Guðmundur Marínó Þórðarson fæddist í Hafnarfirði 12. júlí 1928. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 9. desember 2010.

Foreldrar hans voru hjónin Þórður Einarsson, f. 12.1. 1881, d. 22.5. 1962, og Sólveig Bjarnadóttir, f. 14.8. 1887, d. 28.5. 1942. Systkini Guðmundar Marínós voru 11 talsins. Þau voru: Ásta, f. 3.4. 1920, búsett í Bandaríkjunum, Róbert, f. 28.8. 1925, búsettur á Selfossi, Unnur, f. 19.11. 1926, búsett í Bandaríkjunum, Hulda, f. 2.10. 1902, látin, Jón Rósant, f. 10.5. 1906, látinn, Ólafur, f. 9.7. 1909, látinn, Sigríður, f. 7.10. 1911, Matthildur, f. 13.4. 1914, Kristín, f. 9.9. 1915, og Anna Lovísa og Róbert Albert sem bæði létust í ungri barnæsku.

Guðmundur Marínó kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Halldóru Þórðardóttur, hinn 5.8. 1949. Halldóra er dóttir hjónanna Þórðar Þorsteinssonar garðyrkjubónda, f. 29.3. 1902, d. 11.6. 1983, og Helgu Sveinsdóttur húsfreyju, f. 3.3. 1899, d. 23.7. 1984, bæði kennd við Sæból í Kópavogi. Börn Guðmundar Marínós og Halldóru eru: Þórður Örn, f. 23.9. 1948, eiginkona Ásta Karlsdóttir, börn þeirra eru: Harpa Hlín, Karl Magnús og Emil Örn. Áður átti Þórður Örn soninn Þórð Helga með fyrri eiginkonu sinni Mörtu Hauksdóttur. Börn Hörpu Hlínar eru Matthías, Davíð og Steinunn. Halldór Marínó, f. 22.3. 1950, hann á eina dóttur í Noregi, Maiken. Helga Dagmar, f. 21.9. 1951, eiginmaður Hörður Jónsson. Börn Helgu Dagmarar eru Berglind og Dóra Dís. Börn Berglindar eru Andrés Smári og Rasmus Hörður. Magnús Elías, f. 29.10. 1953. Eiginkona Patricia da Silva Araujo og eiga þau dótturina Emily Lind. Magnús á þrjú börn frá fyrra hjónabandi með Báru Baldursdóttur, þau Friðfinn, Marín Möndu og Melkorku. Friðfinnur á dótturina Anítu og börn Marínar Möndu eru Alba Mist og Bastian Blær. Þröstur Ragnar Smári, f. 16.6. 1963, hann hefur ávallt búið hjá foreldrum sínum.

Guðmundur Marínó ólst að mestu upp í Hafnarfirði og Reykjavík, en fjölskyldan bjó einnig í nokkur ár í Hveragerði og Selfossi vegna vinnu föður hans. Guðmundur Marínó átti við heilsubrest að stríða mestallt lífið, en hann greindist með lungnaberkla sjö ára gamall og dvaldi langdvölum á berklahælinu á Vífilsstöðum og Reykjalundi í barnæsku og á ungligsárunum. Rúmlega tvítugur gekk hann í gegnum þá erfiðu aðgerð sem nefnd var höggning á Kristnesi á Akureyri. Í aðgerðinni var berklasýkta lungað fjarlægt. Þrátt fyrir stöðugan heilsubrest gegndi Guðmundur Marínó ýmsum störfum um ævina. Hann starfaði m.a. sem tækjamaður hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, háseti á olíuskipinu Hamrafelli, aðstoðarmaður á rannsóknarstofu prófessors Níelsar Dungals, leigubílstjóri og ökukennari. Einnig gerðist hann kaupmaður um árabil. Guðmundur var ötull baráttumaður fyrir hagsmunum öryrkja og hann var frumkvöðull, skipuleggjandi og leiðsögumaður í fjölmörgum orlofsferðum fyrir öryrkja til Spánar á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Árið 1981 fluttu Guðmundur Marínó og Halldóra, ásamt Þresti syni sínum, til Danmerkur, þar sem þau bjuggu fram til 2004, þegar þau fluttu aftur til Íslands og búsettu sig að Þelamörk 1, þar sem Guðmundur Marínó bjó til dauðadags.

Úför Guðmundar Marínós fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 20. desember 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Nú þegar ég veit að það er staðreynd að einn af mínum bestu vinum er fallinn frá, koma strax upp í hugann margar góðar minningar. Við hjónin erum búin að njóta mikillar gestrisni þeirra hjóna Halldóru og Marinós, bæði hér heima og í Danmörku, en þar bjuggu þau í 25 ár. Við gistum hjá þeim margoft og nutum þess með ánægju. Marinó taldi ekki eftir sér að sækja okkur á flugvöllinn og fara með okkur þangað aftur. Ótaldir eru bíltúrarnir sem þau hjón buðu til bæði um Danmörku og til Þýskalands. Marinó og Dóra áttu afskaplega fallegt heimili, með einstaklega fallegum munum, því Marinó var fagurkeri. Marinó var mikill indælismaður og greiðvikinn. Hann liðsinnti mörgum Íslendingum sem leituðu til hans, bæði héðan heiman frá og úti í Danmörku. Í tvígang útvegaði hann mér varahluti í bíl sem ekki var hægt að fá hér heima. Fyrir mörgum árum var ekki eins auðvelt að fá varahluti í bíla eins og nú er. Það sem skyggði á líf Dóru og Marinós var heilsuleysi hans til margra ára. Hann var oft mikið veikur og margoft á spítala til meðferðar og margar skurðaðgerðir þurfti hann að gangast undir. Auðvitað gerði þetta Dóru mjög erfitt fyrir oft á tíðum. En Dóra er skynsöm kona og tók þessu alltaf með jafnaðargeði. Stundum var Marinó ótrúlega fljótur að ná sér eftir veikindi og farinn að sýsla eitthvað heimafyrir. Ég sagði við hann einu sinni þegar mér blöskraði hvað hann var fljótur að jafna sig eftir slæmt veikindakast: „Ég skal segja þér Marinó minn, að ég líki þér við bíl sem kemur af verkstæði úr viðgerð og fer strax í fulla vinnu.“

Marinó var ekki sérhlífinn maður og reyndi að hafa allt í röð og reglu heimafyrir. Eftir að þau hjón voru búin að koma upp eldri börnum sínum og þau flutt að heiman, var þó einn sonur, Þröstur, eftir heima og er enn. Marinó sagði oft: „Hann Þröstur er engillinn okkar.“ Og hvert sem þau fóru, hvort sem var innanlands eða utan, fóru þau alltaf þrjú saman. Marinó var mikill heimilisfaðir og ekki fann maður annað en að heimilislífið þar á bæ væri mjög gott. Að minnsta kosti leið manni ávallt vel á því heimili sem gestur.

Við hjónin óskum góðvinkonu okkar, henni Dóru, alls hins besta og Guðs blessunar, megi góður Guð styrkja hana í eigin veikindum hennar og styðja hana og ástvini hennar á erfiðum sorgartíma.

Þórir S. Hersveinsson.