Halldóra Þorsteinsdóttir (Gógó) fæddist á Jafnaskarði í Stafholtstungum í Borgarfirði 23. apríl 1934. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja föstudaginn 10. desember 2010. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Guðbjarnarson, bóndi á Jafnaskarði, f. 28.8. 1909, d. 28.9. 1948, og Guðný Björnsdóttir húsfreyja, f. 6.8. 1908, d. 9.12. 1991. Systur Halldóru eru Jóhanna Birna, Guðrún, Jóna Guðný, Auður Ósk, Guðbjörg, Hjördís Ragna, d. 8.9. 2007, Brynhildur, d. 20.7. 2007, og Kristín. Halldóra var næstelst af systrunum.

Hinn 30.9. 1956 giftist Halldóra Haraldi Hafsteini Ólafssyni, f. 12.3. 1936. Börn þeirra eru Þorsteinn, f. 5.8. 1956, giftur Jan Haraldsson, f. 1.4. 1961, eiga þau tvö börn. Kristín, f. 23.6. 1958, d. 12.12. 2008, gift Guðmundi Sighvatssyni, f. 30.5. 1958, eiga þau þrjú börn. Sigrún, f. 12.2. 1961, gift Birni Oddgeirssyni f. 11.12. 1964, eiga þau tvær dætur. Ólöf, f. 1.11. 1968, gift Ásgeiri Þórissyni, f. 31.1. 1968, eiga þau tvær dætur en Ólöf á son fyrir. Yngstur er Sigurður, giftur Steinunni Unu Sigurðardóttir og eiga þau fjögur börn.

Foreldrar Halldóru fluttust að Beigalda í Borgarfirði þegar hún var þrettán ára en fjórtán ára fluttist hún til Reykjavíkur og bjó þar hjá móðursystur sinni og fór þar að vinna. Halldóra og Haraldur byrjuðu búskap á Keflavík, þau bjuggu alla tíð að Lyngholti 13 í Reykjanesbæ. Halldóra vann aðallega við þjónustustörf. Seinni hluta starfsævinnar starfaði hún hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Útför Halldóru verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag, 20. desember 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag kveð ég móður mína, já elsku mömmu mína, nú er samferð okkar hér lokið og það er svo skrýtið að þrátt fyrir veikindi í áratug og mikil veikindi undanfarin þrjú ár þá get ég ekki hugsað það til enda hvernig líf mitt og fjölskyldu minnar verður án mömmu.

Mömmur eru þær sem elska mann mest í þessum heimi, eru alltaf með hugann hjá manni og ekkert gleður þær meira en hamingja barna þeirra og því getur enginn sem á góða mömmu hugsað sér lífið án hennar.

Ég er yngstur fimm systkina og þegar ég rifja upp æskuminningar mínar um mömmu þá eiga þær sér flestar stað í eldhúsinu, því þar sem við vorum svo mörg í heimili þá var mamma annaðhvort að elda, baka eða smyrja ofan í okkur.

Við Ólöf erum tvö svona yngst en þau þrjú eldri voru orðin unglingar þegar ég man fyrst eftir okkur. Mamma og pabbi voru dugleg að ferðast með okkur á sumrin í tjaldvagninum og vinsælast var þá að fara í Þjórsárdal. Þegar ég var ellefu ára fór ég að bera út Morgunblaðið og tók þá að mér stærsta hverfið, Mogginn var þá eins og í dag borinn út fyrir klukkan sjö á morgnana og á dimmum köldum vetrarmorgnum og þegar blaðið kom of seint til okkar þá kom mamma oft óbeðin með mér að bera út svo ég næði að klára áður en skólinn byrjaði. Og mikið var ég feginn þegar ég sá hana koma út til þess að koma með mér að bera út.

Mamma var líka alfarið á móti því að börn væru skömmuð, hún vildi að talað væri við þau á rólegum nótum og þegar unglingsárin brustu á og ég hefði sannarlega átt að vera skammaður þá var það ekki þannig ef mamma var sú sem tók á málinu, hún bara tók mig inn í eldhús gaf mér eitthvað að borða og spjallaði við mig um rétt og rangt.

Í seinni tíð eftir að ég eignaðist fjölskyldu var mamma alltaf boðin og búin til þess að passa fyrir okkur þrátt fyrir sjúkdóminn.

Elsku mamma, ég kveð þig með trega og söknuði í hjarta en trúi því jafnframt að nú sért þú á stað þar sem veikindi og kvalir eru ekki að plaga þig.

Þinn

Sigurður.

Ég kynntist Gógó fyrir rúmum tuttugu árum, ég var sextán ára þegar Siggi vildi endilega kynna mig fyrir foreldrum sínum. Ég lét til leiðast en var nú frekar stressuð yfir þessu og fannst það ekki tímabært en ákvað svo að láta til leiðast. En þetta stress var algjörlega óþarft því Gógó, já og Haddi líka, tóku mér opnum örmum. Við Gógó áttum alla tíð gott samband og féll þar aldrei neinn skuggi á. Við vorum ekkert inni á gafli hjá hvor annarri, en það var alltaf gott á milli okkar.

Hún kenndi mér margt sem ung húsmóðir þarf að kunna og ekki var vanþörf á því við Siggi vorum einungis átján ára þegar við byrjuðum að búa og tvítug þegar við eignuðumst okkar fyrsta barn.

Gógó kenndi mér t.d. að gera sultur og fiskibollur og þar sem ég átti lengi ekki neina hrærivél þá lánaði hún mér alltaf sína þegar hakka þurfti í fiskibollur og ekki má gleyma bolludagsbollunum sem hún kenndi mér líka að baka.

