Framfarir Sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir stóð sig afar vel á heimsmeistaramótinu í Dubai.
Framfarir Sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir stóð sig afar vel á heimsmeistaramótinu í Dubai. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VIÐTAL Ívar Benediktsson iben@mbl.

VIÐTAL

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég er mjög ánægð með árangurinn,“ sagði Hrafnhldur Lútersdóttir, sundkona úr Hafnarfirði, í samtali við Morgunblaðið í gær eftir að hún lauk keppni á heimsmeistaramótinu í sundi í 25 m laug í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Hrafnhildur kórónaði glæsilegan árangur sinn á mótinu í gærmorgun með því að bæta Íslandsmetið í 200 m bringusundi um hálfa þriðju sekúndu, synti á 2.24,15 mínútum og hafnaði í 12. sæti af 39 keppendum. Fyrr á mótinu hafði hún bætt Íslandsmetið í 50 og 100 m bringusundi á mótinu og náð sínum besta árangri á ævinni í 100 m fjórsundi. Auk þess að hafna í 12. sæti í gær varð hún í 14. sæti í 50 m bringusundi og 16. sæti í 100 m bringusundi. Það er ekki lítið afrek að vera á meðal 16. bestu sundkvenna í þremur greinum á jafn stóru móti og þessu. „Það er bara alveg ágætt, held ég,“ sagði Hrafnhildur spurð um þessa athyglisverðu staðreynd hversu framarlega hún hefði verið, ekki síst í ljósi þess að hún var að taka þátt í heimsmeistaramóti í sundi í 25 m laug í fyrsta sinn.

Árangurinn framar vonum

„Ég hafði æft afar vel fyrir mótið og gerði mér þar af leiðandi vonir um að geta bætt mig eitthvað en þessi niðurstaða kemur mér á óvart. Ég átti ekki von á að geta synt eins hrikalega vel og ég gerði og bætt Íslandsmetið svona oft eins og raun varð á,“ sagði Hrafnhildur spurð hvort árangurinn hefði verið framar vonum.

Spurð hvort ekki hefði verið komin þreyta í hana fyrir lokasundið í gær, sem var hennar sjöunda sund, á fimm dögum sagði hún það ekki hafa verið. „Ég synti ekkert á laugardaginn. Þá fékk ég góðan tíma til að slaka á og velta aðeins fyrir mér hvernig ég ætti að útfæra síðasta sundið, 200 metra bringusundið. Og það skilaði sér heldur betur og ég fann ekkert fyrir þreytu þegar á hólminn var komið,“ sagði þessi metnaðarfulla og dugmikla 19 ára sundkona en henni hefur svo sannarlega skotið upp á stjörnuhimininn á síðustu dögum. „Auðvitað er erfitt að halda út á fimm daga móti og vera fersk þegar komið er fram í síðustu grein, en mér tókst alveg ótrúlega vel að halda mér á tánum.“

Fann ekki fyrir stressi

Hrafnhildur segir allar aðstæður í Dubai hafi verið fyrsta flokks. Fyrir vikið hafi sér liðið vel en það skipti miklu máli þegar á hólminn sé komið.

„Mér leið bara mjög vel, fann ekkert fyrir stressi og reyndi bara að láta mér líða sem best og leiða sem minnst hugann að því hversu stóru móti ég væri stödd á. Reyndi bara að einbeita mér að því að synda eins vel og mögulegt var.

Fyrirfram reiknaði ég ekki með að komast inn í undanúrslit, allra síst í fyrstu greininni, 50 metra bringusundinu. Sá áfangi var hreint stórkostlegur,“ segir Hrafnhildur sem stefnir enn lengra í sundíþróttinni.

Er á leið til Flórída

Um áramótinu flytur hún til Bandaríkjanna þar sem hún sest á skólabekk í University of Florida. Skólinn hefur á að skipa afar sterku sundliði, sem er kallað The Gators, og m.a. varð bandarískur háskólameistari í kvennaflokki í vor.

Yfirþjálfari sundliðsins er Gregg Troy en hann var kosinn þjálfari ársins af bandaríska sundþjálfarasambandinu. Einnig var hann þjálfari bandaríska landsliðsins á Kyrrahafsleikunum. Öll umgjörð fyrir íþróttir í skólanum er frábær og þjálfa t.d. fimm þjálfarar sundliðið, auk styrktarþjálfara.

Þjálfarar skólans munu verða í nánu samstarfi við Klaus Ohk, þjálfara Hrafnhildar hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar, þar sem undirbúningur fyrir Ólympíuleikana 2012 í London er þegar hafinn.

Á Flórída mun Hrafnhildur búa sig undir þátttöku á heimsmeistaramótinu í 50 m laug sem fer fram upp úr miðju sumri í Sjanghæ í Kína, en það verður næsta stóra mótið sem hún tekur þátt í.

Vonandi sýnt að ég er í góðu formi

„Síðustu dagar hafa einnig verið mikilvægir fyrir mig varðandi framhaldið þegar ég kem til Bandaríkjanna. Ég hef vonandi sýnt þjálfurum þar að ég er í góðu formi um þessar mundir,“ segir Hrafnhildur.

„Árangurinn hefur einnig styrkt sjálfstraustið sem er ekki síður mikilvægt en annað í kringum sundið,“ sagði Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona úr Sundfélagi Hafnarfjarðar.

HEIMSMEISTARAMÓTIÐ Í SUNDI Í 25 M LAUG

Ragnheiður og Jakob bættu sig

Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR hafnaði í 23. sæti af 101 keppanda í 50 m skriðsundi á heimsmeistaramótinu í sundi í Dubai á laugardaginn og lauk þar með keppni á mótinu. Hún synti á 25,06 sekúndum sem er ívið betri tími en hún hefur áður náð á þessu ári.

Íslandsmet Ragnheiðar er 24,94 sekúndur.

Hún hefði þurft að synda 0,28 sek. hraðar og þar með bæta Íslandsmet sitt til að ná inn.

Ragnheiður getur verið ánægð með árangur sinn á mótinu. Hún bætti sig í tveimur greinum af þremur og setti Íslandsmet í 100 m skriðsundi en alls var hún með í þremur greinum og var ekki fjarri sæti í undanúrslitum í þeim öllum.

Í 29. sæti af 89

Jakob Jóhann Sveinsson úr Ægi lauk einnig keppni á HM í sundi í Dubai á laugardag. Síðasta grein hans af þremur var 50 m bringusund þar sem hann synti á 27,80 en hann átti best 28,03 á árinu. Íslandsmet hans síðan í fyrra er 27,37 og stendur óhaggað.

Jakob Jóhann hafnaði í 29. sæti í undanrásunum af 89 keppendum.

Jakob bætti sinn fyrri árangur á árinu í 25 m laug í öllum sundgreinunum þremur sem hann tók þátt í. iben@mbl.is