20. desember 1930 Ríkisútvarpið tók formlega til starfa. „Það hefur varla verið beðið eftir öðru í meiri eftirvæntingu og með meiri vonarhug hér á landi heldur en þessari útvarpsstöð,“ sagði Helgi Hjörvar, formaður útvarpsráðs, í ávarpi...

20. desember 1930

Ríkisútvarpið tók formlega til starfa. „Það hefur varla verið beðið eftir öðru í meiri eftirvæntingu og með meiri vonarhug hér á landi heldur en þessari útvarpsstöð,“ sagði Helgi Hjörvar, formaður útvarpsráðs, í ávarpi sínu. Útvarpað var einkum á kvöldin, um þrjá tíma í senn. Fyrsti útvarpsstjórinn var Jónas Þorbergsson. Skráðir notendur töldust þá 449.

20. desember 1930

Landspítalinn var tekinn í notkun, án viðhafnar. Fyrsta daginn komu þrír sjúklingar á handlækningadeildina. Í spítalanum voru 120 sjúkrarúm og í upphafi voru læknarnir átta.

20. desember 1974

Tólf manns fórust í snjóflóðum á Neskaupstað en þau ollu einnig stórtjóni á húsum og öðrum mannvirkjum. Margir voru grafnir upp úr snjónum og nítján ára piltur bjargaðist eftir tuttugu klukkustundir.

20. desember 1975

Kröflueldar hófust með eldgosi í Leirhnjúki. Þetta gos stóð fram í febrúar 1976 en goshrinurnar urðu níu, sú síðasta 1984.

20. desember 1983

Kvótakerfi á fiskveiðar var samþykkt á Alþingi. „Litlu munaði að frumvarpið yrði fellt og ríkisstjórninni þar með velt úr sessi,“ sagði Tíminn. Kerfið tók gildi 1. janúar 1984.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.