Herforinginn Þórir Hergeirsson stýrði norska landsliðinu til sigurs á EM kvenna í handknattleik.
Herforinginn Þórir Hergeirsson stýrði norska landsliðinu til sigurs á EM kvenna í handknattleik. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM í handbolta Kristján Jónsson kris@mbl.is Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson stýrði norska landsliðinu til sigurs í gær á Evrópumóti kvenna í handknattleik með sigri á Svíþjóð, 25:20, í úrslitaleiknum í Herning.

EM í handbolta

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson stýrði norska landsliðinu til sigurs í gær á Evrópumóti kvenna í handknattleik með sigri á Svíþjóð, 25:20, í úrslitaleiknum í Herning. Er þetta fjórði Evrópumeistartitill Norðmanna í röð í kvennaflokki í íþróttinni. Engin önnur þjóð hefur áður unnið þennan titil fjórum sinnum í röð, hvorki í kvenna- né karlaflokki. „Já, það er mjög sérstakt. Þetta er mjög sterkt, ég verð að segja það. Það er afar sjaldan sem menn upplifa slíkt. Mikil vinna, háleit markmið og góður hópur hefur gert þetta að verkum. Mesta ánægjan núna, ásamt því að vinna keppnina, er sú að vera komin inn á heimsmeistaramótið á næsta ári, Ólympíuleikana árið 2012 og Evrópumótið árið 2012. Með þessum sigri erum við því komin inn á þrjú næstu stórmót. Það er geysilega mikilvægt, sérstaklega hvað varðar Ólympíuleikana,“ sagði Þórir þegar Morgunblaðið náði tali af honum skömmu eftir að hann handfjatlaði Evrópubikarinn.

Höfðu meiri mannskap

Eins og Þórir benti á þá var gríðarlega mikið undir í úrslitaleiknum í gær. Norska liðið hristi það sænska af sér í síðari hálfleik en þær sænsku höfðu frumkvæðið framan af og voru marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 11:10. Svíþjóð var raunar eina liðið sem vann Noreg í keppninni, 24:19 í milliriðlinum í Lillehammer. Þórir sagði leikmenn sænska liðsins hafa verið orðna þreytta og hann gat nýtt sér það.

„Í leikhléinu ákváðum við að keyra á þær sænsku því þær voru orðnar þreyttar. Það var aðalmálið í þessu því við höfðum meiri mannskap og meiri kraft til að hlaupa. Þetta var ekki vel spilaður úrslitaleikur enda er það sjaldan sem maður upplifir slíkt,“ útskýrði Þórir sem tók við norska liðinu sem aðalþjálfari að loknum Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 þar sem Noregur vann til gullverðlauna og Þórir var aðstoðarþjálfari. Norska liðið fékk bronsverðlaun á HM í fyrra undir stjórn Þóris og gerði nú gott betur. Þess má geta að fyrirliði liðsins, Gro Hammerseng, var fjarri góðu gamni á HM í fyrra.

„Við höfum alltaf unnið teymisvinnu hjá norska landsliðinu. Sem aðstoðarþjálfari þá fannst mér ég alltaf eiga dálítið í sigrunum en það er auðvitað aðeins öðruvísi þegar maður ber aðalábyrgðina á gengi liðsins. Maður finnur fyrir geysilegum væntingum og maður veit að annaðhvort verður maður hetja eða skúrkur. Ég finn því meira fyrir spennunni í kringum þetta sem aðalþjálfari og þá verður gleðin líka aðeins meiri,“ útskýrði Þórir.

Stormur í vatnsglasi

Nokkur umræða varð á meðal norskra þjálfara þegar Þórir tók við liðinu á sínum tíma. Svo virtist vera sem það færi fyrir brjóstið á einhverjum norskum kollegum Þóris að útlenskum þjálfara væri treyst fyrir flaggskipi norskra boltagreina. Það er því ekki úr vegi að spyrja Þóri hvort hann telji nú ekki að kollegarnir hafi tekið hann í sátt með þessum sigri?

„Þetta var nú stormur í vatnsglasi. Það voru þrír eða fjórir karlar sem höfðu áhuga á starfinu og það er alltaf þannig. Það er bara jákvætt að menn hafi skoðanir á þessu en það hefur verið rólegt í kringum liðið undanfarið. Ég held að 98% séu hlynnt minni ráðningu,“ sagði Evrópumeistarinn Þórir Hergeirsson í samtali við Morgunblaðið en hann var staddur í rútu á leið frá íþróttahöllinni í Herning í Danmörku.

Evrópumeistari
» Þórir Hergeirsson frá Selfossi er þjálfari Evrópumeistara Noregs í handknattleik kvenna.
» Þórir tjáði Morgunblaðinu að sigurinn væri geysilega mikilvægur í ljósi þess að með honum hefði Noregur tryggt sér þátttökurétt á næstu þremur stórmótum.
» Þórir vann sín fyrstu gullverðlaun sem aðalþjálfari landsliðsins í gær.