í búð eftir blandi.

Þeir Friðrik voru strax eins og gamlir vinir sem þekkst hefðu í áratugi og þurftu margt að spjalla. Þótti Sax mikið til þess koma að ég hefði slíkan afbragðsmann og sálfræðing með í för. Tíminn leið hægt þennan dag og sólin skein í heiði. Nú er sólin Friðriks sest í þeirri veröld sem við skynjum. Það er býsna sárt og erfitt að sjá á eftir honum. Okkur Systu hefur alltaf þótt svo vænt um hann. Við vottum Guðnýju eiginkonu Friðriks, börnum þeirra og fjölskyldu allri okkar dýpstu samúð.

Þórður Kristinsson.

Það er skammt stórra högga á milli. Háskóli Íslands sér nú í annað skipti á fáeinum mánuðum á bak einstökum starfsmanni í sálfræðideild skólans.

Við Friðrik Helgi áttum samleið í Háskóla Íslands í hartnær 30 ár. Báðir komum við úr framhaldsnámi í Bretlandi og tókum fyrst að okkur stundakennslu en urðum síðar fastráðnir við félagsvísindadeild HÍ. Samstarf okkar var mikið og fjölþætt, bæði í leik og starfi, allt frá kennslu og stjórnunarstörfum til körfubolta starfsmanna í hádeginu.

Það er ekki hægt að hugsa sér betri samverkamann en Friðrik. Hann var agaður, ósérhlífinn, kappsamur og áhugasamur um allt sem hann tók sér fyrir hendur. Hann vék sér aldrei undan verkum sem þurfti að vinna; þvert á móti þurfti að gæta þess að ekki lenti of mikið á honum. Friðrik gerði miklar kröfur til sjálfs sín og vildi einnig gera það til annarra. Hann vildi gjarnan hafa yfirbragð hins sterka manns sem gæfi lítið eftir. Þetta sást best í veikindum hans, hvergi sýndi hann á sér bilbug; hann skyldi standast allar árásir hins illskeytta óvinar sem þó hafði betur að lokum. En annars var Friðrik næmur og mildur þegar á reyndi; kannski var þó körfuboltinn undantekning, þar var tekist á.

Við sem fylgdumst náið með honum leysa úr vandamálum sem upp komu innan hans starfssviðs, hvort sem í hlut áttu nemendur eða samstarfsfólk, sáum einlæga viðleitni hans til þess að gera sem best úr öllu; taka tillit til aðstæðna og meta málsatvik viðkomandi í hag. Hann var líka afar orðgóður um alla, alveg óháð því hvort þeir deildu skoðunum hans. En Friðrik var líka hreinn og beinn og sagði skoðun sína með þeim umbúðum sem við áttum hverju sinni. Það var alltaf gott að leita ráða hjá Friðriki enda setti hann iðulega fram sjónarmið sem öðrum komu ekki til hugar. Hann átti gott með að sjá fleiri en eina hlið á hverju máli sem reyndist oft afar gagnlegt. Við sem þekktum hann vel vitum að með honum fer öflugur háskólamaður, óvenju notalegur og styðjandi samstarfsmaður, farsæll og útsjónarsamur stjórnandi en framar þessu öllu, afar góður vinur.

Við Dísa vottum Guðnýju, Hildi, Steini og allri fjölskyldu Friðriks Helga innilega samúð.

Jón Torfi Jónasson.

Fyrir tuttugu árum sátum við í fyrsta tímanum í sálfræði og uppi við púltið stóðu tveir ungir menn. Þessi skemmtilegi dúett mótaði líf okkar næstu árin og hefur átt fastan sess í tilveru okkar. Annar þeirra var Friðrik. Hann hafði brennandi áhuga á námsefninu og smitaði rækilega út frá sér. Friðrik var alltaf glaður og tók okkur ávallt vel. Hann hafði alltaf tíma til að spjalla, átti ráð undir rifi hverju og lét sig framtíð okkar varða.

Friðrik hvatti okkur áfram jafnt í námi sem starfi, fylgdist grannt með gömlum nemendum sínum og vissi alltaf hvað allir voru að fást við, jafnvel mörgum árum eftir útskrift. Friðrik var lifandi fyrirlesari og sérlega flinkur við að koma af stað fjörugum umræðum í tímum. Hann var stríðinn og gantaðist oft við okkur. Aldrei gekk hann fram hjá nemendahópnum í Odda án þess að kasta til okkar hugmynd, sniðugri athugasemd eða áskorun sem varð uppspretta að rökræðum næsta klukkutímann. Þetta viðmót skapaði Friðriki miklar vinsældir sem lýsir sér best í því þegar við fögnuðum fertugsafmæli hans. Hópur sálfræðinema stóð þá snemma morguns og söng fyrir utan heimili hans með blys og stjörnuljós í hendi. Friðrik birtist úti í glugga og veifaði okkur brosandi. Þannig munum ávallt minnast hans.

