Alþingi Ögmundur Jónasson og Helgi Hjörvar í þingsölum Alþingis en áður en þingmenn fóru í jólafrí um helgina afgreiddu þeir fjölda mála.
Alþingi Ögmundur Jónasson og Helgi Hjörvar í þingsölum Alþingis en áður en þingmenn fóru í jólafrí um helgina afgreiddu þeir fjölda mála. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRÉTTASKÝRING Jónas Margeir Ingólfsson jonasmargeir@mbl.is Alþingi samþykkti aragrúa af bandormum og ýmsum lögum um skatta og aðrar álögur um helgina en hlé var gert á þinginu vegna hátíðanna á laugardag.

FRÉTTASKÝRING

Jónas Margeir Ingólfsson

jonasmargeir@mbl.is

Alþingi samþykkti aragrúa af bandormum og ýmsum lögum um skatta og aðrar álögur um helgina en hlé var gert á þinginu vegna hátíðanna á laugardag.

Samþykkt var frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og virðisaukaskatt. Um eitt þessara frumvarpa voru allir þingmenn sammála, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki en allir viðstaddir þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu, 51 að tölu.

Í atkvæðagreiðslum um önnur skattafrumvörp sátu þingmenn stjórnarandstöðunnar ýmist hjá eða greiddu atkvæði á móti þeim.

Allt af sama meiði

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem á sæti í fjárlaganefnd, kveður frumvörpin koma til með að hafa áhrif víða. „Við getum sagt sem svo að mestu áhyggjur mínar varðandi skattheimtuna eru tekjuskattur einstaklinga. Það er alveg ljóst að sá tekjustofn er að dragast saman. Svo er þessi tíeyringur úti um allt kerfið í þessum minni sköttum sem vigta ekki svo stórt hver og einn en þetta dreifist og hefur áhrif víða. Ég tel að við séum komin að ákveðnum endimörkum varðandi gjaldþol einstaklingsins. Það er ekkert eitt sem snertir mig frekar en annað. Þetta er allt af sama meiði.“

Kristján telur menn nú hljóta að velta fyrir sér samspili bótakerfis og skattakerfis. „Ég sannfærist alltaf betur og betur um það að við séum komin út í einhverjar ógöngur. Þegar maður horfir á samspil bótakerfis og skattkerfis. Lítið dæmi er fjármagnstekjuskattur á sparnað ellilífeyrisþega og áhrif tekjuskerðingar á útgreiðslu lífeyris. Þetta eru atriði sem eru farin að vigta meira fyrir einstaklinga. Menn hljóta því að velta því fyrir sér hvernig þetta samspil er, með hvaða hætti menn sjá ríkisvaldið standa að ákvörðun bótafjárhæða. Grunninn vantar allan,“ segir Kristján.

Skattahækkanir bera þungann

Kristján telur skattahækkanir til þess gerðar að halda Íslandi innan samstarfsáætlunnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Stóra myndin er þessi, skattahækkanir bera uppi að ríkissjóður heldur sig innan samstarfsáætlunar AGS um afkomu ríkissjóðsins, frumjöfnuð. Það er ekki niðurskurður útgjalda sem hefur gert gæfumuninn í því.“

Þrír fjórðu niðurskurður

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, segir það ekki hægt að leiðrétta halla ríkissjóðs án þess að allir finni fyrir því. „Við erum í því verkefni að uppræta tvö hundruð þúsund milljóna króna halla á ríkissjóði. Því miður verður það ekki gert öðruvísi en að við finnum öll fyrir því. Fólk fann fyrir skattaaðgerðunum á síðasta ári þegar innleiddir voru aftur skattar sem voru lækkaðir í góðærinu. Núna er þetta hins vegar tekið að meginhluta til af útgjaldahliðinni eða um þrír fjórðu hlutar af aðgerðunum. Stærsti hlutinn sem er tekinn á skattahliðinni kemur ekki með beinum hætti við almenning. Þar er stærsti hluti tekjuöflunarinnar skattlagning úr séreignarsjóðum,“ segir Helgi Hjörvar.

Helgi kveður jafnframt aðra skatta lagða á sem snerta almenning ekki með beinum hætti.

„Síðan er sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki og aðrar breytingar á fjármagnstekjuskatti og fyrirtækjasköttum. Almenningur mun að öllum líkindum verða mest var við árlega krónutöluhækkanir á bensíni, áfengi og tóbaki núna um áramótin. Fólk finnur auðvitað fyrir þessu. Þær fjárhæðir eru samt ekki ýkja háar.“

Á ÞRIÐJA TUG ÞINGMÁLA VARÐ AÐ LÖGUM

Breytt þingsköp boðuð

Ásta Ragnheiður Jóhannessdóttir, forseti Alþingis, boðaði við lok þingsins um helgina nýtt frumvarp um breytt þingsköp. Sagðist hún hafa á undanförnum vikum unnið að því að ná samkomulagi við alla þingflokka um málið, sem miðaði að því að styrkja eftirlitshlutverk þingsins og draga skýrari línur á milli Alþingis og framkvæmdavaldsins. Er ætlunin að leggja frumvarpið fram að loknu jólaleyfi, sem stendur til 17. janúar á næsta ári.

Alls varð á þriðja tug mála að lögum síðasta starfsdag þingmanna fyrir jólafrí, sem lauk síðdegis á laugardag.