Ég áttaði mig fljótt á því að það yrði enginn hægðarleikur að komast með tærnar þar sem hún hafði hælana í matargerð.

Já, maður hefur mikið reynt í gegnum árin að ná tækni Gógóar í eldhúsinu, með misjöfnum árangri.

Þegar ég var bæði í skóla og að vinna hjálpaði hún mér með elstu börnin mín eins og hún gat. Á þeim tíma var hún enn að vinna og Kristín, Sigrún og Ólöf voru líka með lítil börn og þurftu einnig á aðstoð að halda, svo oft var ansi mikið af börnum á Lyngholtinu á þeim árum.

Seinna meir þegar Gógó hætti að vinna, árið 2001, og ég eignaðist nafna hennar, hann Halldór Loga, þá var orðið rólegra hjá Gógó og áttu þau Halldór mikið af góðum og yndislegum stundum saman. Halldór Logi átti sérstakan stað í hjarta ömmu sinnar og ekki er lengra síðan en bara í sumar að hann fór síðast með ömmu og afa upp í sumarbústað.

Síðustu árin hafa ekki verið auðveld og hafa mikil veikindi sett mark sitt á líf tengdamömmu minnar. Hennar mikla þrautseigja, rólega lundarfar og æðruleysi gagnavart veikindum sínum og í lífinu almennt hafa kennt mér svo ótrúlega margt.

Elsku Haddi minn, ég bið guð að hjálpa þér og gefa þér styrk á þessum erfiðu tímum.

.....

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni,

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli á Uppsölum.)

Í hjarta mínu varðveiti ég fallega minningu um góða konu.

Steinunn Una Sigurðardóttir.

Hin langa þraut er liðin,

nú loksins hlauztu friðinn,

og allt er orðið rótt,

nú sæll er sigur unninn

og sólin björt upp runnin

á bak við dimma dauðans nótt.

(Valdimar Briem)

Besta vinkona mín Gógó hefur nú loks fengið kærkomna hvíld eftir mikla baráttu við parkinsonsveikina.

Það var í Glasgow 1992, við vorum í verslunarferð fyrir jólin að Gógó sagði mér að búið væri að greina sig með parkinsonsveikina, og hún sagðist ætla að berjast af hörku gegn henni. Það gerði hún svo sannarlega, hún var mjög hörð af sér og vann á meðan stætt var og kvartaði aldrei.

Mér finnst skrítin tilhugsun að eiga ekki eftir að koma til þín í Lyngholtið oftar, það var alltaf dúkað borð, kaffi og meðlæti í eldhúsinu sem var alltaf fullt af mat. Þú varst alltaf að hugsa um fjölskylduna þína, öll börnin og barnabörnin sem þú varst svo rík af. Þau komu í frímínútunum úr skólanum og alltaf var nóg á boðstólum fyrir alla.

Það hafa verið erfiðir tímar hjá þér undanfarin þrjú ár, hvert áfallið eftir annað. Ég fann hvað þú þurftir að líða þótt þú talaðir ekki mikið um það, mér fannst partur af þér deyja með dóttur þinni Kristínu í desember 2008, svo komu önnur áföll sem fóru betur, en allt þetta reyndi mjög mikið á þig.

Nú hefur okkar vinskapur staðið í 60 ár án þess að slitna, með mismikilli samveru, en aldrei höfum við orðið ósáttar. Ég vil með þessari kveðju þakka þessi ár:

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hadda og öllum ættingjum þínum sendi ég og fjölskylda mín innilegar samúðarkveðjur.

Þín vinkona,

Sesselja (Stella).

Elsku Gógó, kallið er komið og þrautagöngu þinni lokið, þú sagðir það oft við mig hvað það væri ömurlegt að fá þennan sjúkdóm, en enginn veit sína ævi fyrr en öll er.

Ég var unglingur fyrst þegar ég fór að koma inn á heimili þitt og seinna meir var ég þín hárgreiðslukona, þú varst yndisleg og góð kona og hafðir góða nærveru.

Oftar en ekki þegar þú komst til mín á hárgreiðslustofuna komstu færandi hendi, annaðhvort með eitthvert góðgæti, brjóstsykur eða súkkulaðimola, sem við gátum boðið upp á eða smágjafir og ekki bara handa mér heldur líka handa samstarfskonu minni.

Mér er minnisstætt eitt skipti þegar þú komst á stofuna til mín og var ég þá ekki við og kortið þitt fannst ekki með nafninu Gógó, þá sagðir þú: Ekki hefur hún verið svo formleg og skrifað Halldóra Þorsteinsdóttir og það reyndist rétt og í mörg ár þegar þú hringdir sagðir þú sæl og blessuð, Halldóra Þorsteinsdóttir, hérna megin og höfðum við gaman af þessu. En seinni árin þegar heilsan var orðin slæm kom ég heim til þín á Lyngholtið til þess að klippa þig og lita og þar var tekið vel á móti mér, búið að leggja á borð kaffi og eitthvað gómsætt með kaffinu.

Elsku vinkona, við áttum margar góðar stundir saman og samræðurnar okkar í eldhúsinu á Lyngholtinu eru mér ofarlega í huga. Þú áttir stóra fjölskyldu sem þú varst stolt af og færðir þú mér alltaf fréttir af þeim þegar við hittumst. Söknuður þeirra er mikill og mestur hjá Hadda sem stóð við hlið þér eins og klettur.

Elsku Gógó, ég veit þú ert á góðum stað og það hefur verið tekið vel á móti þér. Ég geymi minningar um góða konu í hjarta mínu, takk fyrir allar góðu stundirnar. Aðstandendum votta ég innilega samúð.

Bylgja Sverrisdóttir.