Við vottum fjölskyldu Friðriks okkar dýpstu samúð.

Berglind Brynjólfsdóttir, Guðlaug Ólafsdóttir, Gunnhildur L. Marteinsdóttir, Linda Bára Lýðsdóttir, Urður Njarðvík.

Er Guð til? Hver er tilgangur lífsins? Hvað felst í orðinu tilgangur? Og hvað felst í hugtakinu Guð? Ef hann er til hvað er hann að pæla? Skiptir það máli?

Þetta gætu verið upphafsorð í tíma hjá okkar ástkæra kennara Friðriki H. Jónssyni sem við kveðjum með söknuði í dag. Friðrik er einn besti og eftirminnilegasti kennari sem við höfum haft. Tímarnir voru alltaf skemmtilegir og byrjuðu einmitt oft á smásprengju sem síðan var pælt í fram og til baka. Og allir voru virkir í tímanum. Við vorum svo heppnar að vera í fámennum hópi sálfræðinema þannig að kennarar kynntust okkur vel og við þeim. Friðrik og félagi hans Sigurður J. Grétarsson voru nýkomnir til starfa við sálfræðideild HÍ og komu sem ferskur andblær í námið. Alvöru tilraunir voru stundaðar grimmt og þeir fengnir með í ýmis uppátæki, innan sem utan veggja skólans.

Það er ekki efi í okkar huga að þeir félagar áttu stærstan þátt í að efla sálfræðinámið við Háskóla Íslands og gera það að því góða og vinsæla námi sem það er í dag. Friðrik var fræðimaður í gegn og gaf aldrei afslátt á gagnrýnni hugsun. Við lærðum gríðarlega mikið á að gera verkefni, skrifa BA-verkefni og greinar hjá honum. Um leið kom hann fram við okkur eins og jafningja sem hann gat leiðbeint þótt kaldhæðnislegur húmor hans væri jafnan með í för. Þetta erum við óendanlega þakklátar fyrir. Eftir að námi lauk var alltaf gaman að hitta Friðrik og hann hafði áhuga á að fylgjast með því sem við vorum að gera.

Þegar við lítum til baka voru þessi ár mjög skemmtileg en um leið lærdómsrík. Það er engin spurning að Friðrik hefur haft mikil áhrif á líf okkar og viðhorf. Það er mikill sjónarsviptir að Friðriki og brotthvarf hans héðan úr okkar heimi ótímabært. Ef Guð er til – hvað var hann að pæla? Friðrik átti nóg eftir og hugmyndir og hugsjónir fóru aldrei úr huga hans. Hann var að hugsa um kennsluna og menntakerfið, hvernig þau mætti bæta, fram að síðustu stund. Baráttuandinn var gífurlegur þótt hann hafi þurft að láta í minni pokann að lokum.

Við kveðjum kæran læriföður og vin með söknuði um leið og við sendum eiginkonu hans og börnum, sem hann talaði alltaf svo fallega um, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minning um góðan mann lifir.

Svefninn laðar, líður hjá mér

lífið sem ég lifað hef

fólk og furðuverur

hugann baðar, andann hvílir

lokbrám mínum læsi, uns

vakna endurnærður.

Það er sumt, sem maður saknar

vökumegin við

leggst útaf, á mér slokknar

svíf um önnur svið,

í svefnrofunum finn ég

sofa lengur vil,

því ég veit að ef ég vakna

finn ég aftur til.

Svefninn langi laðar til sín

lokakafla æviskeiðs

hinsta andardráttinn

andinn yfirgefur húsið

hefur sig til himna.

Við hliðið bíður drottinn.

(Björn Jörundur Friðbjörnsson/Daníel Ágúst Haraldsson)

Berglind (Bessý), Bylgja, Fanney, Guðríður, Guðrún Lilja, Helga Arnfríður, Hildur, Hrund, Ingibjörg, Klara og Laufey.

Kveðja frá Knattspyrnudeild FH

Saga knattspyrnunnar í FH er ekki löng. Upp úr 1970 áttu nokkrir drengir í FH sér þann draum að skapa knattspyrnuhefð í Hafnarfirði. Sú leið var grýtt en með seiglu og baráttu tókst að skapa starf og umgjörð sem FH-ingar hafa notið svo ríkulega á undanförnum árum. Einn þeirra drengja sem dreymdi um knattspyrnuleikvang og alvöru lið var Friðrik Helgi Jónsson. FH-ingar kveðja hann með miklum trega. Friðrik lék með FH í um áratug á þeim árum þegar lagður var grunnur að þeim árangri í FH sem síðar varð. Hann var óþreytandi í baráttunni, hafsjór af fróðleik um fótbolta, menntun hans og yfirsýn varð okkur gott veganesti þegar á móti blés.

