Jón Baldur L'Orange
Jón Baldur L'Orange
Eftir Jón Baldur L'Orange: "Daniel Ben Simon, blaðamaður Haaretz, telur að það myndi leiða til borgarastríðs í Ísrael ef gengið yrði að kröfum um afhendingu landnemabyggða."

Á þingi síonista árið 1946 var tekist harkalega á um hvort berjast ætti fyrir stofnun Stór-Ísraels eða krefjast sjálfstæðis þótt það þýddi skiptingu Palestínu milli gyðinga og araba (Biltmore-tillagan) í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna (SÞ) nr. 181. Ben-Gúríon, sem varð fyrsti forsætisráðherra Ísraels, barðist fyrir því að fá tillöguna samþykkta sem tókst með naumum meirihluta. Rök hans voru m.a. þau „að aðeins sjálfstætt gyðingaríki, sama hversu lítið það væri, gæti orðið flóttamönnum helfararinnar til bjargar og sáluhjálpar“. Hins vegar var ljóst að gyðingaríkið var ekki Síon, fyrirheitna landið samkvæmt strangri skilgreiningu. Arabaríkin höfnuðu ályktun SÞ þrátt fyrir að með henni hefði verið hægt að stofna sjálfstætt ríki araba í Palestínu.

Rétttrúnaðarflokkar gyðinga hafa alltaf viljað stækka yfirráðasvæði Ísraels utan upphaflegra landamæra og telja það í samræmi við lögmál gyðinga um stofnun Stór-Ísraels. Öfgafullir bókstafstrúarmenn hótuðu að halda uppteknum hætti eftir stofnun Ísraels og valda skemmdarverkum á landsvæðum í Palestínu utan landamæra Ísraels. Þetta skýrir eitt af þeim erfiðu viðfangsefnum sem við er að eiga í að finna lausn á deilu araba og Ísraela. Í þessu má segja að stjórnmálabaráttan í Ísrael kristallist í þátíð og nútíð. Þannig skrifar Símon Peres, fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Verkamannaflokkinn, í endurminningum sínum um kosningabaráttuna árið 1984: „Milli flokka okkar var staðfest mikið hugmyndafræðilegt djúp. Likud hélt enn fast við væntingar um Stór-Ísrael, en Verkamannaflokkurinn vék ekki eitt fet frá málamiðlun við Palestínumenn um skiptingu lands og hernumdu svæðin. Mismunandi menningararfur skapaði brotalöm í einingu nýju þjóðarinnar. Sumt af þessu blasti við og um það var hægt að ræða, annað gróf um sig í leyni undir yfirborði ísraelska samfélagsins. Landið sjálft var sterkasta sameiningaraflið. Allir höfðu þráð það heitt. En ólíkur bakgrunnur og mismunandi menningarstig kyntu undir sundurlyndi.“

Peres gerði sér grein fyrir ólíkum væntingum innflytjenda og afkomenda þeirra eftir uppruna. Vinstriflokkar hafa sótt fylgi sitt til innflytjenda frá Austur-Evrópu (Askenaza), sem voru frjálslyndir í trúmálum, en mið- og hægriflokkar til innflytjenda frá N-Afríku og Mið-Austurlöndum (Sefardanna), sem voru bókstafstrúar. Árið 1977 urðu umskipti í stjórnmálum þegar mið-hægri flokkurinn Likud náði völdum, en Verkamannaflokkurinn hafði haft stjórnarforystu frá fyrstu þingkosningum í Ísrael sem haldnar voru 1949. Enginn flokkur hefur náð meirihluta þingsæta á Knesset. Allar ríkisstjórnir Ísraelsríkis hafa verið samsteypustjórnir. Likud hélt völdum næstu 15 árin fyrir utan sögulegt tímabil þjóðstjórnar Likud og Verkamannaflokksins. Frá 1992 hefur ríkt tímabil óstöðugleika í stjórnmálum með minnkandi fylgi stærstu stjórnmálaflokkanna. Árið 2006 kom til sögunnar nýr miðju- og vinstriflokkur, Kadima, en Likud galt afhroð. Verkmannaflokkurinn hefur talið samkomulag um skiptingu landsins forsendu fyrir varanlegum friði við nágrannaríkin. Hægri öfgaflokkar og bókstafstrúarmenn hafa hins vegar fylgt harðlínustefnu þar sem nýjar landnemabyggðir eru vopn í baráttunni.

Dýrkeyptur friður við Palestínumenn?

Daniel Ben Simon, blaðamaður Haaretz, telur að það myndi leiða til borgarastríðs í Ísrael ef gengið yrði að kröfum Palestínumanna um afhendingu lands sem Ísraelsríki hefur hernumið. Þannig telja áhrifamiklir stjórnmálamenn Ísraels að hernám Vesturbakkans sé liður í að endurheimta hið tapaða og heilaga land Gyðinga sem byggist á sögu- og trúarlegum rökum. Eða svo vitnað sé í orð Daniels Bens Simons:

„Í dag held ég að það krefjist meiriháttar ákvörðunar að slíta í sundur landið. Að leggja niður landnemabyggðirnar þýðir í raun að yfirgefa landið og bókina, og bókin er Biblían. Og það lifa 200.000 íbúar á Vesturbakkanum sem lifa samkvæmt bókinni. Að slíta í sundur byggðina mun krefjast kannski, meira en lífs eins eða tveggja forsætisráðherra, vegna þess að Yitzhak Rabín lét lífið að mínu áliti fyrir 1 prósent landsins. Það mun krefjast meira en eins forsætisráðherra að láta af hendi 98,99 prósent landsins. Ég tel að hér sé um meiriháttar mál að ræða, ekki aðeins í stjórnmálalegu tilliti, heldur að því er varðar það verkefni að þurfa að segja Ísraelum að draumurinn hafi breyst í martröð. Allskonar staðir eins og Jeríkó og Hebron, sem eru hluti Biblíunnar, séu þar með kvaddir.“

Yitzhak Rabín hershöfðingi varð fimmti forsætisráðherra Ísraels fyrir Verkamannaflokkinn (fyrst 1974-77 og aftur 1992-95). Í ræðu sem hann flutti þjóð sinni í september 1992 sagði hann að Ísrael yrði að gefa upp á bátinn „drauminn um Stór-Ísrael í skilningi trúarbragðanna“. Rabín skrifaði undir sögulegt friðarsamkomulag við PLO fyrir hönd Ísraels í Hvíta húsinu 13. september 1993. Ári síðar var Rabín sæmdur friðarverðlaunum Nóbels ásamt Simon Peres og Yasser Arafat. Rabín var myrtur af ungum samlanda sínum, herskáum öfgatrúarmanni, á útifundi árið 1995.

Heimildir: Simon Peres. 1997. Baráttan fyrir friði./ Endurminningar.

Höfundur er stjórnmálafræðingur.

Höf.: Jón Baldur L'Orange