Anton Helgi Jónsson
Anton Helgi Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Anton Helga Jónsson. Mál og menning, 2010. 93 bls.

Þú spyrð hvað hafi orðið úr mér.

Hvað ég hafi afrekað.

Ég hef gert ágætis mistök

í lífinu

ágætis mistök.

Þannig hefst ný ljóðabók Antons Helga Jónssonar, Ljóð af ættarmóti , og tónninn er sleginn: Fjölbreytilegar raddir tala til lesandans, karlar og konur, og segja frá. Sumir hvísla, aðrir tala í hálfkæringi, einhverjir virðast kalla; við heyrum játningar, lífið er gert upp, gömul kynni endurnýjuð, hér er skammast eða lofað, gengist við draumum eða ásakanir fljúga.

Eins og titillinn ber með sér eru raddirnar ólíks fólks sem hefur safnast saman, engum er lýst heldur eru þetta allt raddir í fyrstu persónu og persónugalleríið furðu fjölbreytilegt; við erum stödd á íslensku ættarmóti með því fjölbreytilega liði sem safnast þar saman og reynir að styrkja missterk tengsl.

Þarna er kona sem fullyrðir að hún hafi alltaf verið mesta skutlan, önnur sem pirrast út í eiginkonu mannsins sem hún heldur við, maðurinn sem rifjar upp þegar hann þurfti að vera harður af sér á vændisstað erlendis og svo konan sem pirrar sig á flegna bolnum sem önnur klæðist. Oft eru þetta býsna svöl ljóð, mætti segja að þau væru sniðug, og ljóðmælandinn er fjarlægur; þau eru snotur smíð í þessu konseptleikriti sem ljóðasafnið er. Ljóðin þar sem myndirnar verða einlægari og lágstemmdari ná hinsvegar betur til þessa lesanda, eins og þessar hugleiðingar um hversdagsslenið og lífið:

Það er í mér eitthvert slen.

Ég veit ekki?

Ætli ég nenni nokkuð?

Ætli ég vilji nokkuð?

Það er í mér eitthvert slen.

Ætli eitthvað sé að ganga?

Ætli lífið sé að ganga?

Ljóð af ættarmóti er verk fullt af áhugaverðum hugmyndum og margar örmyndanna, sem játningar eða yfirlýsingarnar skapa, eru býsna vel lukkaðar. Ljóðin eru hinsvegar ójöfn að gæðum og rödd ljóðmælandans, sérstaklega þegar hann verður hvað svalastur, of óáhugaverð til að vekja áhuga á kvörtunum, hvíslingum eða yfirlýsingum allra ættingjanna.

Einar Falur Ingólfsson