Knattspyrnudeild FH hefur notið krafta margra sterkra einstaklinga á liðnum árum. Það þarf marga til að byggja upp slíkt starf nánast úr engu. Friðrik Jónsson var mikilvægur hlekkur í þeirri keðju. Við FH-ingar minnumst góðs félaga og leikmanns og munum sakna þeirra stunda þegar rifjuð voru upp atvik frá liðinni tíð. Friðrik var hrókur alls fagnaðar á slíkum stundum. Minningin um góðan dreng lifir í Krikanum. Við sendum fjölskyldu Friðriks innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. Knattspyrnudeildar FH,

Jón Rúnar Halldórsson

formaður.

Þegar einstaklingur á besta aldri fellur frá sækja gamlar minningar sterkt að og það er í raun engu líkara en tíminn stöðvist. Við sem ritum þessar fátæklegu línur kynntumst Friðriki Jónssyni, Frikka, fyrir meira en aldarfjórðungi þegar hann tók að sér starf aðstoðarþjálfara meistaraflokks Fylkis í knattspyrnu. Þjálfari liðsins, Ólafur S. Magnússon, var spilandi þjálfari þannig að Frikki tók að sér veigamikið hlutverk sem hann skilaði af sér með miklum drengskap og sóma. Frikki sem hafði lengi búið í Englandi hafði mikið fram að færa inn í okkar hóp ekki eingöngu á því sviði sem sneri beint að æfingum og keppni heldur líka ýmsu sem vék að lífinu sjálfu og því hvert við, sem einstaklingar og sem hópur, ætluðum að stefna.

Á þessum tíma vorum við víst flestir um tvítugt en sé litið um öxl sýnist okkur að hegðun og framkoma hafi ef til vill verið meira í líkingu við hóp drengja á fermingaraldri. Í dag getum við einnig gengist við því að sumt af því sem hópurinn tók sér fyrir hendur samræmdist tæpast því sem vænta má af afreksmönnum í íþróttum. Hópurinn tók hins vegar leiðbeiningum vel, efldist og styrktist og þar átti Frikki klárlega hlut að máli með sínum uppbyggilegu leiðbeiningum, festu og kappsemi. Fyrir það þökkum við.

Við sendum fjölskyldu og ástvinum Frikka okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Anton Karl Jakobsson, Brynjar Jóhannesson, Gústaf Vífilsson, Haraldur Úlfarsson, Jón Bjarni Guðmundsson, Orri Hlöðversson, Valur Ragnarsson.

Okkur starfsfólk Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands langar í nokkrum orðum að minnast Friðriks Helga Jónssonar, prófessors í sálfræði við HÍ og fyrrverandi forstöðumanns Félagsvísindastofnunar. Friðrik var forstöðumaður stofnunarinnar um 10 ára skeið, frá árinu 1999-2009. Nokkur okkar höfum þekkt Friðrik enn lengur sem nemendur hans í sálfræði þar sem hann kenndi mörg mikilvæg námskeið og leiðbeindi í stærri verkefnum námsins. Fyrir okkur hefur Friðrik því verið órjúfanlegur hluti tilveru okkar við HÍ og mikilvæg fyrirmynd. Friðrik var góður yfirmaður og hafði mikinn metnað fyrir hönd okkar og stofnunarinnar. Hann treysti okkur fyrir stórum og flóknum verkefnum og hvatti þannig til sjálfstæðis og ábyrgðar í starfi. Það var alltaf gott að leita til hans og þegar þurfti var hann úrræðagóður og fljótur að taka ákvarðanir. Friðrik reyndist okkur ávallt vel og bar hag okkar fyrir brjósti bæði í leik og starfi. Hann var frábær kennari og leiðbeinandi og skemmtilegur fyrirlesari sem átti auðvelt með að vekja áhuga á námsefninu. Friðrik er án efa einn þeirra kennara sem hafa haft hvað mest áhrif á og mótað það nám sem er boðið upp á í sálfræði við Háskóla Íslands í dag. Friðrik var skemmtilegur og röggsamur í framkomu og hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Samtöl og samskipti við hann voru oftar en ekki á léttum nótum. Hann var lítið fyrir að velta sér upp úr hlutunum og hafa mörg orð um það sem ekki þurfti. Við munum sakna þess sárt að heyra í honum hér á göngum skólans, eiga við hann hressilegt spjall og geta leitað til hans um ýmsa hluti.

Friðrik var mikill fjölskyldumaður. Báru frásagnir hans af fjölskyldunni vott um mikla væntumþykju og virðingu og greinilegt að samheldni fjölskyldunnar var mikil. Um leið og við vottum Guðnýju, Hildi og Steini okkar dýpstu samúð viljum við þakka fyrir að hafa notið ómetanlegrar leiðsagnar Friðriks í gegnum árin.

F.h. starfsfólks Félagsvísindastofnunar,

Andrea G. Dofradóttir.