Jólatréð mitt væri ekki vænlegur kandídat í keppni um stílhrein og smart jólatré. Í slíkri keppni mundi það líklega verma eitt af botnsætunum.

Jólatréð mitt væri ekki vænlegur kandídat í keppni um stílhrein og smart jólatré. Í slíkri keppni mundi það líklega verma eitt af botnsætunum. Hugsanlega myndi það hreppa verðlaun sem vinsælasta jólatréð, kannski yrði það valið jólatréð með fegursta fótinn, vænlegustu könglana eða bústnustu greinarnar.

En tréð mitt er svo skynsamt, að því myndi aldrei detta önnur eins firra í hug og að keppa í útliti. Eigendum trésins (því tré eru ekki sjálfráða) myndi heldur aldrei detta í hug að skrá tréð sitt í slíka keppni. Þeir vita betur en að láta tréð sitt keppa í fegurð við önnur tré. Enda þykir hverjum sitt tré fagurt.

Á aðventu birtast gjarnan viðtöl við afskaplega smekklegt fólk í hinum ýmsu jólablöðum. Orðið jólaþema ber þar iðulega á góma. „Jólaþemað í ár er gyllt / silfurlitað / fjólublátt / appelsínugult / svart.“ Við það síðastnefnda setur mig hljóða því svart þykir mér langt frá því að vera jólalegur litur.

Fyrir þá sem ekki vita snýst jólaþema um að skreyta heimilið sitt í tilteknum lit. „Í ár er þemað hjá mér fjólublátt. Allt skrautið og allar seríurnar eru fjólubláar. Glassúrinn á piparkökunum er fjólublár og við erum öll búin að fá okkur fjólublá jólaföt.“ Gott ef ekki slær fjólubláum bjarma á hamborgarhrygginn og hangiketið.

Skapast neyðarástand á svo stílhreinu heimili dirfist leikskólabarn að koma heim með jólaföndur sem er ekki fjólublátt? Er því (jólaföndrinu en ekki barninu) þá stungið inn í skáp hið snarasta, vegna þess að það stingur í stúf við litaþema ársins í ár?

Svari þessu þeir sem svarað geta. Því ég hef aldrei nokkurn tímann náð svo langt í jólaskreytingaþróunarsögunni að geta gumað af því að vera með jólalitaþema.

Í ár prýða eftirfarandi gersemar jólatréð mitt: Ýmislegt föndur dætranna, fánar landanna sem fjölskyldan hefur búið í, eldgamalt jólaskraut frá ömmu minni og afa (framleitt fyrir tíma plastsins og er því MJÖG brothætt og aldrei of oft áréttað við fólk sem þarf endilega að handfjatla alla skapaða hluti), dýrlegt föndur frá aldraðri og listfengri frú og pakkaskraut sem var geymt frá því á jólunum í fyrra, því það þótti frekar flott.

Þarna er ekkert litaþema á ferð, nema kannski einna helst regnbogaþemað, sem stendur reyndar fyrir svo ótal margt og fallegt í mannlífinu.

Á toppnum trónir stjarna og dæturnar skiptast á um að fá að setja hana á toppinn. Nákvæmar skrár eru haldnar um þann viðburð.

Annars ætla ég að prófa að vera með jólaþema í ár. Inntak þemans er að hafa það sem allra best á jólunum með sem allra minnstri fyrirhöfn. Það er nefnilega vel hægt að halda jól án þess að ramba á barmi taugaáfalls. Er ekki einhver mótsögn í því að tala um stress í sama mund og talað er um gleði og frið?

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir