Meiddur Alexander Petersson gat ekki leikið með Füchse Berlin í gær vegna meiðsla í baki. Óvíst er hvort meiðslin eru alvarleg.
Meiddur Alexander Petersson gat ekki leikið með Füchse Berlin í gær vegna meiðsla í baki. Óvíst er hvort meiðslin eru alvarleg. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Alexander fór að finna til í bakinu eftir bikarleikinn við HSV Hamburg á þriðjudaginn og var bara mjög slæmur á laugardaginn. Hann var eitthvað betri þegar ég heyrði í honum í dag.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Alexander fór að finna til í bakinu eftir bikarleikinn við HSV Hamburg á þriðjudaginn og var bara mjög slæmur á laugardaginn. Hann var eitthvað betri þegar ég heyrði í honum í dag. Á þessari stundu er óvíst hvort hann verður klár í slaginn með okkur á þriðjudaginn í grannaslagnum við Magdeburg,“ sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska 1. deildarliðsins Füchse Berlín, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Alexander Petersson, landsliðsmaður í handknattleik og liðsmaður Füchse Berlin, lék ekki með liðinu þegar það atti kappi við Wetzlar á útivelli síðdegis í gær. Það kom þó ekki í veg fyrir að Berlínarliðið ynni öruggan sigur, 28:19.

Dagur sagði það vera alvarlegt fyrir liðið ef Alexander verður lengi frá keppni því það á eftir að spila þrjá leiki fram að áramótum. „Við förum í hrikalega erfiðan og mikilvægan leik við Magdeburg á heimavelli á þriðjudagskvöldið. Ég vona að Alexander geti verið með þá en það er ómögulegt að segja til um það á þessari stundu,“ sagði Dagur sem var ekki aðeins án Alexanders í leiknum gær. Einnig var landsliðsmarkvörðurinn þýski, Silvio Heinevetter, fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Þá meiddist Sven Sören Crisophersen á þriðju mínútu leiksins og kom ekkert meira við sögu. Þar með var ekki öll sagan sögð því leikstjórnandinn Bartlomiej Jaszka var einnig fjarri góðu gamni.

Áfram í öðru sæti

„Það voru fjórir strákar úr ungmennaliðinu með okkur að þessu sinni. Ég átti von á erfiðum leik en síðan var raunin önnur. Strákarnir stóðu sig frábærlega og léku eins og herforingjar. Við tókum forystu snemma leiks og vorum með yfirhöndina allan leikinn,“ sagði Dagur en lið hans er í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Hamborgar og tveimur stigum á undan stórliðunum Kiel og Rhein-Neckar Löwen sem sitja í þriðja og fjórða sæti.

„Við reynum að halda okkur eins lengi og mögulegt er í öðru sætinu,“ sagði Dagur en lið hans hefur komið liða mest á óvart í þýsku 1. deildinni það sem af er keppnistímabilinu.

Spurður hvort það hafi ekki verið gott að Kiel tapaði stigi í gær gegn Gummersbach sagðist Dagur ekkert vera of viss um það. „Við lítum nú svo á að við séum frekar í keppni við Gummersbach en Kiel þótt við séum fyrir ofan Kiel ennþá. En er á meðan er og við njótum þess bara að vera í góðri stöðu í deildinni,“ sagði Dagur þar sem hann beið eftir að komast með rútu til Berlínar frá Dutenhofen þar sem leikurinn fór fram í gær.

„Við áttum að fara með flugi til Berlínar en það var fellt niður og óvíst með flug á morgun auk þess sem við getum ekki beðið upp á von og óvon hér þar sem við eigum leik heima á þriðjudaginn. Við verðum að búa okkur undir hann eins og kostur er. Því var ákveðið að leigja rútu og fara til Berlínar. Frá þeim stað sem við erum á núna og til Berlínar eru um 500 kílómetrar svo það er útlit fyrir langa rútuferð inn í nóttina. Þess utan er allt á kafi í snjó hérna og því gæti hann tafið för,“ sagði Dagur. Spurður hvort hann ætti von á skafrenningi á leiðinni til Berlínar hló hann og svaraði: „Þetta er ekkert Hellisheiðardæmi í skafrenningi og ofankomu.“

Kári Kristján Kristjánsson var einn besti maður í liði Wetzlar í leiknum við Füchse Berlín í gær. Hann skoraði fimm mörk.

Kiel tapaði stigi á heimavelli

Alfreð Gíslason hefur eflaust gengið þungur á brún af leikvelli í gær eftir að meistaraliðið Kiel, sem hann þjálfar, gerði jafntefli á heimavelli við Gummersbach, 26:26.

Leikmenn Gummersbach jöfnuðu metin þegar aðeins sjö sekúndur voru til leiksloka. Sá leiktími sem eftir var dugði Kiel ekki til þess að tryggja sér stigin tvö. Kiel hefur þar með tapað sjö stigum í deildinni í vetur og má vart tapa fleiri ef það ætlar að verja meistaratitilinn sem það hefur unnið undanfarin fimm ár.

Aron Pálmarsson skoraði eitt mark fyrir meistarana að þessu sinni.

Markvörðurinn Goran Stojanovic, sem Alfreð Gíslason keypti til Gummersbach í sinni tíð sem þjálfari liðsins, reyndist leikmönnum Kiel erfiður í leiknum í gær. Hann varði 24 skot og lokaði marki Gummesbach á löngum köflum.