Styrktarsöfnun Rauði kross Íslands er með stærstu hjálparsamtökum landsins og stendur árlega fyrir söfnuninni Göngum til góðs.
Styrktarsöfnun Rauði kross Íslands er með stærstu hjálparsamtökum landsins og stendur árlega fyrir söfnuninni Göngum til góðs. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
fréttaskýring Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Sælla er að gefa en þiggja, segir máltækið, og á líklega sjaldan betur við en um jólin þegar náungakærleikurinn nær hámarki hjá landsmönnum.

fréttaskýring

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Sælla er að gefa en þiggja, segir máltækið, og á líklega sjaldan betur við en um jólin þegar náungakærleikurinn nær hámarki hjá landsmönnum. Fjölmörg góðgerðarsamtök og líknarfélög reiða sig á framlög fyrirtækja og einstaklinga allt árið um kring en líklega aldrei meira en í aðdraganda jólanna. En hve mörg eru þessi samtök og hvað fá þau mikla fjármuni til sín?

Heildarupphæðir liggja ekki nákvæmlega fyrir en samkvæmt sænskri rannsókn er talið að þriðji geirinn svonefndi sé um 4% af vergri þjóðarframleiðslu þar í landi. Talið er að hlutfallið geti verið svipað hér á landi, sem jafngildir um 60 milljörðum króna miðað við þjóðarframleiðslu síðasta árs. Til þeirrar veltu heyra m.a. framlög til samtaka og stofnana frá hinu opinbera, fyrirtækjum og einstaklingum, jólaaðstoð til hjálparstofnana og sala á flugeldum, lottói og happdrætti.

Fræðasetur þriðja geirans, sem nýverið tók til starfa innan Háskóla Íslands í samstarfi við Almannaheill – Samtök þriðja geirans, er að kortleggja þennan geira samfélagsins og meta efnahagsleg áhrif kreppunnar á hann. Þriðji geirinn samanstendur af samtökum og stofnunum sem starfa utan hins opinbera og einkageirans, einkum með sjálfboðaliðastarfi og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Hafa rannsóknir sýnt að um 40% Íslendinga sinna sjálfboðaliðastarfi með einhverjum hætti og er það svipað hlutfall og hjá öðrum Norðurlandaþjóðum.

Náungakærleikur landans hefur t.d. komið vel í ljós þegar efnt er til fjársöfnunar til styrktar ákveðnu málefni í beinni útsendingu sjónvarpsstöðvanna. Þá hafa safnast tugir og hundruð milljóna króna.

Um 150 félagasamtök

Almannaheill voru stofnuð árið 2008 og hafa samtökin 19 aðildarfélög innan sinna vébanda. Góðgerðar- og líknarfélög eru hins vegar mun fleiri. Er talið að félagasamtök í velferðarþjónustu séu upp undir 150, þ.e. samtök sem hafa greitt einhver laun en reitt sig að öðru leyti á starf sjálfboðaliða.

Bergur Ólafsson, verkefnisstjóri hjá Almannaheillum, segir samtökin hafa það á stefnuskrá sinni að fjölga aðildarfélögum. Helstu baráttumál samtakanna eru þau að skattalögum verði breytt á þann hátt að almannaheillafélög og sjálfseignarstofnanir verði undanþegin erfðafjárskatti og að einstaklingum og lögaðilum verði heimilað að draga gjafir til félaga og samtaka frá tekjuskattsstofni. Samkvæmt núverandi skattalögum má draga framlög lögaðila til viðurkenndra góðgerðarsamtaka og líknarfélaga frá skatti, en þó ekki fyrir meira en 0,5% af tekjum rekstrarársins.

Þá vilja samtökin að heildarlöggjöf verði sett um starfsemi frjálsra félagasamtaka, réttindi þeirra og skyldur. Velferðarráðherra hefur á borði sínu skýrslu sem nýlega var skilað til hans, þar sem lagt er mat á mikilvægi þess að setja heildarlöggjöf um starfsemi samtaka og sjálfseignarstofnana. Bergur segir mjög brýnt að búa til einhvern lagaramma um starfsemi þriðja geirans. „Eftir að kreppan skall á hefur eftirspurn eftir þjónustu þriðja geirans aukist, á sama tíma og erfiðara er fyrir þessi samtök að afla sér fjár. Gera þarf þessi samtök starfhæfari.“

FRÆÐASETUR STARFANDI

Kortleggur geirann

Steinunn Hrafnsdóttir, dósent við félagsráðgjafardeild HÍ og annar tveggja forstöðumanna Fræðaseturs þriðja geirans, segir skorta mikið á upplýsingar um umfang og veltu þriðja geirans og þau Ómar H. Kristmundsson, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ, séu einmitt að vinna í því, m.a. um hvað fólk leggur mikið til til þessara samtaka. Þau Ómar skoðuðu einnig áhrif kreppunnar á tekjur félagasamtaka í velferðarþjónustu og komust m.a. að því að frá 2008 til loka árs 2009 breyttust tekjur samtakanna ekki mikið en tekjusamsetningin breyttist. Minna hefði komið frá hinu opinbera og fyrirtækjum en jafnvel meira frá einstaklingum. Framlög hins opinbera gætu lækkað enn meir á næsta ári.