Snjór Carlton Cole, framherji West Ham, og Paul Robinson, markvörður Blackburn, leika sér í snjónum.
Snjór Carlton Cole, framherji West Ham, og Paul Robinson, markvörður Blackburn, leika sér í snjónum. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Þó að vellirnir á Englandi hafi verið leikhæfir var öllum leikjum helgarinnar í úrvalsdeildinni frestað ef undan eru skildir tveir.

England

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Þó að vellirnir á Englandi hafi verið leikhæfir var öllum leikjum helgarinnar í úrvalsdeildinni frestað ef undan eru skildir tveir. Ástæðan var snjókoma sem gerði það að verkum að flest samgöngukerfi voru hæg eða hreinlega óvirk. Því var það ákveðið með hag áhorfenda í fyrirrúmi að fresta leikjunum. Ástandið var betra í norðurhluta landsins en í mið- og á suðurhluta Englands voru aðstæður afar slæmar.

Á Ewood Park tók heimamenn í Blackburn á móti West Ham. Þetta var fyrsti leikur Blackburn undir stjórn Steves Keans sem stýrir liðinu tímabundið þangað til eftirmaður Sams Allardyce finnst.

Allardyce var látinn fara heldur óvænt eftir að nýir eigendur liðsins töldu sig þurfa að skipta um mann í brúnni. Eitt af skilyrðunum sem nýr þjálfari þarf að uppfylla er mikil reynsla af úrvalsdeildinni. Það eitt og sér er undarlegt skilyrði ef horft er til þess að aðeins Alex Ferguson og Arsene Wenger hafa þjálfað þar lengur en Sam Allardyce. Það er því óljóst hvað nýju fjárfestarnir voru að hugsa en Allardyce hafði komið með stöðuleika inn í lið Blackburn á þeim tæplega tveimur árum sem hann var við stjórnvölinn.

Unglingur tryggði West Ham stig

Blackburn nældi sér aðeins í eitt stig gegn West Ham sem er neðst í deildinni. Varnarjaxlinn Ryan Nelson kom Blackburn yfir á 51. mínútu en fyrri hálfleikurinn var afar tíðindalítill. Mark Nelsons var líklega eitt það ljótasta sem skorað hefur verið á tímabilinu, en eftir atgang í vítateignum rak Nelson boltann inn með hnénu. Ungur leikmaður West Ham, Junior Stanislas, sem hefur látið að sér kveða með unglingalandsliðum Englands kom inn á sem varamaður og þakkaði Avram Grant, stjóra West Ham, traustið og tryggði liðinu jafntefli.

Þá vakti einnig athygli að ungur Belgi, Ruud Boffin, fæddur 1987, spilaði í marki West Ham. Robert Green, aðalmarkvörður liðsins, var ekki búinn að ná sér eftir aðgerð sem framkvæmd var fyrr í vikunni. Þetta var fyrsti leikur Ruuds sem byrjaði ferilinn í heimalandinu hjá KRC Genk. Það var lítið út á frammistöðu hans að setja og ekkert sem hann gat gert við marki Nelsons. Boffin þessi hefur verið álitinn fjórði markvörður West Ham og því kærkomið tækifæri sem hann fékk í leiknum.

Lánsmaðurinn heldur áfram að dæla inn mörkunum

Danny Welbeck tryggði Sunderland mikilvægan 1:0 sigur á Bolton. Welbeck er í láni hjá Sunderland frá Manchester United. Óhætt er að segja að hann hafi farið á kostum á þessu tímabili og spurning hvort Alex Ferguson, stjóri United, gæti ekki haft not fyrir Welbeck á Old Trafford. Þótt Ferguson hefði hug á því, er Steve Bruce, stjóri Sunderland, öruggur með markaskorarann unga þangað til í lok tímabils. Welbeck hefur skorað 6 mörk á leiktíðinni, þrjú með hægri fæti og þrjú með skalla en hann stangaði boltann einmitt í netið gegn Bolton.

Owen Coyle, stjóri Bolton, hélt því fram að Lee Cattermole, miðjumaður Sunderland, hefði átt að fá sitt annað gula spjald í leiknum og þar með það rauða fyrir að tækla Svíann Johan Elmander.

Chelsea og Man. Utd.
» Óvíst er hvenær leikirnir verða spilaðir sem frestað var um helgina. Þar á meðal var stórleikur Chelsea og Man. Utd.
» Chelsea hefur ekki spilað vel að undanförnu. Af þeim sökum er líklegt að Alex Ferguson, stjóri United, vilji að leikurinn fari fram sem fyrst. Man. Utd. hefur ekki unnið á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, í átta ár.