Það er fengur að frísklegum skrifum í vönduðum tímaritum á borð við Þjóðmál

Tímaritið Þjóðmál hefur algjöra sérstöðu á sínu sviði og vekur útgáfa þess jafnan mikinn áhuga og er það mjög að verðleikum. Í nýjasta hefti þess eru þrjár burðargreinar. Greinarnar eru úr ólíkum áttum en prýðilegar allar og mjög forvitnilegar. Ragnhildur Kolka gerir grein fyrir skrifum Theodore Dalrymple sem sumir telja snjallasta ritgerðarhöfund á enskri tungu síðan George Orwell. Hann hefur fjallað með óvenjulegum hætti um hnignun vestrænna velferðarríkja og hvernig væntingar um að ríkisvald megni allra vanda að leysa hafi gert illt verra.

Ólöf Nordal alþingismaður fjallar um hið óskiljanlega óðagot við breytingar á stjórnarskrá sem afsakað er með óljósri tengingu við bankahrunið og Gústaf Níelsson birtir fróðlega og ýtarlega úttekt á baráttu íslenskra stjórnvalda fyrir sæti í Öryggisráðinu og varpar nýju ljósi á málið. Stjórnmálalegir rétttrúnaðarmenn láta sjálfsagt þessar greinar fram hjá sér fara og það er skynsamlegt af þeim.

Björn Bjarnason fjallar á afgerandi hátt um virðingarleysi þeirra sem síst skyldi fyrir lögum og rétti og viðrar meðal annars athyglisverð sjónarmið vegna fyrirhugaðrar landsdómsmeðferðar. Þá fjallar Björn um landflótta og stjórnlagaþing og þær ógöngur sem viðvarandi gjaldeyrishöft hafa, enda studdi Björn þau á þingi sem skammtíma neyðarráðstöfun. Í því sambandi má benda á að þegar Seðlabankinn lætur í té hagfellda gengisspá til að undirstrika útreikninga um sem minnstan kostnað við þriðja Icesave-samninginn er augljóst að bankinn gengur út frá því að gjaldeyrishöftin standi að minnsta kosti fram yfir árið 2016. Ella gengur spá bankans alls ekki upp.

Þá skrifar Bergþór Ólason pistil um Ríkisútvarpið og rannsóknarskýrsluna og er sú lýsing á framgöngu ríkisfjölmiðilsins við birtingu Rannsóknarskýrslu Alþingis með miklum ólíkindum. Dæmin sem pistlahöfundurinn dregur fram eru lyginni líkust, þótt þeir sem halda þessari ríkisstofnun uppi með fjárframlögum, nauðugir viljugir séu orðnir ýmsu vanir. Er augljóst af þessum dæmum sem pistlahöfundurinn vekur máls á og reyndar svo mörgum öðrum sem upp hafa komið á síðustu árum að núverandi útvarpsstjóri lítur verkefni sitt og skyldur mjög sérstökum augum. Skal þó hvergi úr því dregið að útvarpsstjórinn er prýðilegur þulur.