— Morgunblaðið/Golli
Halldór Armand Ásgeirsson haa@mbl.is Fjárhaldsstjórn Álftaness telur að sveitarstjórn hafi ekki farið að lögum við ráðstöfun fjár sem sveitarfélagið fékk vegna sölu eigna á síðasta kjörtímabili.

Halldór Armand Ásgeirsson

haa@mbl.is

Fjárhaldsstjórn Álftaness telur að sveitarstjórn hafi ekki farið að lögum við ráðstöfun fjár sem sveitarfélagið fékk vegna sölu eigna á síðasta kjörtímabili. Þetta kemur fram í skýrslu fjárhaldsstjórnarinnar sem gefin var út í liðinni viku. Í henni er að finna úttekt á rekstri sveitarfélagsins og jafnframt áætlun fyrir árin 2011 - 2014.

Það er niðurstaða fjárhaldsstjórnarinnar að til þess að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins þurfi að leysa það alfarið undan öllum leiguskuldbindingum sem eru utan efnahags. Þessar skuldbindingar eru 4.106 milljónir króna samkvæmt ársreikningi árið 2009.

Í áætlun fjárhaldsstjórnarinnar kemur fram að með því að losa sveitarfélagið undan þessum skuldbindingum muni skuldir þess fara úr 518% af tekjum við árslok 2009 í rétt innan við 250% af tekjum í árslok 2010. Fjárhaldsstjórnin telur að sveitarfélagið geti ráðið við skuldir af þessari stærð en ljóst sé að lítið svigrúm verði til viðgerða og viðhalds. Til þess að standa í skilum þurfi hins vegar að vera að minnsta kosti 5% álag á útsvar fram til ársins 2014 á Álftanesi. Mikil hagræðing væri fólgin í sameiningu við annað sveitarfélag og þá væri hægt að leggja álagið niður.

Í bága við skyldur

Í skýrslunni fjallar fjárhaldsstjórnin sérstaklega um eignasölu sveitarfélagsins á síðastliðnu kjörtímabili. Sölur á fastafjármunum námu um 645 milljónum króna og þar af fékk sveitarfélagið greiddar um 449 milljónir króna í peningum. Þessum fjármunum var hins vegar hvorki varið til að greiða niður skuldir né til varanlegrar fjárfestingar heldur til þess að standa undir daglegum útgjöldum sveitarfélagsins.

Í skýrslunni segir að ekki verði annað séð en að sala fasteigna og veitukerfa sveitarfélagsins og meðferð söluandvirðisins hafi ekki verið í samræmi við almennar skyldur varðandi meðferð fjármuna sem hvíla á sveitarfélögum. Í þessu samhengi er bent á 1. mgr. 64. gr. sveitastjórnarlaga nr. 45/1998 sem er svohljóðandi: „Sveitarstjórn skal gæta ábyrgðar í meðferð fjármuna sveitarfélagins og tryggja örugga ávöxtun þeirra“. Ýmsar tillögur eru jafnframt lagðar fram í skýrslunni til að draga úr rekstrarkostnaði á Álftanesi á næsta ári, t.d. segja upp allri yfirvinnu og skera niður kostnað við Álftanesskóla.