Á flugi Flugvél Flugfélags Íslands yfir Reykjavík í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli.
Á flugi Flugvél Flugfélags Íslands yfir Reykjavík í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli. — Morgunblaðið/Ómar
Forsvarsmenn Flugfélags Íslands eru óánægðir með að vélar félagsins þurfi að millilenda á Egilsstaðaflugvelli á leið sinni frá Reykjavík til Noregs. Þurfa farþegar að ganga frá borði með farangur sinn og sæta vopnaleit.

Forsvarsmenn Flugfélags Íslands eru óánægðir með að vélar félagsins þurfi að millilenda á Egilsstaðaflugvelli á leið sinni frá Reykjavík til Noregs. Þurfa farþegar að ganga frá borði með farangur sinn og sæta vopnaleit. Ekki þarf að millilenda á leið frá Reykjavíkurflugvelli til Grænlands og Færeyja.

Að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa Isavia, er þetta vegna þess að Reykjavíkurflugvöllur uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til flugverndar í millilandaflugi en það geri Egilsstaðaflugvöllur. Isavia annast rekstur allra flugvalla á Íslandi. Hvað varðar flugið til Grænlands og Færeyja segir hún að völlurinn hafi fengið sérstaka undanþágu frá ýmsum reglum um flugvernd, til dæmis um vopnaleit, til að fljúga innanlands og til þessara tveggja áfangastaða og því þurfi ekki að koma við á Egilsstöðum á leiðinni þangað.

Segir hún að ekki sé á dagskrá að afla þeirra leyfa sem þarf til að Reykjavíkurflugvöllur geti talist fullgildur millilandaflugvöllur þar sem ærinn tilkostnaður myndi fylgja því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru. Ekki liggi heldur neitt fyrir um frekari undanþágur.

Ósveigjanleiki með ólíkindum

„Okkur finnst svolítið sérstakt að það skipti máli hvert flugvélin er að fara,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands. „Við teljum að [Reykjavíkurflugvöllur] uppfylli þessar kröfur.“

Að sögn Árna höfðu vonir staðið til þess að lausn fyndist á málinu og vélarnar fengju að fljúga beint til Noregs. Segir hann að bæði Flugmálastjórn og Isavia hafi verið ósveigjanleg í málinu. „Okkur finnst þetta bara alveg með ólíkindum.“ Noregsferðir félagins í kringum hátíðarnar verða níu talsins en Árni reiknar ekki með að þær verði fleiri. Breytist staðan varðandi millilendingarnar segir hann þó að athugandi sé að fjölga þeim. skulias@mbl.is

Áætlunarflug til Noregs
» Flugvélar Flugfélags Íslands þurfa að millilenda á Egilsstöðum á leið til Noregs til að sæta vopnaleit.
» Félagið verður með flug til þriggja áfangastaða í Noregi yfir jól og áramót, til Stavanger, Bergen og Þrándheims.
» Flugfélagið reiknar að óbreyttu með að ekki verði farnar fleiri en þær níu ferðir sem þegar hafa verið ákveðnar kringum hátíðarnar.