Pálmi Stefánsson
Pálmi Stefánsson
Eftir Pálma Stefánsson: "Ofneysla sykurs og kjöts eða fisks er líklega stærsta breytingin á mataræði á Vesturlöndum síðustu aldir auk verksmiðjuunninna matvara"

Mataræði hefur breyst eða þróast gegnum tíðina frá prótín- (hvítu-) og fituríkum mat veiðimanna til sykruauðugs matar frá akuryrkju og síðar bættist við húsdýrahald með nýjum og hollum matvörum. Enn í dag neytir meirihluti mannskyns sykra (kolvetna) sem aðalfæðu. Talið er að allt að 1000 milljónir manna borði fisk og tvöfalt fleiri kjöt og svo eru þeir sem neyta hvors tveggja. Á Vesturlöndum eru þessar svokölluðu dýraprótínætur, en það er talið betra en jurtaprótín hvað samsetningu amínósýranna varðar. Með iðnvæðingunni breyttist aðgengi að mat og hungrinu var útrýmt í iðnvæddum löndum. Mannslíkaminn sem er árangur langrar þróunar er líklega ekki eins fljótur að laga sig að mataræðinu og maðurinn er hugvitssamur með það. Ofát er Vesturlandafyrirbrigði og óþarft enda enginn matarskortur þar lengur. En líkami okkar virðist ekki geta höndlað þessar breytingar á lífsstíl. Neytendur láta sig mestu varða útlit og bragð matarins. Og hér nýtur sín hugvitið hjá framleiðendum til fulls. Verksmiðjustóriðja vinnur fæðuna handa okkur og notar alls lags ísetningarefni og rotvarnarefni sem gera fallegan og bragðgóðan mat en síður hollan. Ónæmiskerfi mannsins er oft hans eina von um að lifa af. Það virkar á tvennan hátt: Á frumur og aðskotaefni. Svo vill til að það þarf ekki að hafa sérstakar áhyggjur af sykrum og fitu því hún er eins í flestu lifandi, en þetta er ekki þannig með prótínin. Lendi prótín úr mat í blóðinu bregst ónæmiskerfið við og getur myndað næstum endalaust ónæmi gegn framandi prótínum. Hver tegund og sérhver maður hefur sína einkaröðun á amínósýrunum sem mynda prótínin í honum. Þess vegna leysir meltingin prótínin í sundur í amínósýrur sem enda í blóðinu. Blóðið flytur þær síðan til frumnanna sem smíða rétta röðun. Prótín líkamans eru lífhvatar, vöðvar, hár o.fl. Þau endurnýjast ört og lagfæra skemmdir; þá nýtast þau líka til vaxtar. Megnið af prótíni sem endurnýjast kemur frá líkamanum sjálfum en nýrun eyða hluta þeirra með því að breyta niturhópum þeirra í þvagefni. Við þurfum því að neyta prótíns daglega til að mæta viðbótinni.

Alþekkt er hvað ungbörn þurfa mikið prótín til vaxtar og að aldnir þurfi aðeins rúmlega helming á við 25 ára gamla. Það sem næringarsérfræðingar gera athugasemdir við er ofneysla prótíns. Það er nú einu sinni svo að líkaminn virðist starfa best séu öll u.þ.b. 100 efnin sem hann þarf í réttum hlutföllum, hvorki of lítið né of mikið. Vítamínskortur og steinefnaskortur auk vatnsskorts einkum hjá eldra fólki eru þekkt dæmi. Líkaminn er þannig gerður að hann getur ekki geymt umframmagn nema sumra efna. Virðist þetta hafa þróast á víxl af litlu eða miklu aðgengi að mat auk þess sem of mikið af sumum efnum veldur eitrunum og er fargað. Þegar ofneysla prótíns er könnuð þá virðast engin efri mörk vera þekkt, en of lítið magn veldur heilsutjóni eins og þekkt er frá þróunarlöndunum.

Ofneysla dýraprótíns veldur því að amínósýrurnar þykkja blóðið og það sem frumur líffæranna geta ekki tekið við hleðst upp í bindivefjum þeirra og mynda kollagenefni. Þessar kollagentrefjar eru því í raun forðanæring.

Meðan maðurinn leið hungur öðru hverju eins og hérlendis í a.m.k. 8 aldir tæmdust þessar varabirgðir af og til ef þær voru fyrir hendi og flæðið gegnum háræðarnar til frumnanna varð aftur eðlilegt. Langvarandi uppsöfnun umframprótíns hefur skaðleg áhrif á heilsuna. Þessi áhrif eru hækkun blóðsykursmagns, en sama verður með fitu og kólesteról í blóði, auk þess sem blóðþrýstingur hækkar. Hjartað reynir að dæla óbreyttu magni gegnum þrengdar háræðarnar. Þetta eru því þrír áhættuþættir frá ofneyslu dýraprótíns sem inniheldur 5-10 sinnum meira prótín en jurtamatur. Gróft séð virðist því sem stærsta breytingin á matarvenjum á Vesturlöndum sé ofneysla á hvítum sykri og dýraprótíni einkum úr kjöti og fiski. Afleiðingarnar eru aukning í hjartaáföllum. Það tekur líkamann ekki mörg ár að framkalla hjartaslag ef ekki berst lengur nægt súrefni og næring til frumnanna. Það væri því e.t.v. ráðlegast að fasta í nokkra daga eftir jólahátíðirnar.

Höfundur er efnaverkfræðingur.